16.10.2007 | 01:26
Xanadu, Homecoming og síðast en ekki síst - kjötbollur!
Þetta er búin að vera frábær helgi hérna á Krossgötunni.
Við fórum stelpuferð í bæinn (Manhattan) á laugardaginn og sáum Xanadu. Sýningin fylgir myndinni nokkðu vel en gerir um leið grín að myndinni, tískunni, tónlistinni og bara 80's tímabilinu eins og það leggur sig. Ég skemmti mér alveg konunglega enda kannski sú okkar sem man best eftir þessu öllu. Systur mínar skemmtu sér reyndar ekki síður og Eva og Kara kvörtuðu ekki.
Ég hefði sko dregið þessar eldri með mér beint á dansiball ef þessar yngri hefðu ekki verið með, maður var syngjandi og trallandi í þvílíkum gír þegar við komum út. Mæli eindregið með þessari sýningu fyrir alla þá sem muna eftir hjólaskautum, legghlífum og diskókúlum .
Við þurftum að drífa okkur úr bænum því heimasætan var á leiðinni á fyrsta skólaballið! Það var Homecoming ball í Ardsley High frá 20 - 23 og auðvitað vildi Kara kíkja á amerískt skólaball.
Ég viðurkenni fúslega að ég var með pínu hnút í maganum yfir þessu - fyrsta skólaballið!!! Hún byrjaði auðvitað á að kaupa sér nýjan kjól fyrir ballið, með hjálp Helenu og Rebekku og svo var brunað beint í að gera sig til. Það var nú ekki amalegt að hafa Helenu hérna sem stílista og hárgreiðslumeistara alla vega var afraksturinn hreint frábær - eins og þið sjáið . Kara skemmti sér konunglega á ballinu, sagði það eiginlega bara alveg eins og íslenskt skólaball. Mér þótti samt mikið gott þegar hún var komin heim heil á húfi með bros á vör.
Systurnar fóru svo heim í dag með örlítið þyngri töskur en þegar þær komu . Það var frekar skrítið að koma heim og hafa engan til að spjalla við, enginn gestur í Evuherbergi og allt bara komið í sama farið nánast strax. Ég hafði samt mikið gott af því að fá heimsóknir og líka af því að koma aðeins heim. Það verður gaman að fara heim með krakkana yfir áramótin og sjá hvernig það leggst í þau. Gummi fór samferða systrunum til Íslands í kvöld, hann verður fram á miðvikudag á fundum og slíku svo við krakkarnir erum bara fjögur í rólegheitunum.
Við notuðum tækifærið, fyrst grasbíturinn var ekki heima, og elduðum kjötbollurnar frá ömmu. Kjötbollur með ömmusósu, ömmusultu og grænum baunum! Hélt að börnin myndu springa - myndir (og bloggið hennar Evu Drafnar) segja meira en mörg orð!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:32 | Facebook
Athugasemdir
Já íslenskar kjötbollur og ORA grænar baunir er bara best í heimi og þá sérstaklega þegar maður býr í útlandinu. Ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina.
Þórai (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 15:01
Hvað engar nýjar fréttir hjá ykkur ??
Hulda (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 22:07
Hæ og hó, bara að kíkja...
kvitt og kveðjur, Sigga Þ.
Sigga Þ. (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 10:38
Kvitti kvitt.
Alltaf jafn gaman að fylgast með ævintýrum í Ammeríku! :)
Elísa (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 17:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.