25.9.2007 | 13:32
Lúsabanar
Maður losnar ekki við lúsina þó maður flytji yfir öll heimsins höf.
Eitt af því fyrsta sem kom heim í töskupósti úr skólanum hennar Evu Drafnar var lúsamiði!
En þetta er ekki lúsamiði eins og ég er vön - ónei.
Skólinn kaupir þjónustu hjá fyrirtæki sem heitir LiceEnders (ég vil þýða það LúsaBanarnir svona eins og Draugabanarnir góðu hér í gamla daga). Þetta fyrirtæki kemur í skólann að hausti og lúsakembir ÖLLUM nemendum, kennurum og öðru starfsfólki. Þeir nemendur sem eru með lýs eru sendir heim med dete samme.
Að kvöldi sama dags sótthreinsa Lúsabanarnir allar skólastofur sem lúsabörnin/starfsmennirnir hafa verið í hátt og lágt. Þeir fara síðan heim til sýktu fjölskyldunnar þar sem þeir gefa góð ráð um hvað skal þrífa, hvað skal sótthreinsa og hvernig fjölskyldan þarf að meðhöndla lúsabarnið og aðra fjölskyldumeðlimi.
Lúsabanarnir koma svo aftur í skólann nokkrum dögum seinna og lúsakemba allt liðið aftur, ef það finnast lýs er sama ferlið endurtekið (mig er farið að klæja þvílíkt ) þar til skólinn er lúsalaus.
Lúsabanarnir endurtaka þetta svo aftur kringum vetrarfrí (jólin) og eftir vorfríið.
Þetta þykir mér algjör snilld. Það er ekki verið að taka sénsa á því að skólinn "sleppi" þetta árið eða að foreldrar standi sig í stykkinu ef upp koma lúsatilfelli, heldur bara fengið fyrirtæki í málið - ekta Ameríka .
Annars allt fínt að frétta. Eva Dröfn er loksins byrjuð í ensku fyrir erlenda nemendur (ELL). Ég veit ekki af hverju það byrjaði ekki strax eins og hjá hinum krökkunum en þeir prófuðu hana fyrst í síðustu viku og komust auðvitað að því að hún þarf á kennslu að halda. Hún fer því í 1-2 tíma á dag þar sem hún lærir ensku gegnum söng, leiki, lestur og dans sem ég er alveg viss um að á eftir að falla vel í kramið.
Kara fór á amerískan fótboltaleik á sunnudaginn, með "íslensku" vinkonu sinni sem er klappstýra . Mamma hennar fór með þeim svo við Undri vorum mjög ánægð með að hún fengi aðeins að kynnast alvöru amerískri unglingamenningu. Á meðan fórum við hin í skemmtigarð sem er í ca 20 mínútna fjarlægð en það var svo hrikalega heitt að það var varla orka í að arga í rússíbönum, hvað þá meira.
Krakkarnir fengu sér svona candy apples, eitthvað sem ég hef oft séð í bíómyndum en aldrei bragðað. Það voru miklar pælingar um hvort þetta væri "bara hollt" eða "hrikalega óhollt" eða bara eitthvað þar á milli?
Við þurftum líka að vinna þessa Hello Kitty í hestakapphlaupi, ormana fengum við í körfubolta (sko, ormana sem ormarnir mínir halda á ).
Við fundum snjóskafl þarna á miðri bryggju, í glampandi sól og steikjandi hita. Komumst að því síðar að þarna er skautasvell og snjórinn tengist því væntanlega eitthvað.
Árni Reynir og Gummi tóku hring í Gokart og fannst ekki leiðinlegt. Árni Reynir var mjög einbeittur allan tímann og stóð sig eins og hetja.
Það eru fleiri myndir í albúmunum, gerði nýtt albúm sem heitir Playland.
Knús og kram,
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hæ Birgitta,
Gaman að sjá þetta hjá ykkur og gangi ykkur rosalega vel.
kv. Dóra -skólasystir.
Sigríður Th. Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 21:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.