Færsluflokkur: Bloggar

Veðurblogg

Ég verð eiginlega að taka eina létta veðurfærslu. Og þá bara til að kvarta undan veðurleysinu í Ardsley.
VeðurleysiÞað er alltaf sama veðrið hérna - kalt, stillt og bjart. Búið að vera nákvæmlega þannig síðan ég kom frá Íslandi sem var 18.janúar. Í 9 daga!
Á meðan les ég yndislegar veðurfréttir frá Íslandi, eitthvað nýtt og spennandi á hverjum einasta degi.

Ég er alveg viss um að þetta hefur áhrif á geðslag þjóða, fólkið hérna þarf t.d. aldrei að hafa áhyggjur af veðrinu. Þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að fara í vinnuna í blíðskaparveðri og vera svo óvænt veðurteppt í vinnunni. Hérna stenst veðurspáin! Ég get skoðað veðurspá næstu 3ja daga og vitað upp á hár hvernig er best að klæða börnin í skólann þá daga. Gæti jafnvel lagt fram fötin þeirra fyrir vikuna og það myndi aldrei koma fyrir að þau væru vanbúin í skólanum.

Enda er það stórmerkilegt að fólkið hérna talar barasta aldrei um veðrið. Mikið er gott að fá smá útrás fyrir veðurspjallsþörfina Wink.

Við fjölskyldan erum búin að liggja í Næturvaktinni síðan um jólin - reyndar með löngum hléum vegna flakksins á foreldrunum en vorum að byrja aftur í gærkvöldi. Þættir eru auðvitað bara snilld og gaman að því hvernig þeir höfða til allra fjölskyldumeðlima þó það sé kannski ekki alveg á sama hátt. Það er verst að við getum ekki notað alla frasana nema innan heimilisins, höfum reynt að þýða þá á ensku en það hljómar ekki nærri því eins vel. Ég stakk reyndar upp á því að börnin prófuðu að nota "Sæll!" á krakkana í skólanum en þau eru eitthvað rög við það.
GeorgGeorgina

Lýk þessu á tveimur Georgs Bjarnfreðarsonar-eftirhermum Tounge.

Farið vel með ykkur,
Birgitta


Ripstik

Langaði að sýna ömmu og afa í Hraunbænum hvað krakkarnir eru orðin klár á Ripstik-inu sem þau fengu í jólagjöf.
Þau héldu Sirkussýningu fyrir mig í gær, ótrúlega flott. Kemur sér vel að hafa allt þetta pláss í kjallaranum Wink.

ripstikGræjan lítur svona út og er ferlega sniðug. Ótrúlega erfitt að halda jafnvægi á þessu en það er alveg frábært hvað krakkarnir eru orðin góð, þjóta hérna útum allt. Það er annað myndband hérna til hliðar í "Nýjustu myndböndin".

Knús,

Birgitta 


Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó

Þegar við vöknuðum í morgun var lífið orðið svolítið öðru vísi á litinn en það var þegar við fórum að sofa - það var hvítt!

Ný verandarsýnÞetta er nýja útsýnið af veröndinni minni, rosalega gaman að sjá hvernig þetta útsýni hefur breyst á þessum mánuðum sem við höfum verið hérna. Þarf að setja inn myndasyrpu þegar við höfum verið hérna lengur.

Krakkarnir virðast hafa fundið lyktina af snjónum því þau voru komin á fætur fyrir allar aldir og rokin út. Mikið fjör í þeim
Eva Dröfn fann nokkrar endur svamlandi á lækjarsprænunni í garðinum okkar og ákvað að þær hlytu að þurfa morgunmat eins og við. Hún byrjaði á að arka út með vonda  morgunkornið og bjóða þeim en þær vildu ekkert sjá það frekar en við. Hún náði þá í brauðið okkar og það þótti þeim almennilegt og hámuðu í sig eitt og hálft brauð. Þetta var ótrúlega gaman svona í morgunsárið og mikið stuð á öndunum.
Árni með bátinn sinnÁrni Reynir náði í heimasmíðaðan bát sem hann setti á flot. Var búinn að setja í hann lítinn fjársjóð og sá fyrir sér að einhver gutti á hinum endanum myndi finna hann síðar í sömu sögu. Reyndar fór ekki betur en svo að báturinn var næstum sokkinn en endaði reyndar með því að mara bara í hálfu kafi og flaut þannig eitthvað út í buskann.

Svo mokuðu þau allan snjó af stígnum og úr innkeyrslunni áður en þau fengu nóg af útiveru.

Nú verður spennandi að sjá hvort það bæti í snjóinn og skólarnir verði kannski bara lokaðir á morgun.

Nýjar myndir í desemberalbúminu.

Knús,
Birgitta


Ömmu og afaheimsókn

Úff, ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja Smile.
Byrja kannski bara á því að segja að ég trúi því varla að þessi tími sé búinn og að gömlu séu farin.

KarlmennirnirÞetta er búið að vera ótrúlega gott og gaman. Erum búin að borða hrikalega góðan mat, hlæja mikið og fara langt í hina áttina.
Það fyrsta sem við gerðum var að fara í Target og kaupa eitt stykki Jól Tounge. Við keyptum seríur og skraut, jólatré, kúlur, engla og bangsa og ég veit ekki hvað. Svo komum við heim og skreyttum aðeins, svona rétt til að fá fílinginn, restin fer upp í desember.

