8.10.2007 | 12:56
Fyrsta heimsóknin
Marta vinkona komst hingað eftir smá ævintýri síðasta miðvikudag. Þegar vélin hennar var á leiðinni í aðflug helltist yfir þessi líka þoka svo það þurfti að snúa vélinni til Boston. Þar var tekið bensín og beðið eftir að þokunni létti.
Þegar hún loksins lenti, ca 3 tímum of seint, þá tók við annað ævintýri því enginn af leigubílstjórunum fyrir utan völlinn rötuðu hingað til Ardsley. Með hjálp Google Maps tókst mer þó að lóðsa hana hingað og hún renndi upp að dyrum um 12:30 eða 4:30 að íslenskum tíma.
Marta kom færandi hendi, tók með sér flatkökur og hangikjöt og íslenskt sælgæti. Ég laumupúkaðist með það morguninn eftir og smurði í nesti handa börnunum. Þeim fannst það ÆÐI! Reyndar sögðust bæði hafa tárast þegar þau sáu nestið sitt - þessar elskur.
Hérna situr Marta í dyrunum á lærdómsherberginu og reynir að festa íkornana á filmu. Það er hægara sagt en gert því þeir eru mjög aktívir þessa dagana, á fullu að grafa niður (og upp) hnetur og ýmislegt annað gómsætt til vetrarins.
Dádýrin hafa ekkert sést allan tímann sem Marta hefur verið hérna, það gæti reyndar verið vegna þess að við höfum lítið verið heima til að líta eftir þeim . Hún fékk þó að sjá eitt stykki skógarmúrmeldýr vesenast í garðinum.
Annars hefur hún mest séð búðir að innan og utan .
Við erum búnar að skoða öll mollin og flestar búðir í um 30 km radíus og fundum margt sniðugt og skemmtilegt. Ég þurfti auðvitað að versla smá líka, ekki hægt að láta hana standa í þessu öllu eina. Það er voðalega gaman að vera eins og túristi hérna í hverfinu, maður kynnist því á aðeins annan hátt.
Gummi og krakkarnir eru búin að vera á fullu í að finna skemmtigarða og annað skemmtilegt sem hægt er að gera og það er heill hellingur í kringum okkur. Reyndar margt sem lokar eftir sumarið en eitthvað sem er opið aðeins frameftir haustinu.
Í dag er frídagur, Columbus Day, svo krakkarnir eru heima. Ég er voða glöð með það því þá get ég knúsað þau á milli þess sem ég pakka niður fyrir Íslandsferðina mína í kvöld. Ég tek Helenu systur aftur með mér út það verður örugglega jafngott og að fá flatkökur með hangikjjöti að sjá hana .
Hlakka til að sjá ykkur sem flest.
Knús og kram,
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.