9.7.2008 | 23:18
In luuuuuvvv
Já, ég held ég sé bara ástfangin! Kom á Vestfirði í fyrsta skipti á ævinni og er ennþá að jafna mig (sko á besta mögulegan hátt).
Við lögðum af stað á föstudagsmorgni og leiðin lá norður og vestur. Þar sem við vorum bæði að fara akandi vestur í fyrsta skipti vorum við nú ekki alveg örugg á öllum afleggjurum og útafbeygjum. Keyptum kort (og fullt af mat) í Borgarnesinu og þóttumst aldeilis til í slaginn.
Auðvitað tókst okkur svo að "villast" og keyra lengri leiðina en það kom ekki að sök . Vorum að vísu aðeins lengur á leiðinni en við ætluðum okkur en enduðum á réttum stað sem er fyrir öllu.
Rétti staðurinn var Flókalundur í Vatnsfirði. Þar biðu Marta og Óli, Katla og Rökkvi okkar á besta stað á tjaldsvæðinu.
Þarna eyddum við ljúfum tíma í dund og dútlerí, sund og át og drykk og fleira slíkt sem tilheyrir útilegum. Úr Flókalundinum keyrðum við yfir heiðar og fjöll (sem ég kann ekki að nefna öll) og enduðum í Hvestu í Arnarfirði. Þar fóru pabbarnir í landamæraparís með börnunum, mömmurnar sátu bara í sólbaði og smelltu myndum á meðan. Hvesta er þvílík Paradís! Ég trúi bara ekki að þar eigi að byggja olíuhreinsunarstöð . Ég skora á alla sem vettlingi geta valdið (hljóta nú flestir að valda vettlingi...) að fara þangað áður en þetta verður eyðilagt. Vona að það sjáist á myndunum hvað þetta er fallegt, börnin auðvitað í forgrunni en bakgrunnurinn alveg ótrúlegur - ekki satt?
Við héldum svo áfram inn til Ísafjarðar þangað sem ég var að koma í fyrsta skipti. Við fengum inni á Búinu Mörtu og Óla þar sem var farið með okkur eins og kóngafólk. Ég skammast mín nú fyrir að viðurkenna að ég er ekki alveg með sögu Búsins á hreinu, Marta mín er vonandi til í að uppfræða mig við fyrsta tækifæri...
Gummi þurfti að rjúka í bæinn á sunnudeginum, reyndar síðar en hann ætlaði þar sem ekki var flogið vegna þoku. Honum tókst svo hið frækna verk að fljúga til Reykjavíkur með lyklana að bílnum okkar í vasanum . Það gerði lítið til þar sem ég var ekkert að fara strax, fékk lyklana svo bara senda með flugi daginn eftir.
Við gerðum alveg ótrúlega margt á þessum stutta tíma sem ég var í heimsókn; fórum á tónleika í Haukadal, í sund í Bolungavík, börnin fóru á árabát með pöbbunum, fórum í stelpuferð í bæinn og versluðum í Legg og skel (sem er besta búð í heimi skv. Evu Dröfn ), í Olíubúðina þar sem keypti mér garn, fórum í Gamla bakarí, fengum dýrindisveislu í góðum félagsskap á Seljalandi og margt, margt fleira.
Ég er örugglega að gleyma einhverju hrikalega merkilegu, en það er þá bara vegna þess að ég er ennþá stútfull af fjallafegurð, ég vissi bara ekki að Ísland ætti þetta til - þó mér hafi nú alltaf þótt Ísland fallegast í heimi þá vissi ég greinilega ekki nema helminginn.
Heimferðin gekk eins og í sögu þó ég væri ein á ferð með börnin. Nýi bíllnn stóð sig eins og hetja og Árni Reynir var besti leiðsögumaður sem ég hef fengið, hann var kortastjóri og vísaði veginn og benti á markverða staði (öll bæjarstæði, ár, fjöll, hæðir, gil, fossar, hólar og heiðar á leiðinni ). Já, það má segja að heimferðin hafi gengið glimrandi þangað til við komum að Hvalfjarðargöngunum. Þar var einhver 'illi' búinn að velta tjaldvagninum sínum í miðjum göngum sem þýddi að öll umferð var stöðvuð í um 40 mínútur . Við misstum því af Galdrakarlinum í Oz í Elliðadalnum en verðum bara að ná því síðar.
Frábær ferð um frábær fjöll í frábærum félagsskap .
... Ég er að hugsa um að halda þessari síðu opinni, fínt að setja hingað ferðafréttir fjölskyldunnar. Tók hana úr lás þar sem ekki er lengur um nein hernaðarleyndarmál að ræða - eins og staðsetningu hinna ýmsu fjölskyldumeðlima á óvinagrundu og þ.h. .
Myndir í Júlí.
Knús í kotin öll (og Búin),
Birgitta
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
*dæs* hvað mig langar í íslenska náttúru beint í æð. Á einmitt eftir Vestfirði og Austfirði, alla vega svona eftir að ég varð fullorðin (eða ekki). Þið fáið allt það besta bara, náið alveg íslenska sumrinu heima. Vinsamlega ekki klára það samt áður en ég kem heim. Hafðu svo heitt á könnunni einhvern tímann eftir verslunarmannahelgina, þá kíkí ég í kaffi
Edda (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 13:10
..þá kem ég líka og hitti restina af stuðningsliðinu.......
Marta á Búinu (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 18:33
Linkurinn virkar ekki og ekkert júlí albúm - ekki hjá mér allavega
Marta (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 18:37
Búin að laga
Birgitta, 10.7.2008 kl. 19:34
Hæ hæ
Ég sé að það á vel við ykkur að vera komin aftur til Íslands. Hafið það gott og hittumst sem fyrst.
Kveðja María
Maria Rebekka (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.