Á sunnudeginum fórum við niður á Manhattan.
Fórum á Ripley's believe it or not safnið þar sem við skoðuðum margt skrítið og skemmtilegt. Stærsti maður heimsÓtrúlegustu hlutir þar til sýnis. Við hefðum eiginlega þurft að hafa aðeins lengri tíma þar.
Eftir safnið hlupum við beint yfir í leikhús og sáum Mary Poppins söngleikinn. Fótalaus Eva
Hann er hreint út sagt frábær! Amman og afinn keyptu diskinn með tónlistinni og á leiðinni heim var allt sett í botn og við sungum hástöfum A spoon full of sugar, It's a jolly holiday og öll hin lögin. Reyndar eru allir búnir að vera trallandi stef úr söngleiknum daginn út og inn, einn byrjar kannski og áður en maður getur sagt Supercalifragilisticexpialidocious eru allir búnir að taka undir og trallar hver í sínu horni Tounge.

Við erum svo búin að flengjast í hina áttina fram og til baka. Skoða flest allar búðir í svona 10 km radíus og versla aðeins í þeim öllum Wink.Fjölskyldan á Times Square

Það er ekki laust við að mér hafi vöknað um augu þegar ég knúsaði þau bless. Ég er alla vega alveg búin að sjá hvað vantar í stóra húsið mitt!
Ömmu og afa í kjallarann!
Krakkarnir eru sko alveg sammála því, finnst frekar tómlegt í kotinu þegar amman og afinn eru farin.
Knús amma og afi og takk innilega fyrir samveruna.

Birgitta og aðrir aðdáendur

PS. Nýjar myndir í Nóvemberalbúminu


Þakkargjörð

Fyrsta Þakkargjörðarhátíðin okkar var í gær. Og nei, ég eldaði ekki risakalkún með öllu tilheyrandi Wink.  Fengum bara litla frænda kalkúnsins, kjúkling, með fullt af grænmeti og góðri sósu (úr íslenskum ostum Tounge).

BakarameistararnirDagurinn fór bara í algjör rólegheit og slökun. Dæturnar ákváðu að þær myndu sjá um eftirmatinn og ákváðu að bara súkkulaðiköku. Það var greinilegt að þær höfðu ekki gert þetta oft áður en myndarskapurinn var ótrúlegur. 

Kakan var rosalega flott, eins og sjá má á myndinni og afskaplega góð á bragðið. Þær eiga sko framtíðina fyrir sér í kökubakstri.

Kökulistaverkið

 

 

 

 

  

Enduðum svo daginn á að spila - eins og sést er mikið keppnisskap í sumum

Spilafólkið

 

Nú teljum við bara niður mínúturnar þangað til amma og afi koma í kvöld og æfum knúsin.

Knús og kram,

Birgitta og co


Mest lítið að frétta

Lífið gengur bara sinn vanagang.

AfraksturinnVinkona Köru búin að vera í heimsókn síðan á fimmtudaginn og helgin búin að fara í að snattast með þér stöllur um New York. Þær misstu reyndar af Hairspray sýningu á Broadway vegna þess að stage hands (vantar íslenska þýðingu á þetta starfsheiti takk) eru í verkfalli. Þær voru nú ekki í vandræðum með að finna sér eitthvað annað að gera og versluðu bara eins og óðar væru.

Heimsóknin fór að mestu leyti í að skoða allar búðir nágrennisins, mollið fékk góða yfirferð og svo var reyndar kíkt í bíó og á vaxmyndasafnið, horft á nokkrar DVD myndir, flissað, hlegið og vakað frameftir Tounge.

Við hin bara í rólegheitum á meðan að spila, Árni og kassaskrímsliðleika með pappakassa Kissing, horfa á Svamp Sveinsson maraþon, læra, læra og læra og lítið annað.
Keyptum reyndar vetrarföt á börnin, það er nefnilega orðið ansi kalt hérna. 1° í mínus hérna er eins og 5° í mínus heima á Íslandi og hitinn er búinn að vera kringum frostmark á morgnana og seinnipartinn alla vikuna.

Framundan er mikil vinnutörn hjá mér, stórar ritgerðir að skila og próflestur að byrja. Thanksgiving er núna 22.nóvember og þá verða mamma og pabbi á leiðinni til okkar - það mun sko verða íslensk Thanksgiving hátíð hérna á Krossgötunni Happy, mikil tilhlökkun í lofti vegna þess!

Held ég setji bara punktinn hérna, ekkert að frétta bara ég að blaðra Wink.

Myndir í nóvemberalbúminu.

Birgitta

Grein

Gleymdi alveg að segja frá því að um daginn hrökk ég upp úr tölvuskjánum við þvílíkan hávaða og læti. Gekk hérna um allt að leita að ástæðunni og fann hana á - eða eiginlega í - veröndinni bakvið hús.

Það er ansi hátt tré sem stendur upp við gaflinn á húsinu, greinilegt að ein greinin hefur gefið upp öndina og tak sitt á lífinu og látið gossa.

B


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband