18.6.2008 | 21:13
Litlir kassar
og stórir og meðalstórir, langir og mjóir, flatir og breiðir, uppum alla veggi og útum öll gólf.
Ég er bara búin að vera nokkuð dugleg í niðurpökkun síðustu daga. Get ekki sagt að ég skemmti mér við þetta en það hjálpar að hafa iPodinn á eyrunum og góða tónlist í botni. Verst bara að Kara greyið þarf þá að hlusta á gaulið í mér en hún hefur ekki kvartað hingað til.
Hún tók samræmt próf í stærðfræði í gærmorgun og gekk bara vel. Nú situr hún við borðstofuborðið og lærir líffræði sem er næst á dagskránni. Prófið er á þriðjudaginn og er það síðasta þessa önnina - svo er hún komin í langþráð SUMARFRÍ.
Það var lítið um húllumhæ hérna í gær þó það væri 17. júní. Árni og Eva fóru með Íslandsderhúfurnar sínar í skólann í gær og fóru líka með 3 aukahúfur hvort til að gefa bestu vinunum. Það vakti mikla lukku . Í Miðskólanum var gert mikið úr því að þetta væri þjóðhátíðardagur Íslendinga og Árni Reynir fékk mikla athygli út á það. Í sumum tímunum var lítið lært heldur verið að spyrja um Ísland og kennarar í öðrum stofum að kíkja við og óska honum til hamingju með daginn.
Gaman gaman .
Krakkarnir eru ekki alveg sáttir við það að hugsa til vina sinna á Íslandi sem eru komin í frí og þau þurfa að vera í skólanum í viku í viðbót. Ég held að þau haldi að þau séu að missa af einhverju gríðarmiklu fjöri á hverjum einasta degi. Að vinirnir séu bara í stanslausri gleði og þau missi af því öllu saman og þurfa að hanga í skólanum í þokkabót. Ekki beint sanngjarnt!
Það styttist þó í að þau geti tekið þátt í gleðinni, vona bara að gleðin standi undir væntingum .
Knús og kram,
Birgitta og co
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)