5.11.2007 | 14:35
Leikföng
Ég er alveg búin að sjá það að við hefðum getað skilið 90% af leikföngum barnanna eftir á Íslandi - jafnvel 95%. Kannski er það vegna þess að þau eru að eldast, kannski eru þau bara komin með leið á dótinu sínu eða þau vantar leikfélagana til að leika við, alla vega leika þau nánast aldrei með dótið sitt.
Yngri systkinin hafa nefnilega ekki verið mjög hrifin af hvoru öðru hérna úti, eiginlega þvert á móti. Hvers vegna veit ég ekki en ég var farin að hafa svolitlar áhyggjur á tímabili.
Þangað til núna um helgina.
Og það sem fékk þau til að leika sér saman ALLA helgina var ekki eitthvað nýtt leikfang eða tölvuleikur - nei það voru pappakassar!
Við tókum okkur til og keyptum svefnsófa í kjallarann og þeir komu í þessum líka fínu pappakössum. Krakkarnir hertóku kassana og eyddu svo helginni í að gera leynifylgsni, þrautabraut og njósnatæki útum allt. Mamman átti svo að testa þetta allt saman og ég þurfti reglulega að koma niður og reyna að komast gegnum þrautabrautina án þess að þau yrðu vör við mig. Það var hægarasagt en gert því þau eiga njósnadót með alls kyns nemum og ég var varla komin niður þegar eitthvað fór að pípa.
Það sem ég lærði af þessu er að pappakassar eru hið mesta þarfa þing .
Mest lítið í fréttum héðan. Undramundur er að Hellisbúast á Íslandi og við krakkarnir bara í sama sama á meðan - skóli, læra, leika pínupons og svo allir upp í hjónarúm að lesa.
Ég er svo heppin að börnunum mínum (öllum) finnst ennþá frábært að skríða upp í rúm til mín og hlusta á mig lesa.
Núna erum við að lesa Gyllta áttavitann eftir Philip Pullman sem er fyrsta bókin af þremur um Lýru og ævintýri hennar. Bókin er alveg hrikalega spennandi og þýðingin er mjög góð (annað en sumar Potterbækurnar ).
Ég mæli með henni fyrir alla - ekki síður fullorðna en börn.
Bíómyndin kemur svo út núna fyrir jólin og takmarkið er að vera búin með bókina áður en við förum á myndina.
Knús til allra nær og fjær en sérstaklega til Tengdapabba - til hamingju með daginn elsku Magni afi .
Birgitta og co
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
hehe já það þarf oft ekki mikið til þess að börnin dundi sér.....núna eru stelpurnar mínar uppi í skólaleik...Valborg er búin að setja krítartöfluna upp í rúm....og stendur svo og kennir Svandísi....ensku eins og er því hún er að fara í próf....þetta geta þær já og Siggi líka dundað með endalaust.
Maria (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 15:25
Elsku Birgitta okkar.
Ástarþakkir fyrir að við Afi og Amma á Íslandi, fáum að fylgjast með ykkur. Það er ómetanlegt að sjá myndirnar þínar. Það mættu vera fleiri myndir af ykkur hjónunum. Þú ert algjör snillingur að segja frá. Mér finnst að þú ættir að skrifa bók. Þín tengdamóðir,Steinunn sem er mjög stolt af þér. Afi sendir þakkir fyrir heilla óskir og spyr. Vantar meiri frímerki eða mynt eða pússlur.?SÖKNUM YKKAR. Tengdapabbi og tengdamamma.
Magni Magnusson (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 16:14
Það er greinilegt að börnin ykkar hafa meira hugmyndaflug en þar í "venjulegt" dót. Það er líka frábært að hafa nóg pláss til að leika sér með svona risapappakssa, þannig leikir þurfa yfirleitt mikið rými!
Marta (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 12:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.