9.1.2008 | 16:47
Undramundur Armbeygjustjóri
Ég hélt ég myndi nú seint segja þetta en ég er komin með nóg af því að vera í fríi. Það segir kannski eitthvað um hvað mér þykir gaman í skólanum að ég er farin að bíða með óþreyju eftir að byrja aftur. Mér gekk mjög vel í báðum fögunum sem ég tók í haust, fékk 9 í báðum og er virkilega sátt við það.
Það vita það nú líklega flestir að aðstæðurnar hafa breyst heilmikið hjá okkur hérna á Krossgötunni síðustu vikur. Undramundur er að hætta sem framkvæmdastjóri Leikhúsmógúlsins og byrjar með vorinu að vinna hjá Latabæ. Hann verður yfir einni af erfiðustu deildunum þar - armbeygjudeildinni .
Þetta þýðir að hann verður að vinna að heiman fram á sumar, við hjónin verðum semsagt bæði heimavinnandi - hann uppi í armbeygjunum og ég hérna niðri að læra. Það verður örugglega frekar skrítið en mjög notalegt. Það verður alla vega mjög auðvelt að komast saman í Lunch .
Það er því alveg öruggt að við flytjum öll heim næsta sumar, þetta verður bara stutt stopp á Krossgötunni í þetta skiptið. Það fer því hver að verða síðastur að koma í heimsókn, þeir sem hafa áhuga ættu að hafa samband svo við getum passað upp á að það verði ekki tví- og þríbókanir í gestarýmið .
Ég er búin að setja eitthvað af myndum í Janúaralbúm, mest af því eru reyndar myndir sem ég tók á nýjasta leikfangið mitt. Við Undri fengum nefnilega dót í jólagjöf í fyrsta skipti í mörg ár og ég er búin að vera mikið dugleg að leika mér. Það er ólíkt skemmtilegra að taka myndir á alvöru myndavél, hlakka til vorsins, ætla að vera dugleg að smella af myndum héðan, hef heyrt að vorið hérna sé alveg yndislega fallegt og blómlegt. Það mætti reyndar halda að það væri komið vor núna, hitinn fór í 20 gráður í gær og er í um 17 gráðum núna, glampandi sól og fallegt. Ég á reyndar ekki von á að það endist, getur varla verið að veturinn sé svona stuttur.
Hérna til vinstri eru líka myndbönd af börnunum, undir Nýjustu myndböndin.
Knús í kotin ykkar,
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)