14.10.2007 | 01:09
Íslenskur matur á faraldsfæti
Það fór auðvitað ekki svo að það myndi ganga áfallalaust að koma íslenska matnum til hungruðu barnanna - ekki aldeilis!
Ég var með 2 töskur, önnur, sem mútta lánaði mér, var full af frosnum mat og hin full af dósum og sælgæti. Það gekk mjög vel alla leið til NYC, tíminn flaug áfram og flugferðin virkaði ekki nema 1-2 tímar . Við skemmtum okkur konunglega í vélinni, stjórnuðum umferðinni á salernið og hjálpuðum flugfreyjunum við störf sín - enda var Rebekka einu sinni flugfreyja (þetta er local húmor fyrir þá sem botna ekkert í þessari setningu ).
Við fórum hratt og örugglega gegnum immigration, gekk vel að finna töskurnar og þegar við komum út þá beið hann Felix ofurleigubílstjóri frá Puerto Rico eftir okkur (já Marta, ég pantaði hann aftur ).
Flugum (sko næstum í bókstaflegri merkingu!) heim á ljóshraða trallandi við spænska tónlist og þegar heim kom voru sko fagnaðarfundir! Allir faðmaðir og knúsaðir í bak og fyrir og allir ótrúlega kátir og glaðir.
Þangað til ég opnaði töskuna með frosna matnum!
Ofan í töskunni voru bækur um New York á frönsku, silkiblússur, nærbuxur, kex, súpupakki og ýmislegt fleira í einum hrærigraut. Og lyktin! Herre Gud!
Fórum að rifja upp flugvallardvölina og mundum eftir því að hafa furðað okkur á því að hafa aldrei tekið eftir því að taskan hennar múttu væri með hjólum og hvað hún væri orðin skítug.
Áttuðum okkur auðvitað á því að við höfðum kippt með okkur rangri tösku !
Og hugsuðum með hryllingi til aumingja frönsku konunnar sem hefði engin nærföt en væri með fulla tösku af lifrarpylsum, hangikjöti, flatkökum o.s.frv.
Við reyndum í klukkutíma að ná sambandi við einhvern á vellinum en það gekk akkúrat ekki neitt. Það endaði með því að riddarinn minn á hvíta hestinum bjargaði okkur og geystist af stað út á flugvöll. Helena systir fór með honum því allar töskurnar voru á hennar nafni.
Við vorum svo ótrúlega, frábærlega heppin að franska konan hefur verið athugulli en við og látið töskuna okkar vera. Taskan beið því bara eftir þeim og var afhent án vandræða.
Sem betur fer!!!
Ísskápurinn og frystirinn eru því fullir af íslenskum mat og skáparnir fullir af sælgæti . Börnin vilja samt spara þetta allt saman svo við höldum áfram að þræla í okkur amerísku fæði .
Knús og kram,
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hvernig er þetta með goðsögnina, ganga franskar konur í sexí blúndunærfötum? Held að þú hefðir allavega ekki þurft að hafa áhyggjur af því að hún æti mat barnann þar sem franskar konur fitna ekki og ástæðan fyrir því er örugglega sú að þær snerta ekki við lifrarpylsu og hangiketi...
Marta (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 13:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.