Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
21.9.2007 | 14:42
Fréttir og veður (auglýsingar og dagskrá)
Það er aldeilis að þessi vika hefur verið fljót að líða, bara komin helgi aftur .
Það er ekki hægt að segja að daglegt líf á Krossgötunni sé svipað því sem var í Brautarásnum. Dagarnir hérna byrja klukkan 6:00 hjá Gumma og Köru og 6:50 hjá okkur hinum. Eftir það hefðbundna tekur við skutl útum allan bæ - Kara fyrst í skólann, svo Árni og loks bíðum við Eva Dröfn saman eftir skólabílnum hennar.
Þetta hefur verið svoldið stress en ég held við séum búin að finna rétta taktinn í þetta - samtaka nú einn tveir einn tveir!
Ég ætla að prófa að setja vikuplanið inn sem viðhengi, veit ekkert hvernig það mun líta út. Ef það tekst þá er Eva Dröfn bleik, Árni blár og Kara fjólublá. Ég ákvað að setja þetta upp í skjal svo ég væri nú pottþétt mætt á réttan stað á réttum tíma - líka svo Undramundur geti gripið inn í ef ég er vant við látin .
Þetta er þvílíkur munur því hérna þarf að skutla og sækja ALLT! Ekkert sem heitir að labba í fimleika/karate/gítar eins og heima. Ég er farin að skilja þetta hugtak "soccermom" mun betur en ég gerði. Og tómstundir Köru eru ekki enn komnar á listann , hún er reyndar að stefna á að taka kickboxing og þeir tímar eru yfirleitt á kvöldin svo þetta mun allt púslast saman einhvern veginn.
Það er svo gaman að því að ef við heyrum frá einhverjum á Íslandi þá fáum við alltaf fréttir af veðrinu. Hérna er bara sama veðrið dag eftir dag, nánast engin breyting frá því að við komum hingað fyrst. Það er reyndar aðeins að kólna, ekki lengur hægt að fara í stuttbuxum og stuttermabolum á morgnana heldur þarf að vera í peysu en svo hitnar vel yfir daginn og allir koma fáklæddir heim. Maður er semsagt hættur að gá til veðurs áður en maður klæðir sig á morgnana, það hefur t.d. bara rignt einn dag síðan við komum hingað en það var samt heitt og engin ástæða til að breyta klæðnaðinum nokkuð.
Ég spjalla stundum við eina mömmuna meðan við bíðum eftir skólabílnum. Hún er frá Argentínu og er búin að vera mjög hjálpleg og indæl. Hún sagði mér að ef það snjóar hérna þarf alltaf að hringja í símsvarann hjá skólanum því skólarnir loka mjög oft ef það snjóar . Þá væru öll börn heima, annað hvort þar til búið er að moka allt eða þar til næsta dag ef það snjóar mikið. Það verður gaman að sjá hvað telst "mikill snjór" hérna í Ardsley
.
Var að bæta við myndum í September-albúmið. Hérna er ein af Evu Dröfn fyrir utan uppáhaldsbúðina sína - Build a Bear á Manhattan.
Knús og kossar,
Birgitta og co.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.9.2007 | 16:00
Sönglandi, syngjandi
Ég er búin að sitja hérna í allan morgun og hlusta á yndislegan spænskan (eða mexíkanskan) söng. Þrífurnar mínar tvær voru nefnilega hérna og þær syngja sko og raula í kór allan tímann - ekkert smá notalegt.
Og þvílíkur munur á íslenskum þrífum og spænskum/mexíkönskum! Það er ekkert sem heitir "við gerum ekki svona eða hinsegin" það er bara allt tekið og skrúbbað og sumt skrúbbað uppúr klór. Og ekki nóg með það heldur tóku þær úr þvottavélinni, settu í þurrkarann og í næstu vél og gengu frá öllu - óumbeðnar . Og rúsínan í pylsuendanum... þetta kostar skid og ingenting!
Annars gengur allt ósköp vel hérna á Krossgötunni.
Krakkarnir að aðlagast vel í skólunum, farin að eignast kunningja og skilja meira og meira með hverjum deginum.
