Ys og þys

Nú sit ég hérna klukkan 8:45 inni á hótelherbergi (eða íbúð) og bíð eftir að allir vakni. Ég er ennþá á íslenskum tíma og get alveg ómögulega sofið lengur en til hádegis en þau hin ætla sko að sofa út í dag þannig að ég verð líklega að bíða eitthvað áfram Wink.

Undramundur og ormarnir eru öll með einhverja flensu, Kara það slæm að hún fékk lyf í læknisskoðuninni, en þau eru öll á batavegi og eru bara ótrúlega brött þrátt fyrir allt.

Við erum búin að vera óskaplega dugleg. Við erum búin að skoða nokkuð margar húsgagnaverslanir og komin með ágætis hugmynd um hvað við viljum. Það eina sem við erum þó búin að kaupa eru rúmdýnur. Við sáum að þær væru það eina sem væri algjörlega nauðsynlegt að hafa til þess að geta flutt inn, restin má mæta afgangi.
Við ætlum samt að skoða aðeins meira í dag, og skoða sumt aftur, svo við séum ekki að kaupa eitthvað í fljótfærni sem við sjáum svo eftir síðar.

Fengum að kíkja inn á Krossgötuna í gærmorgun og hittum Dr. Diaz, landlordinn okkar. Hann er læknir og er sá sem skoðaði börnin á föstudaginn. Hann er algjör perla! Virkilega hrifinn af börnunum (sem þýðir auðvitað að ég er virkilega hrifin af honum) og honum er greinilega annt um að okkur líði vel í húsinu hans. Hann ætlar að taka okkur í rúnt á næstunni og sýna okkur allt það helsta í hverfinu, kynna okkur fyrir nágrönnunum, sýna okkur bestu leiðir á milli staða og fleira og svo eigum við bara að hringja "anytime" ef eitthvað er.
Húsið fáum við samt ekki afhent fyrr en seinnipart þriðjudags, núverandi leigjendur tæma ekki fyrr en að morgni og ég hef mestar áhyggjur af því að það náist ekki að þrífa í millitíðinni því núverandi leigjendur eru ... hvernig get ég sagt það pent?... eiginlega eru þau bara svoldið miklar subbur Pinch. Ég er því alveg undir það búin að flytja ekki inn fyrr en á miðvikudag því ég gæti ekki hugsað mér að flytja inn í húsið eins og það er í dag.
Það er einnig ástæðan fyrir því að ég vil ekki setja inn myndirnar sem við tókum í gær, þær myndu gefa kolranga mynd af húsinu því það er allt í drasli í öllum herbergjum og sést ekkert hvað húsið er fínt. Smelli kannski einni inn á eftir, mynd af börnunum fyrir framan húsið, en hún er inni á tölvunni hans Undra og ég þarf fingrafarið hans til að komast inn - spurning hvort ég biðji hann um að lána mér fingurinn í nokkrar mín?

Við ákváðum að fylgja uppástungu Döbbu ömmu og láta börnin velja sér herbergi. Það gerðum við þannig að þau máttu alls ekki segja hvaða herbergi þau vildu heldur áttu þau að skoða allt vel og vandlega fyrst. Svo þegar við vorum á leiðinni frá húsinu lét ég þau öll hafa miða þar sem þau skrifuðu hvaða herbergi þau vildu. Það var mjög skondið því ekkert þeirra valdi það herbergi sem við Undramundur höfðum spáð. Árni valdi sér minnsta herbergið og stelpurnar völdu báðar næst minnsta/stærsta herbergið. Ekkert þeirra vildi semsagt stærsta herbergið Tounge - kannski af því það var málað ljósblátt? Reyndar er stærðarmunurinn á herbergjunum mjög lítill þannig að þau verða öll í stórum herbergjum en við Undri áttum von á slagsmálum um stærsta herbergið.
Þetta bjargaðist þó allt, án stórvægilegra átaka, með loforði um að mála bláa herbergið.
Kara verður því í stærsta herberginu, Eva Dröfn í miðstærð og Árni í því minnsta. Á móti fær Árni herbergi í kjallaranum þar sem hann getur haft kubbana sína í friði (hann var ekkert smá ánægður með það!) og stelpurnar fá restina af kjallaranum til sameiginlegra afnota.

Það er semsagt allt fínt að frétta frá Mahwah, NJ (hótelið okkar er þar), allir sáttir en allir orðnir frekar spenntir fyrir að fá húsið afhent svo við getum byrjað að koma okkur fyrir.

Knús og kram frá öllum til allra,
Birgitta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að heyra (lesa). Gangi ykkur áfram vel.

Marta (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 17:55

2 identicon

Frábært að heyra að allir eru sáttir

Bíð spennt eftir að sjá myndir af húsinu að innan og öllu skossinu sem þið ætlið að kaupa.

Ps bið að heilsa Undramundi og krökkunum.

Kv Hulda

Hulda (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 18:40

3 identicon

hæ hæ

Gott að gengur vel, hlakka til að sjá myndir.

knús

Inga

Inga Salóme (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 18:46

4 identicon

Frábært að heyra frá ykkur. Ég bíð spennt eftir framhaldinu! :)

elísa (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 18:52

5 identicon

Frábært að heyra að allt gengur vel í Amríkunni.  Við bíðum spennt hinum megin Atlantshafsins eftir myndum af herlegheitunum.  Okkar hús var sko "professionally cleaned" en ég held að það hafi ekki sömu merkingu hér og heima.  Eins er með allan frágang á öllu hér.  Ég held að íslenskir smiðir, pípulagnamenn og teppalagningamenn yrðu fljótt verkefnalausir ef þeir gengu frá eins og gert er hér.  En ef manni líður vel og eins og heima hjá sér þá er það víst það eina sem skiptir máli þegar uppi er staðið. 

Bestu kveðjur til ykkar allra!

Edda frænka (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 18:54

6 identicon

Hæ hæ...gott að heyra að allir séu ánægðir...gangi ykkur vel

María (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 19:24

7 identicon

Sæl elskurnar, Undramundi og Ormarnir er snilld, þurfum bara að finna eitthvað gott fyrir þig Birgitta :-).   Gott að heyra hvað allt gengur vel.  Við Helena vorum að klára að pakka hennar dóti og ég keyri hana í flug á morgun, það á eftir að verða ansi tómlegt í kotinu hjá okkur gamla settinu.   Passið hvert annað.  Söknum ykkar allra.  D&Á.

Dröfn (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband