10.9.2007 | 13:25
Lítill mexíkani með skrú, skrú, skrúfjárn...
Það er alveg magnað að ef maður pantar sér einhverja þjónustu hingað heim þá mætir yfirleitt verkstjóri og skilur eftir 2-3 mexíkana til að vinna vinnuna.
Í gær voru hérna 2 mexíkanar í 10 klukkutíma að skrúfa saman IKEA-vörur , verkstjórinn þeirra skutlaði þeim hingað og sótti þá svo þegar þeir voru búnir. Það er alveg meiriháttar að geta pantað heimsendingarþjónustu og samskrúfun á IKEA-dótinu, Undri gekk um með sælubros á vör yfir því að þurfa ekki að gera þetta allt sjálfur.
Mexíkanarnir voru mjög duglegir og náðu að skrúfa næstum allt saman, þeir voru virkilega kátir og glaðir við sína vinnu, töluðu hátt og hlógu mikið. Árna Reyni þótti þeir mjög skondnir og var farinn að kalla þá Maríóbræður, sem var mjög viðeigandi .
Í dag er fyrsti dagurinn þar sem hægt er að segja að allt sé í nokkuð eðlilegum farvegi. Krakkarnir fóru allir í skólann í morgun, Gummi fór í vinnuna og ég er sest við tölvuna og ætla að myndast við að ná upp þeirri vinnu sem hefur setið á hakanum hjá mér undanfarnar vikur. Morgnarnir hérna verða nokkuð skondnir - Árni og Kara mæta 7:55 í skólann og eru í sitthvora áttina. Gummi þarf að vera mættur í lestina 8:02 í næsta bæ og Eva mætir svo síðust eða klukkan 8:40. Þetta þýðir ansi mikinn akstur fram og til baka um hverfið og svolítið span á öllum. Á jákvæðu nótunum þá verð ég líklega fljót að læra að rata hérna .
Það er aðeins farið að bera á heimþrá. Þetta er allt svo ólíkt því sem við eigum að venjast og undanfarið hefur lítið verið hægt að gera nokkuð annað en að pakka upp, ganga frá, borða og sofa. Við ætlum að reyna að bæta úr því næstu helgi og gera eitthvað saman - kannski finna strönd til að fara á eða skemmtigarð eða eitthvað skemmtilegt.
Svolítið gaman að því hvers þau sakna mest - matarins! Árna finnst maturinn hérna bara ekki neitt eins og hann á að vera. Það vantar almennilegt smjör, enginn ostur er góður, brauðið er of "þykkt" og jógúrtið kekkjót. Það sem bjargar þessu öllu að mamman getur eldað góðan hafragraut hvar sem er í heiminum og svo má ekki gleyma "glænýju ömmusultunni" sem fyldgi okkur yfir hafið. Veit ekki hvar við værum án hennar .
Árni saknar líka vina sinna í Árbæjarskóla, krakkarnir hérna eru víst ekki eins og hann er vanur en ég held að þetta taki bara smá tíma. Stelpurnar sýna honum reyndar mikinn áhuga - of mikinn að hans sögn. Svo mikinn að hann þurfti hreinlega að hlaupa burtu frá þeim á föstudaginn, þær spurðu hann svo mikið .
Ég ætla að segja þetta gott í bili og reyna að koma einhverju í verk. Þ.e.a.s. ef útsýnið, íkornarnir og dádýrin trufla mig ekki of mikið - er svo æðislegt að sitja hérna og stara útum gluggann .
Knús og kyss,
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Góðan og blessaðan daginn. Gott að heyra að allt er að komast í lag þarna hjá ykkur. Þið látið vita ef það vantar meiri sultu og ef einhver er á leiðinni héðan til ykkar sem gæti tekið hana. Knúsaðu alla frá afa og ömmu.
Mamma (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 13:37
Hæ hæ
gaman að heyra frá ykkur. Flott að allt gangi vel. Heyrðu er ekki mama þín til í að senda eitthvað af þessari sultu til Spánar...væri alveg til í að smakka haha.
Kveðja María
Maria (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 15:07
Vá hvað er gaman að lesa bloggið þitt. Það er greinilegt að lífið er að komast í fastar skorður hjá ykkur. Gangi ykkur rosalega vel.
knús og koss frá Íslandi.
Hildur
Hildur Birna (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 20:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.