2.1.2008 | 18:55
Nýársblogg
Lífið er aðeins að skríða saman eftir Íslandsreisuna. Keyrðum upp að dyrum um 22 í gær (að staðartíma) eftir rúmlega 15 tíma ferðalag.
Íslandsdvölin var bara hreint út sagt meiriháttar! Kannski helst til stutt en það var nógu mikð span á okkur til þess að enginn náði að festa ræturnar aftur og allir þokkalega sáttir við að vera komnir aftur "heim".
Við byrjuðum Íslandsferðina á matarboði hjá Oddnýju frænku. Geggjaður matur, eins og alltaf, frábært fólk og bara meiriháttar gaman. Það er svo gott að hitta fjölskylduna, hún er það sem maður saknar mest hérna hinum megin (við hafið). Nú þurfa þau bara að standa við að koma í heimsókn til okkar .
Við Undramundur lentum svo í þeirri skrítnu stöðu að vera barnlaus aðfararnótt laugardags. Börnunum var báðum boðið í næturgistingu hjá bestu vinunum og voru sko ekki leið yfir því. Við Undri vorum þó svo heppin að hafa fengið matarboð sjálf svo við nýttum barnleysið í að sleppa aðeins af okkur beislinu hjá Mörtu minni og Óla hennar. Meiriháttar í alla staði .
Á laugardeginum, þegar okkur hafði loksins tekist að slíta börnin frá vinum sínum, lögðum við svo af stað á Flúðir. Þar höfðum við það yndislegt fram á nýársdag. Við spiluðum, spjölluðum, sprengdum og átum og sprengdum og átum og spiluðum og ... . Ótrúlega gott og gaman og notalegt.
Á nýársdag þurftum við svo reyndar að hendast af stað á hádegi til að ná flugvélinni heim aftur. Undramundur þarf að funda eitthvað á Íslandi þannig að hann skutlaði okkur bara á völlinn. Þar hittum við Köru sem hafði verið hjá mömmu sinni, mikið var skrítið að hafa hana ekki með okkur í öllu sem við gerðum! Það var frábært að sjá hana aftur, þreytta og káta .
Við börnin ferðuðumst svo í samtals 15 tíma (með ferðinni frá Flúðum) og ég verð að segja að við erum algjörar hetjur! Millilentum í Boston, þurftum að hlaupa á fullu spani til að ná vélinni þaðan yfir til New York og svo að keyra hingað á Krossgötuna og þetta gerðum við með bros á vör (svona næstum) allan tímann.
Gott að vera kominn í kotið sitt. Við erum reyndar alveg orðin ringluð yfir því hvað er heim og hvað er ekki heim. Við fórum nefnilega að heiman frá New York, heim til Íslands og fórum svo að heiman frá Íslandi og heim til New York .
Knús og kossar til ykkar allra,
Birgitta og co.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.