13.9.2007 | 21:22
Loftmyndir
Ég á að vera að læra núna en er komin með alveg upp í kok af frumlagsígildum, nafnliðum og setningarlegum einkennum sagna.
Og þá er mikið skemmtilegra að blogga .
Við erum búin að hafa það hrikalega gott í dag. Við krakkarnir erum í fríi og því sváfum við úúúút í morgun.
Þurftum að skila bílaleigubílnum en erum svo heppin að dóttir hans Jims, sem vinnur hjá Undra, var einmitt að fara í 4ra mánaða Evrópureisu í gær og þau lánuðu okkur bílinn hennar. Sá heitir Sophie og er lítill sætur Golf. Föttuðum svo reyndar seint í gærkvöldi að Sophie er ekki með neitt GPS-tæki svo við brunuðum í Best Buy til að fjárfesta í þeim lífsnauðsynlega grip - en það var lokað!
Ég keyrði því í fyrsta skipti í morgun ÁN GPS í Best Buy en þá var græjan ekki til .
Ég komst þó áfallalaust fram og til baka og er ekkert smá stolt af mér!
Græjan var pöntuð á netinu og ætti að koma á morgun.
Ég veit ég er margbúin að lofa að setja hingað inn myndir af slotinu en þar sem við eigum ennþá eftir að klára upppakkningu þá ætla ég að geyma það fram að helginni. Þangað til getið þið skoðað þessar fínu loftmyndir af húsinu sem ég fann á Google Maps.
Þetta er mynd af húsinu okkar. Vonandi sést litli blái pinninn í þakinu sem ég notaði til að merkja. Við búum semsagt ekki í risahúsinu með sundlauginni og litla vatninu í garðinum. Þar búa skrilljónamæringar sem eiga yfir 400 bensínstöðvar, hef mikið verið að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að fara að því að kynnast þeim en ekki enn fengið góða hugmynd - megið alveg koma með uppástungur .
Hérna er skólinn hennar Evu Drafnar - Concord Road Elementary School. Þarna eru borðaðir djúpsteiktir hamborgarar í hádeginu og allir sem eru í mat fá nammi í eftirmat. Þeir sem koma með nesti fá sér popp, snakk og sælgæti og vinsælasta jógúrtið er Trixjógúrt (muniði ekki eftir Trix?). Evu Dröfn líkar mjög vel þrátt fyrir þetta allt og er búin að eignast nokkrar vinkonur. Hún er einmitt á þeim aldri þar sem hinum stelpunum finnst mikið sport að vera með "íslensku stelpunni" og þær keppast um að hjálpa henni og leika við hana.
Þetta er Árnaskóli - Ardsley Middle School. Glöggir lesendur sjá líklega bláa punktinn efst í hægra horninu.. það er húsið okkar.
Hérna er líka borðað subb og vibb í hádeginu en að öðru leyti er þetta mjög professional og flottur skóli. Við komumst reyndar að því í gær að álagið var helst til mikið á Árna greyið. Hann er það góður í enskunni og duglegur að spyrja að kennararnir hafa líklega talið að hann væri fullfær um að vinna sömu vinnu og aðrir nemendur í 6. bekk. Sem hann er auðvitað ekki.
Hann fékk því smá kvíðakast í gær yfir heimanáminu og átti frekar bágt greyið . Við erum búin að tala við skólann og þar var haldinn fundur með kennurunum hans og á að búa til nýtt plan fyrir hann. Og allir kátir og ánægðir með það.
Og hérna er svo Köruskóli - Ardsley High School. Hann virkar rosalega stór svona á mynd en telst lítill á mælikvarðanum hér, held það séu ekki nema um 600 nemendur. Hérna er hægt að kaupa sér hollari mat en er í boði í hinum skólanum. Kara er mjög ánægð þarna og námið gengur vel. Það er stundum svolítið erfitt að átti sig á hvar næsti tími er en það er allt að koma. Hún var svo heppin að hitta þarna íslenska stelpu og sú er búin að vera dugleg að kynna Köru fyrir vinum sínum og skólanum.
Og þannig er nú það.
Kannski ég reyni að remba mér gegnum restina af fyrirlestrinum, vona bara að það sitji eitthvað smá eftir.
Mig langar að enda þetta á að þakka ykkur fyrir öll commentin, það er gaman að vita af því að þið eruð að fylgjast með, þá finnst mér ég ekki vera alveg jafnlangt í burtu.
Knús og kyss,
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:26 | Facebook
Athugasemdir
Frábært að heyra að allt gengur vel hjá ykkur
Kveðja Hulda
Hulda (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 09:06
Vá, hvað þetta er allt saman flott og spennandi. Ég kem hér á hverjum morgni til að skoða nýjar færslur, svo endilega vertu bara dugleg að blogga (mátt alveg læra líka).
Bestu kveðjur og gangi þér vel að GPS-ast um!
Edda frænka (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 09:31
Ég er með hugmynd. Þú bankar hjá þeim og spyrð hvort það hafi ekki verið þau sem voru að auglýsa eftir kennara sem tæki að sér að koma í heimahús og kenna íslenska setningafræði. Græðir á tvo vegu, ef þau segja nei, ertu allavega búin að stimpla þig hressilega inn, ef þau segja já, færðu að kenna þeim setningafræði og eins og þú veist er besta aðferðin til að læra e-ð nýtt, sú að kenna öðrum það!!
Marta Þjáningarsystir (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 09:52
Hæ hæ
Já mér lýst vel á það sem Marta benti þér á ...einnig getur þú bara ath hvort þeim vanti ekki einhvern til að þrífa sundlauginaog ath hvort þú mátt þá ekki nota hana líka hehe. Það væri gott...að geta fengið sér góðan sundsprett fyrir lærdóm á morgnanna.
Maria (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 10:07
hæ hæ
vildi kvitta fyrir mig, er voða léleg í því
það er svo gaman að geta fylgst svona með ykkur og skemmtilegt að lesa allar færslurnar Birgitta, þetta er orðið daglegur bloggrúntur
vona að það haldi allt áfram að ganga vel!
kv. Anna Barbara og co.
Anna Barbara (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 12:20
Halló kæra fjölskylda, gaman að fá að fylgjast með ykkur. Elsku Gummi frændi, til hamingju með afmælið ég man svo vel eftir deginum þegar þú fæddist,bjartur og fallegur(bæði dagurinn og þú hehe)Gangi ykkur allt í haginn.
Guðleif frænka.
Guðleif frænka (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 22:06
En flott hjá ykkur húsgögnin
Hulda (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 09:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.