Eva Dröfn fór í fyrsta danstímann í gær, hún valdi sér að æfa jassballet og líkaði bara ágætlega. Árni fer á fyrstu karateæfinguna í dag og hlakkar mikið til, hann vill ekki missa úr meðan við erum hérna og þurfa að byrja á eftir félögunum á Íslandi þegar við komum heim. Mér gengur ekki vel að finna samkvæmisdansa fyrir Köru, það virðist ekki vera "inn" hérna í hverfinu en ég er ekki hætt að reyna.
Ég er að ná í afturendann á náminu, er ekki eftirá í öllu lengur og mun vonandi ná að vinna allt upp í þessari viku. Svo fæ ég námslegan stuðningsaðila númer 1 í heimsókn í byrjun október og þá verð ég nú aldeilis með þetta allt á hreinu . Hún Marta ætlar nefnilega að koma og vera hérna í nokkra daga áður en við förum í staðlotu. Við ætlum að vinna saman verkefni sem við eigum að flytja þá.
(þetta er ekkert fyndið - við ætlum VÍST að læra!).
Helena systir ætlar svo að koma með mér heim úr staðlotunni og við ætlum að gera eitthvað hrikalega skemmtilegt saman - svo vill hún endilega passa fyrir mig meðan við gömlu hjónin förum eitthvað en ég veit ekkert hvort ég leyfi henni það .
Svo í nóvember fær Kara vinkonu sína í heimsókn og þær eru komnar á fullt í að plana allt sem á að fara og skoða og kaupa og sjá .
Aðrar heimsóknir eru ekki Planaðar en sendið mér bara nótu ef þið viljið kíkja og ég skal athuga hvað er laust .
Kveðja,
Birgitta
15.9.2007 | 15:29
Myndir
Jæja, þá er efsta hæðin komin alveg í lag . Öll herbergi tilbúin fyrir utan kannski hjónaherbergið sem mætti alveg bæta í húsgögnum.
Ég er búin að sjá það að hjónaherbergið er ca 4 sinnum stærra en hjónaherbergið okkar í Brautarásnum, herbergið hans Árna er tvöfalt stærra, Evu Drafnar er svona helmingi stærra og Köru eitthvað aðeins stærra. Það gæti því orðið erfitt að skipta aftur til baka .
Þar sem öll herbergi voru rosalega fín og flott í svona 2 mínútur eftir að við kláruðum að koma öllu saman þá ákvað ég að smella myndum. Það eru fleiri myndir í myndaalbúminu sem heitir September.
Svo er hérna ein mynd af Undramundi í peysunni fínu sem hann fékk í afmælisgjöf, senda alla leið frá Íslandi (ásamt lýsispillum og lakkrís ).
Nú erum við fjölskyldan á leiðinni inn á Manhattan þar sem við ætlum að gera okkur glaðan dag. Ætlum að fara á Stomp og kíkja aðeins í búðir og ef við verðum heppin hittum við Oddnýju frænku kannski á vappinu í ChinaTown.
Birgitta
Ps. Myndirnar hlaðast eitthvað furðulega inn, þið getið skoðað þær betur í Myndaalbúminu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.9.2007 | 21:22
Loftmyndir
Ég á að vera að læra núna en er komin með alveg upp í kok af frumlagsígildum, nafnliðum og setningarlegum einkennum sagna.
Og þá er mikið skemmtilegra að blogga .
Við erum búin að hafa það hrikalega gott í dag. Við krakkarnir erum í fríi og því sváfum við úúúút í morgun.
Þurftum að skila bílaleigubílnum en erum svo heppin að dóttir hans Jims, sem vinnur hjá Undra, var einmitt að fara í 4ra mánaða Evrópureisu í gær og þau lánuðu okkur bílinn hennar. Sá heitir Sophie og er lítill sætur Golf. Föttuðum svo reyndar seint í gærkvöldi að Sophie er ekki með neitt GPS-tæki svo við brunuðum í Best Buy til að fjárfesta í þeim lífsnauðsynlega grip - en það var lokað!
Ég keyrði því í fyrsta skipti í morgun ÁN GPS í Best Buy en þá var græjan ekki til .
Ég komst þó áfallalaust fram og til baka og er ekkert smá stolt af mér!
Græjan var pöntuð á netinu og ætti að koma á morgun.
