7.2.2008 | 19:33
Montblogg
Ég kemst bara ekki yfir það hvað börnin mín eru dugleg.
Flaug í gegnum hugann á mér um daginn, eftir að ég hafði komið öllum börnunum í skólann, hvað það er í rauninni fáránlegt að ég skuli senda þau svona frá mér án þess að vita almennilega hvert. Ég hef auðvitað komið inn í skólana þeirra og hitt eitthvað af kennurunum en ég þekki í rauninni ekki almennilega hvað þar fer fram svona dags daglega. Þetta er ekki eins og heima þar sem maður hefur sjálfur gengið í gegnum ferlið og veit nokkurn veginn hvernig allt gengur fyrir sig.
Við þessar pælingar fattaði ég ennþá betur hversu miklar hetjur þessir ormar mínir eru. Þetta er lítið mál fyrir mig (miðað við þau alla vega), ég þurfti ekki að mæta á nýjan og ókunnugan vinnustað og kynnast þar milljón nýjum reglum, nýju fólki og nýju umhverfi.
Ég þurfti bara að læra að rata í búðina .
Svo voru Árni og Kara að fá einkunnir.
Þau eru bæði að bæta sig þvílíkt (og ekki var ástandið slæmt áður).
Árni Reynir fær einkunnir í öllum fögum. Hann stendur sig þvílíkt vel í lesfögunum - social studies og science og er mikið að bæta sig í ensku (móðurmálskennslu) - fékk m.a.s. 10 fyrir ljóð sem hann samdi .
Í social studies er hann í alvöru mannkynssögu, er að læra um fornar þjóðir og er svo heppinn að þekkja margt úr tölvuleikjunum sem hann spilar sem mest eins og þjóðarbrotin, hvar þau voru staðsett landafræðilega, útlit þeirra og fleira (segið svo að tölvuleikir séu ekki til einhvers nýtir ). Í science er hann að læra allt um frumur, erfðir, bakteríur og sýkla og hugtökin eru svo flókin að oft þarf ég að grípa til orðabókarinnar þegar við lesum þetta saman. Stærðfræðin er mun þyngri en heima, en hún liggur vel fyrir honum (sem betur fer!) og hann stendur sig mjög vel þar.
Hann fær mjög góðar umsagnir frá öllum kennurum, hann stendur sig vel og sýnir framfarir .
Kara fær einkunnir í öllum fögum nema tveimur, það eru stóru lesfögin - saga og líffræði. ELL (english language learner) kennarinn hennar vill að hún nái betri tökum á hugtökum og slíku áður en hún fer að fá einkunnir. Umsagnirnar í þeim fögum eru samt alveg glimrandi góðar - báðir kennararnir mjög ánægðir með framfarirnar.
Stærðfræðin sem hún er í er svona menntaskólastærðfræði. Ég gat hjálpað henni fyrsta mánuðinn eða svo en það er ekki séns að ég skilji nokkuð í því sem hún er að gera núna. Þau Undri sitja löngum stundum yfir þessu og hún er svoddan snillingur að hún rúllar þessu upp. Hún á sko eftir að búa að þessu þegar hún kemur í 10. bekkinn heima í haust.
Eva Dröfn er ekki búin að fá neinar einkunnir síðan fyrir jól. Eigum von á að þær komi á næstu vikum. Hún stendur sig auðvitað eins og hetja líka og ég fæ reglulega að heyra frá Mrs. Fusillo hvað hún sé yndislega stillt og góð og ljúf (humm ) og dugleg . Rámar eitthvað í að hafa heyrt sögu af ónefndum afa sem var víst eins og ljós í skólanum en ekki alveg sama ljósið heima hjá sér - þetta er greinilega ættgengt .
Eva Dröfn bauð mér í skólann sinn í gærmorgun. Krakkarnir í 3ja og 4ða bekk voru búin að safna áheitum og ætluðu að sippa til styrktar hjartaverndarsamtökum bæjarins.
Eins og Ameríkönum sæmir fór heljarinnar undirbúningur í þetta. Krökkunum var skipt upp í lið og hvert lið þurfti að vera í sérmerktum búningum og búa sér til nafn. Ég vissi reyndar ekki af þessu fyrr en daginn áður en Eva Dröfn var búin að redda sér þannig að hún var í merktum bol (sem einhver önnur mamma útbjó ) og með allt á hreinu.
Sipperíið fór fram í íþróttasal skólans. Ég átti von á, ja, ég veit eiginlega ekki hverju, en þetta var alveg heljarinnar fyrirtæki. Salurinn skreyttur hátt og lágt, skólastjórinn hélt ræðu, plötusnúður hélt uppi þvílíku fjöri og ég veit ekki hvað.
Fór næstum að hlæja þegar allir settu hönd á brjóst og fóru með trúarjátninguna (fánahyllinguna) - "I pledge allegience to the American flag..." - áður en þau byrjuðu að sippa, guð minn góður hvað það var ammmrískt!
Krakkarnir sippuðu svo til skiptis undir dúndrandi stuðtónlist, maður komst ekki hjá því að dilla sér með. Svo komu stundum lög sem eiga sér einhvern dans (svona eins og fugladansinn, makarena og þ.h.) og þá var svo gaman að sjá að það ÖLL börnin virtust kunna dansana. Þá fleygðu þau frá sér sippuböndunum, smelltu sér út á gólf og dönsuðu öll í kór.
Það ætti að birtast bráðum myndband af herlegheitunum hérna til hliðar (undir Nýjustu myndböndin) - það virðist ætla að taka óratíma að hlaðast inn.
Læt þessu monti mínu lokið í bili ,
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Frábærar fréttir og frábærir krakkar, en það vissir þú svosem. Til hamingju með þau og þig sjálfa sem átt sjálfsagt stóran þátt í þessum árangri
Marta (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 21:54
Elsku, elsku Birgitta okkar. Þetta var vægast sagt stórfenglegar fréttir af börnunum. Og það er svo gaman að lesa hvað þú ert ánægð, dugleg og gengur vel með þitt nám, eins og maður vissi. Við erum svo montin og stolt af ykkur öllum.
Ástarkveðjur.
Tengdaforeldrar þínir.
Steinunn og Magni (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 22:41
Flottir krakkar...það er sko á hreinu og þú mátt sko alveg monta þig af þeim.
Maria Rebekka (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 00:53
Montaðu þig bara sem oftast frænka! Það finnst öllum gaman að lesa!
Edda (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 14:55
Vááááá.... það er ekkert annað!! TIl hamingju með krakkana stóru og smáu. Það er ekkert betra en þegar börnunum gengur vel. Gaman að fá að fylgjast með ykkur. Knús og kv.
Elísa (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 20:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.