13.3.2008 | 18:20
Vorið góða grænt og "hlýtt"
Ég held ég geti með sanni sagt að vorið sé komið í Ardsley, NY.
Hitinn er reyndar ekki nema 8° (feels like 4°, eins og stendur í spánni) en það er allt farið á fullt í vorundirbúningi - hjá dýrunum.
Fuglarnir eru að gera mig geðveika, þeir byrja að kvaka um 5 á morgnana og lætin eru þvílík að það er ekki svefnfriður. Maður sér þá hérna um allt, með strá og fleira fínerí í gogginum svo hreiðurgerð er greinilega á fullu allt í kring. Það er ótrúlega mikið fuglalíf hérna, ég held ég hafi bara aldrei á ævinni séð svona margar fuglategundir í einum garði. Fæstar þeirra þekki ég, nema þessar stærri, þyrfti eiginlega að ná mér í fuglabók svo ég viti nú hvað þeir heita allir - eða ekki.
Íkornarnir eru líka í óða önn að grafa aftur upp restarnar af því sem þeir grófu niður í haust. Garðurinn er eins og eftir moldvörpufaraldur! Þessar elskur muna nefnilega ekkert hvar þeir settu góssið sitt svo þeir grafa smá, þjóta svo eitthvert allt annað og grafa aftur smá og þannig skjótast þeir um allan garðinn og moka litlar holur og slást svo eins og óðir ef einhver þeirra finnur eitthvað bitastætt.
Chipmunk-arnir eru vaknaðir eftir blundinn og núna í morgun sá ég aftur skógarmúrmeldýr. Þau fara víst í dvala yfir vetrarmánuðina svo ég held mér sé óhætt að segja að vorið sé komið.
Nú bíð ég spennt eftir að það hlýni svo að við stóru dýrin getum farið í vorfílinginn með litlu dýrunum.
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég sé þig bara fyrir mér eins og Mjallhvíti í skóginum, syngjandi undurfallega með útrétta handleggi og öll smáu dýrin horfandi á þig með aðdáun. Er þetta ekki alveg þannig?
Edda (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 19:01
Jújú, svo dansa ég líka syngjandi um húisð með skupluna á höfði, tuskuna í hægri og sleifina í vinstri (klúturinn á að vera á höfðinu ekki fyrir munninum, þið verðið bara að ímynda ykkur það).
Birgitta, 14.3.2008 kl. 13:41
Hæ hæ
Já það er alltaf svo yndislegur tími á vorin þegar allt fer að vakna. Við erum nú í sól og 25 stiga hita þessa dagana...en á leið í kuldann á Íslandi.
Knús og kassar til allra frá Spáni
Kv María
Maria Rebekka (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 00:19
Já reynið bara, Birgitta og Edda - veit að hún situr með kokkteil í annarri og fartölvuna í hinni á meðan hún hugsar óargardýrunum þegjandi þörfina - innandyra!! Engir Öskubusku- eða Mjallhvítarkomplexar á þeim bænum!
Marta (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 20:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.