Ég veit ég er margbúin að lofa að setja hingað inn myndir af slotinu en þar sem við eigum ennþá eftir að klára upppakkningu þá ætla ég að geyma það fram að helginni. Þangað til getið þið skoðað þessar fínu loftmyndir af húsinu sem ég fann á Google Maps.
Þetta er mynd af húsinu okkar. Vonandi sést litli blái pinninn í þakinu sem ég notaði til að merkja. Við búum semsagt ekki í risahúsinu með sundlauginni og litla vatninu í garðinum. Þar búa skrilljónamæringar sem eiga yfir 400 bensínstöðvar, hef mikið verið að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að fara að því að kynnast þeim en ekki enn fengið góða hugmynd - megið alveg koma með uppástungur
.
Hérna er skólinn hennar Evu Drafnar - Concord Road Elementary School. Þarna eru borðaðir djúpsteiktir hamborgarar í hádeginu og allir sem eru í mat fá nammi í eftirmat. Þeir sem koma með nesti fá sér popp, snakk og sælgæti og vinsælasta jógúrtið er Trixjógúrt (muniði ekki eftir Trix?). Evu Dröfn líkar mjög vel þrátt fyrir þetta allt og er búin að eignast nokkrar vinkonur. Hún er einmitt á þeim aldri þar sem hinum stelpunum finnst mikið sport að vera með "íslensku stelpunni" og þær keppast um að hjálpa henni og leika við hana.
Þetta er Árnaskóli - Ardsley Middle School. Glöggir lesendur sjá líklega bláa punktinn efst í hægra horninu.. það er húsið okkar.
Hérna er líka borðað subb og vibb í hádeginu en að öðru leyti er þetta mjög professional og flottur skóli. Við komumst reyndar að því í gær að álagið var helst til mikið á Árna greyið. Hann er það góður í enskunni og duglegur að spyrja að kennararnir hafa líklega talið að hann væri fullfær um að vinna sömu vinnu og aðrir nemendur í 6. bekk. Sem hann er auðvitað ekki.
Hann fékk því smá kvíðakast í gær yfir heimanáminu og átti frekar bágt greyið . Við erum búin að tala við skólann og þar var haldinn fundur með kennurunum hans og á að búa til nýtt plan fyrir hann. Og allir kátir og ánægðir með það.
Og hérna er svo Köruskóli - Ardsley High School. Hann virkar rosalega stór svona á mynd en telst lítill á mælikvarðanum hér, held það séu ekki nema um 600 nemendur. Hérna er hægt að kaupa sér hollari mat en er í boði í hinum skólanum. Kara er mjög ánægð þarna og námið gengur vel. Það er stundum svolítið erfitt að átti sig á hvar næsti tími er en það er allt að koma. Hún var svo heppin að hitta þarna íslenska stelpu og sú er búin að vera dugleg að kynna Köru fyrir vinum sínum og skólanum.
Og þannig er nú það.
Kannski ég reyni að remba mér gegnum restina af fyrirlestrinum, vona bara að það sitji eitthvað smá eftir.
Mig langar að enda þetta á að þakka ykkur fyrir öll commentin, það er gaman að vita af því að þið eruð að fylgjast með, þá finnst mér ég ekki vera alveg jafnlangt í burtu.
Knús og kyss,
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.9.2007 | 23:47
Heimanám og ostur
Ósköp lítið að frétta héðan.
4. skóladagurinn gekk mjög vel fyrir sig og allir komu ánægðir heim. Heimanámið er reyndar svolítið yfirþyrmandi þar sem það er allt á ensku en þau eru algjörar hetjur börnin mín þrjú og láta sig hafa að liggja yfir því þar til það er búið.
Við reynum að halda okkur við það að byrja á heimanáminu um leið og þau eru búin að fá sér hressingu en stundum er samt kominn kvöldmatur áður en allt er búið. Það mæðir reyndar mest á Köru en hún hefur (eðlilega) langmest að gera greyið. Ég hef þó fulla trú á því að þetta muni ganga hraðar þegar þau eru komin betur inn í málið og farin að ná öllum hugtökum og frösum sem maður lærir ekki af útvarpi, sjónvarpi og tölvuleikjum - hef ekki ennþá heyrt Eminem syngja um multiplication, Bratz leggja stund á experimental science eða umræðu um literature í Star Wars en það kemur kannski að því .
