7.9.2007 | 15:58
Loksins!
Loksins erum við komin með nettengingu, nú líður mér eins og heima hjá mér . Erum reyndar líka komin með símanúmer og 100 og eitthvað sjónvarpsrásir en það hefur lítið verið notað.
Við fengum húsið afhent seinnipart þriðjudags og ég verð að viðurkenna að ég fékk vægt áfall. Mig langaði á tímabili bara að fara að væla og var næstum því búin að draga famelíuna á næsta hótel.
Húsið var svoooo skítugt!
Eigendurnir komu þarna rétt á eftir okkur og þau fengu líka áfall .
Sem betur fer eru þau algjörar perlur og þau fóru á fullt í að hreinsa út draslið sem hafði verið skilið eftir, redduðu fólki til að koma daginn eftir að þrífa og í sameiningu gerðum við þetta þannig að við gátum gist hérna fyrstu nóttina.
Það var svolítið eins og útilega, allir á dýnum á gólfinu og EKKERT annað inni í húsinu.
Við bættum úr því daginn eftir og fórum og keyptum helstu nauðsynjar og í gær komu svo húsgögnin sem við keyptum okkur og palletturnar með öllu dótinu okkar frá Íslandi. Hingað komu þrjár þrífur sem fóru með klór á nánast allt - allt sem þoldi klór alla vega og húsið var skrúbbað hátt og lágt og nú angar allt af hreinlæti.
Herbergin eru að verða mannsæmandi - eiginlega bara ferlega kósí - og ég er að myndast við að rífa uppúr kössunum. Finn reyndar engin hnífapör en þau hljóta að koma í leitirnar .
Fyrsti skóladagur barnanna var í gær og ég verð að segja að hann gekk framar öllum vonum.
Kara gengur nú í Ardsley High School og henni gekk rosalega vel að koma sér á milli stofa og kom heim með heimanám og fullt af glósum. Hún hitti meira að segja íslenska stelpu í skólanum, sú er búin að búa hérna í einhvern tíma því hún er víst svolítið ryðguð í íslenskunni en hún kynnti Köru fyrir vinum sínum og ætlar að vera henni innan handar í skólanum.
(alveg lygilegt hvað þetta er lítill heimur!)
Árni Reynir er í Ardsley Middle School og líst bara ágætlega á. Miðskólinn er svipaður og High School að því leyti að krakkarnir eru með skápa og þurfa að skipta um stofu fyrir hvern tíma. Það er eini mínusinn sem hann sá því stundum er langt frá stofu í skáp í stofu - og bara 3 mín. til að koma sér milli stofa. - það er annað, stundatöflurnar þeirra eru mjög furðulegar og tímarnir byrja 11:48 og skólinn er kannski búinn 2:12, svoldið skondið. Árni er með svona skólavin - sem er nemandi í skólanum sem tekur hann að sér og sýnir honum hvar allt er og hvernig hlutirnir virka (vildi að það væri svoleiðis fyrir húsmæður ). Reyndar gekk honum illa að finna skólavininn sinn því þeir eru ekki saman í tímum en hann bjargaði sér þessi elska.
Eva Dröfn er í Concord Road Elementary School þar sem hún er í elsta árgangi. Hún er í bekk hjá Mrs. Fusillo sem er "svoldið gömul en samt mjög góð" . Hún fékk líka svona skólavinkonu en sú var eitthvað annað að hugsa svo Eva fann sér bara nýja.
Þau komu öll ánægð heim úr skólanum í gær en mjög hissa á ýmsu sem er ólíkt því sem þau eiga að venjast. Eva Dröfn átti t.d. ekki orð yfir því að það er hægt að kaupa Skittles, Smarties og KitKat í matsalnum í skólanum - fyrir 1.-4.bekk! Ég varð nú eiginlega hálf-orðlaus sjálf. Eru Bandaríkjamenn ekki að berjast við offitu, offituvandamálið orðið alvarlegra en eyðni og eitthvað meira? Og skólamatseðillinn - of foj - ekki skrítið að þetta séu svona fitubollur - en nóg um það, mín börn fá bara hollt og gott nesti .
Þau fengu öll mikla athygli fyrir að vera frá Íslandi og ég held að þeim hafi ekki þótt það leiðinlegt.
Ég er búin að rífa uppúr heilum hellingi af kössum en mér tekst ekki að finna myndavélasnúruna mína en hún hlýtur að koma í leitirnar allra næstu daga og þá dæli ég inn myndum í lange lange baner.
Þetta með dýralífið í nágrenninu er sko satt! Í morgun fylgdumst við Árni Reynir með íkorna á veröndinni sem átti í furðulegum samskiptum við annan íkorna (sem var uppi í tré). Í gær voru dádýr að trítla sér hinum megin við lækinn í bakgarðinum og svo sjáum við alltaf öðru hvoru eitthvað sem heitir Woodchuck og ordabok.is (takk fyrir ábendinguna Marta mín , svona getur maður dottið út í öllum látunum) þýðir það sem skógarmúrmeldýr, hef nú aldrei heyrt það áður en ég hef heldur aldrei séð svona dýr áður svo það er kannski ekkert skrítið.
Lífið er semsagt bara ágætt á Krossgötunni. Það er heilmargt sem við eigum eftir að læra á - eins og t.d. loftræstikerfið, hér er annað hvort alltof heitt eða ískalt - en það kemur með tímanum. Ég held að þetta eigi eftir að verða mikið og gott ævintýri fyrir okkur öll.
Ætla að láta þetta duga í bili, er búin að vera að pikka þetta í hátt í 3 tíma milli þess sem ég ríf uppúr kössum og ætla að reyna að ná að gera meira áður en krakkarnir koma heim úr skólunum.
Knús og kyss til allra,
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
(hehe kall) já það var nú lítið mín kæra! Frábært að heyra loksins frá þér eftir margra daga þögn. Bíð spennt eftir að sjá myndir. Knús og kyss til baka
Marta (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 16:26
Ótrúlega skrítið ég öfunda ykkur og vorkenni ykkur á sama tíma hehehe :) þetta hljómar allt svo spennandi og nýtt en samt eitthvað svo rosalega mikið í gangi hjá ykkur.
En ég vildi samt eiginlega bara mest að ég væri að upplifa þetta ævintýri með ykkur! Eða þessvegna bara að ég væri lítil/stór fluga á veggnum hjá ykkur að fylgjast með ;)
Hlakka til að heyra meira frá ykkur, mátt endilega segja krökkunum að blogga líka ;)
Love you all
Knús Helena
Helena (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 16:26
Flott að heyra að krökkunum gekk svona vel fyrsta daginn...sem ég segi íslensk börn eru algjörar hetjur.
Og þið eruð ekkert að slóra sé ég með að koma ykkur fyrir...bara allt sett í 5 gír. Voðalega spennt að sjá myndir...kveðja í bili María
María (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 17:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.