Lífið er semsagt að komast í rútínu sem er ósköp gott fyrir alla. Það er svo frí í skólunum á fimmtudag og föstudag útaf hátíð sem heitir Rosh Hashanah og er hátíð gyðinga til fögnuðar fyrsta dags nýs árs hjá fólki, dýrum og lagalegum samningum (people, animals, and legal contracts) og þá ætlum við að reyna að gera eitthvað skemmtilegt.
Lærdómurinn gengur ekki alveg eins vel hjá mömmunni . Morgnarnir mínir eru búnir áður en þeir byrja, það er alltaf eitthvað sem þarf nauðsynlega að gera, skjótast, sækja eða eitthvað, og áður en ég veit af eru börnin komin heim og minn friður úti. Og það er ekki eins og ég sé að taka uppúr kössum - ónei, ég er að gera eitthvað allt annað (ekki spyrja mig hvað). Ég vona að þetta lagist um leið og öll okkar mál hérna komast á hreint.
Undramundur er núna í ökuskólanum . Það er meiriháttar ferli að fá gilt ökuskírteini og það þurfum við að hafa til að geta keypt og tryggt bíl. Hann lætur sig þó hafa það, búinn í bóklega prófinu, er í ökuskólanum núna og tekur svo verklega prófið í október.
Og okkur tókst að finna ost ! Danskan hávarta sem bragðast bara nánast eins og íslenskur brauðostur. Það var mikil gleði í kotinu þegar það uppgötvaðist (þarf ekki mikið til að gleðja lítil hjörtu - eða maga
). Svo heyrðum við af íslenska skyrinu í Wholefoodsmarket sem við verðum að bruna og kaupa (ætli morgundagurinn fari ekki í það..
) og þá hlýtur mér að takast að forða matagötunum mínum frá sultardauða.
Allir semsagt í góðum gír.
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt 12.9.2007 kl. 02:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.9.2007 | 13:25
Lítill mexíkani með skrú, skrú, skrúfjárn...
Það er alveg magnað að ef maður pantar sér einhverja þjónustu hingað heim þá mætir yfirleitt verkstjóri og skilur eftir 2-3 mexíkana til að vinna vinnuna.Í gær voru hérna 2 mexíkanar í 10 klukkutíma
að skrúfa saman IKEA-vörur , verkstjórinn þeirra skutlaði þeim hingað og sótti þá svo þegar þeir voru búnir. Það er alveg meiriháttar að geta pantað heimsendingarþjónustu og samskrúfun á IKEA-dótinu, Undri gekk um með sælubros á vör yfir því að þurfa ekki að gera þetta allt sjálfur.
Mexíkanarnir voru mjög duglegir og náðu að skrúfa næstum allt saman, þeir voru virkilega kátir og glaðir við sína vinnu, töluðu hátt og hlógu mikið. Árna Reyni þótti þeir mjög skondnir og var farinn að kalla þá Maríóbræður, sem var mjög viðeigandi
.
Í dag er fyrsti dagurinn þar sem hægt er að segja að allt sé í nokkuð eðlilegum farvegi. Krakkarnir fóru allir í skólann í morgun, Gummi fór í vinnuna og ég er sest við tölvuna og ætla að myndast við að ná upp þeirri vinnu sem hefur setið á hakanum hjá mér undanfarnar vikur. Morgnarnir hérna verða nokkuð skondnir - Árni og Kara mæta 7:55 í skólann og eru í sitthvora áttina. Gummi þarf að vera mættur í lestina 8:02 í næsta bæ og Eva mætir svo síðust eða klukkan 8:40. Þetta þýðir ansi mikinn akstur fram og til baka um hverfið og svolítið span á öllum. Á jákvæðu nótunum þá verð ég líklega fljót að læra að rata hérna .
Það er aðeins farið að bera á heimþrá. Þetta er allt svo ólíkt því sem við eigum að venjast og undanfarið hefur lítið verið hægt að gera nokkuð annað en að pakka upp, ganga frá, borða og sofa. Við ætlum að reyna að bæta úr því næstu helgi og gera eitthvað saman - kannski finna strönd til að fara á eða skemmtigarð eða eitthvað skemmtilegt.
Svolítið gaman að því hvers þau sakna mest - matarins! Árna finnst maturinn hérna bara ekki neitt eins og hann á að vera. Það vantar almennilegt smjör, enginn ostur er góður, brauðið er of "þykkt" og jógúrtið kekkjót. Það sem bjargar þessu öllu að mamman getur eldað góðan hafragraut hvar sem er í heiminum og svo má ekki gleyma "glænýju ömmusultunni" sem fyldgi okkur yfir hafið. Veit ekki hvar við værum án hennar .
Árni saknar líka vina sinna í Árbæjarskóla, krakkarnir hérna eru víst ekki eins og hann er vanur en ég held að þetta taki bara smá tíma. Stelpurnar sýna honum reyndar mikinn áhuga - of mikinn að hans sögn. Svo mikinn að hann þurfti hreinlega að hlaupa burtu frá þeim á föstudaginn, þær spurðu hann svo mikið .
Ég ætla að segja þetta gott í bili og reyna að koma einhverju í verk. Þ.e.a.s. ef útsýnið, íkornarnir og dádýrin trufla mig ekki of mikið - er svo æðislegt að sitja hérna og stara útum gluggann .
Knús og kyss,
Birgitta
7.9.2007 | 18:22
Myndir og meiri fréttir
Ég var varla búin að senda inn færsluna hér að neðan þegar ég fann blessaða myndavélasnúruna. Hún var ofan í "vitlausum" kassa og því ekki nema von að ég finndi hana ekki.
Annars verð ég að segja að ég er ofsalega fegin að ég er aaaalein heima þegar ég pakka uppúr kössum hérna á Krossgötunni. Ég á bara ekki orð yfir sjálfri mér þegar ég er að taka upp hluti sem ég veit ekki einu sinni til hvers ég geymdi hvað þá að ég skilji hvers vegna ég dröslaði þeim með mér yfir hálfan hnöttinn (eða svona næstum því).
Ætla sko ekki að segja neinum frá því hvað var í þessum kössum (Marta mín er eina undantekningin því hana vantaði svo svakalega upplyftingu) - þetta fer með mér í gröfina (eða bara beint í ruslið).
Hérna koma svo fullt af myndum. Það verða líka fleiri myndir inni á albúmalistanum en hann má nálgast með því að smella hingað.
Krakkarnir á leiðinni í ævintýrið mikla.
Í sundi á hótelinu.
Kara skvís.
Þetta er svo framhliðin á húsinu. Lengst til vinstri er inngangurinn, hann er opinn alveg upp svo að glugginn beint fyrir ofan er hluti af andyrinu og stigaopið upp á efri hæðina. Á neðri hæðinni til hægri er borðstofan og þar fyrir ofan er herbergið hans Árna Reynis.
Restin af framhliðinni. Þarna er bílskúrinn á neðri hæðinni og hjónaherbergið á efri hæð.
Bakhliðin. Lengst til vinstri á neðri hæðinni er stofan/fjölskyldu/sjónvarpsherbergið, þar fyrir ofan er "háaloftið" sem er inn af hjónaherberginu og þar mun Undramundur hafa vinnuaðstöðuna sína. Glugginn sem kemur aðeins út er þar sem eldhússborðið er og þar fyrir ofan er baðherbergið inn af hjónaherberginu.
Þetta er svo restin af bakhliðinni. Lengst til hægri á neðri hæð er eldhússglugginn, þar við hliðina er lærdómsherbergið mitt. Efst til vinstri er herbergið hennar Köru, litli glugginn er baðherbergi barnanna og efst til hægri er herbergi Evu Drafnar.
Þessar myndir lýsa samt engan veginn stærð húsins. Eldhússglugginn er t.d. ekki pínulítill heldur bara nokkuð stór. Glugginn á lærdómsherberginu mínu er hærri en ég - þetta eru svona rennihurðir.
Það eru fleiri myndir í albúminu sem er merkt september.
Knús og kram,
Birgitta
7.9.2007 | 15:58
Loksins!
Loksins erum við komin með nettengingu, nú líður mér eins og heima hjá mér . Erum reyndar líka komin með símanúmer og 100 og eitthvað sjónvarpsrásir en það hefur lítið verið notað.
Við fengum húsið afhent seinnipart þriðjudags og ég verð að viðurkenna að ég fékk vægt áfall. Mig langaði á tímabili bara að fara að væla og var næstum því búin að draga famelíuna á næsta hótel.
Húsið var svoooo skítugt!
Eigendurnir komu þarna rétt á eftir okkur og þau fengu líka áfall .
Sem betur fer eru þau algjörar perlur og þau fóru á fullt í að hreinsa út draslið sem hafði verið skilið eftir, redduðu fólki til að koma daginn eftir að þrífa og í sameiningu gerðum við þetta þannig að við gátum gist hérna fyrstu nóttina.
Það var svolítið eins og útilega, allir á dýnum á gólfinu og EKKERT annað inni í húsinu.
Við bættum úr því daginn eftir og fórum og keyptum helstu nauðsynjar og í gær komu svo húsgögnin sem við keyptum okkur og palletturnar með öllu dótinu okkar frá Íslandi. Hingað komu þrjár þrífur sem fóru með klór á nánast allt - allt sem þoldi klór alla vega og húsið var skrúbbað hátt og lágt og nú angar allt af hreinlæti.
Herbergin eru að verða mannsæmandi - eiginlega bara ferlega kósí - og ég er að myndast við að rífa uppúr kössunum. Finn reyndar engin hnífapör en þau hljóta að koma í leitirnar .
Fyrsti skóladagur barnanna var í gær og ég verð að segja að hann gekk framar öllum vonum.
Kara gengur nú í Ardsley High School og henni gekk rosalega vel að koma sér á milli stofa og kom heim með heimanám og fullt af glósum. Hún hitti meira að segja íslenska stelpu í skólanum, sú er búin að búa hérna í einhvern tíma því hún er víst svolítið ryðguð í íslenskunni en hún kynnti Köru fyrir vinum sínum og ætlar að vera henni innan handar í skólanum.
(alveg lygilegt hvað þetta er lítill heimur!)
Árni Reynir er í Ardsley Middle School og líst bara ágætlega á. Miðskólinn er svipaður og High School að því leyti að krakkarnir eru með skápa og þurfa að skipta um stofu fyrir hvern tíma. Það er eini mínusinn sem hann sá því stundum er langt frá stofu í skáp í stofu - og bara 3 mín. til að koma sér milli stofa. - það er annað, stundatöflurnar þeirra eru mjög furðulegar og tímarnir byrja 11:48 og skólinn er kannski búinn 2:12, svoldið skondið. Árni er með svona skólavin - sem er nemandi í skólanum sem tekur hann að sér og sýnir honum hvar allt er og hvernig hlutirnir virka (vildi að það væri svoleiðis fyrir húsmæður ). Reyndar gekk honum illa að finna skólavininn sinn því þeir eru ekki saman í tímum en hann bjargaði sér þessi elska.
Eva Dröfn er í Concord Road Elementary School þar sem hún er í elsta árgangi. Hún er í bekk hjá Mrs. Fusillo sem er "svoldið gömul en samt mjög góð" . Hún fékk líka svona skólavinkonu en sú var eitthvað annað að hugsa svo Eva fann sér bara nýja.
Þau komu öll ánægð heim úr skólanum í gær en mjög hissa á ýmsu sem er ólíkt því sem þau eiga að venjast. Eva Dröfn átti t.d. ekki orð yfir því að það er hægt að kaupa Skittles, Smarties og KitKat í matsalnum í skólanum - fyrir 1.-4.bekk! Ég varð nú eiginlega hálf-orðlaus sjálf. Eru Bandaríkjamenn ekki að berjast við offitu, offituvandamálið orðið alvarlegra en eyðni og eitthvað meira? Og skólamatseðillinn - of foj - ekki skrítið að þetta séu svona fitubollur - en nóg um það, mín börn fá bara hollt og gott nesti .
Þau fengu öll mikla athygli fyrir að vera frá Íslandi og ég held að þeim hafi ekki þótt það leiðinlegt.
Ég er búin að rífa uppúr heilum hellingi af kössum en mér tekst ekki að finna myndavélasnúruna mína en hún hlýtur að koma í leitirnar allra næstu daga og þá dæli ég inn myndum í lange lange baner.
Þetta með dýralífið í nágrenninu er sko satt! Í morgun fylgdumst við Árni Reynir með íkorna á veröndinni sem átti í furðulegum samskiptum við annan íkorna (sem var uppi í tré). Í gær voru dádýr að trítla sér hinum megin við lækinn í bakgarðinum og svo sjáum við alltaf öðru hvoru eitthvað sem heitir Woodchuck og ordabok.is (takk fyrir ábendinguna Marta mín , svona getur maður dottið út í öllum látunum) þýðir það sem skógarmúrmeldýr, hef nú aldrei heyrt það áður en ég hef heldur aldrei séð svona dýr áður svo það er kannski ekkert skrítið.
Lífið er semsagt bara ágætt á Krossgötunni. Það er heilmargt sem við eigum eftir að læra á - eins og t.d. loftræstikerfið, hér er annað hvort alltof heitt eða ískalt - en það kemur með tímanum. Ég held að þetta eigi eftir að verða mikið og gott ævintýri fyrir okkur öll.
Ætla að láta þetta duga í bili, er búin að vera að pikka þetta í hátt í 3 tíma milli þess sem ég ríf uppúr kössum og ætla að reyna að ná að gera meira áður en krakkarnir koma heim úr skólunum.
Knús og kyss til allra,
Birgitta
4.9.2007 | 12:52
Flutningadagur
Í dag er síðasti dagurinn á hótelinu fína og það gæti því orðið einhver bið á færslu frá mér. Ég veit ekki hvenær við fáum nettengingu heim en það verður sett í forgang um leið og við erum komin með lyklavöld á Krossgötunni.
Síðustu dagar hafa farið í mikinn þvæling á milli húsgagnaverslana og við erum búin að versla okkur það allra nauðsynlegasta. Flest fáum við afhent á morgun og fimmtudag og við ætlum svo að gefa okkur nokkra daga í að finna út hvað annað okkur vantar, hvað við höfum pláss fyrir og þ.h.
Ég verð að skjóta því að að ég hef aldrei vitað til þess að það væri hægt að prútta ALLS STAÐAR. Kannski er það bara hann Undramundur minn en honum tókst alla vega að fá verulega afslætti í öllum verslunum nema IKEA. Á einum staðnum var Labor Day útsala og flest allt á 50-70% afslætti. Hann náði samt í gegn viðbótarafslætti, niðurfelldum sendingargjöldum og ég veit ekki hverju . Það er alveg magnað að fylgjast með honum "in action".
Við fórum í fyrsta matarboðið í amríkunni í gær. Jim, sem vinnur með Undra hérna á skrifstofunni, og konan hans buðu okkur í svona ekta amerískan Labor Day dinner með grilluðum hamborgurum, pylsum og bbq kjúklingi - lítið af grænu (nema fyrir Undra) og nóg af djúsí - virkilega ljúffengt og gott.
Þau búa bara um 5 mín frá okkur og það var mjög gaman að rabba við þau um hverfið, þau hafa búið þarna í yfir 20 ár og þekkja því allt. Þau sögðu okkur t.d. að við megum alveg búast við því að sjá dádýr trítla um í garðinum okkar, íkornarnir eru auðvitað útum allt, chipmunks (veit ekki hvað þeir heita á íslensku), þvottabirnir, skúnkar og fleiri dýr sem ég man ekki í augnablikinu. Litla skottan varð svo spennt yfir þessu öllu að ég á von á því að hún muni hanga úti í glugga allan sólarhringinn að bíða eftir Bamba og fjölskyldu
.
Í dag erum við að fara með Evu Dröfn í evaluation í skólanum hennar, þar verður metið hversu mikla aðstoð hún mun þurfa í skólanum. Við fáum líka að vita hvernig verður með skólabílana fyrir stelpurnar, Árni Reynir gengur í skólann, hann er bara örskot frá.
Nú þarf ég að fara að ræsa liðið mitt, þurfum að pakka saman dótinu og koma okkur yfir til Ardsley. Ég vona að nettengingin okkar komist á fljótlega og með henni sjónvarp og sími. Ég skýt inn fréttum um leið og það gerist .
Birgitta
3.9.2007 | 01:32
Ein mynd
Þetta eru semsagt börnin fyrir framan Krossgötu 11. Við útidyrnar stendur Dr. Diaz, landlord með meiru.
Birgitta