Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
28.10.2007 | 20:01
Playdate
Það varð lítið úr epla- og graskerjatínslu hjá okkur þessa helgina. Ég er ennþá það slöpp að ég treysti mér hreinlega ekki í útstáelsi og þvæling.
Svo fékk Eva Dröfn líka playdate, reyndar ekki fyrsta playdatið sem hún fer á en í fyrsta skipti sem það kemur einhver hingað heim til okkar.
Vinkonan heitir Lissa Kim og er frá Kóreu. Þær kynntust í ESL tímum (English as a Second Language) og eiga ótrúlega vel saman. Evu finnst frekar fúlt að þær séu ekki saman í bekk en þær hittast alltaf í Lunch og svo í ESL tímum 3svar í viku.
Lissa er mun nær íslenskum stelpum en amerísku skotturnar. Hún hefur t.d. gaman að Bratz, Barbie og prinsessuleikjum - eitthvað sem þessar amerísku segja að sé bara fyrir Kindergartners . Þær kunna flestar að "put on make-up" og hafa mest gaman af því að klæða sig upp og mála sig og þess háttar, eitthvað sem Eva Dröfn nennir ekki mikið að spá í strax (nema varalitastríð við Andreu frænku sína ). Ég er rosalega ánægð með að hún hafi fundið stelpu sem er ennþá stelpa, ekki orðin Tween eins og það heitir hérna.
Eva Dröfn fékk að velja "eitthvað gott með kaffinu" til að bjóða upp á á playdatinu og hún valdi þessi girnilegu möffins . Þetta var borðað með bestu lyst og stuttu seinna fór Lissa heim (kannski sem betur fer .
Undri og Kara fóru að sjá Hellisbúann núna seinnipartinn, Kara vildi endilega koma með þó svo við vöruðum hana við því að hún myndi líklega ekki skilja mikið. Verður gaman að sjá hvað henni finnst.
Nú þarf ég að fara að læra fyrir skriflega ökuprófið - sem ég ætlaði að losna við. Ég slepp víst ekki svo vel því við fáum ekki tryggingu á bílinn nema ég sé með ökuskírteini gefið úr í NY fylki. Ég kyngi því bara - ekki vil ég lenda í sama dramanu og Brittney Spears og missa forræði yfir börnunum mínum af því ökuskírteinið er ekki gilt (eða þannig sko).
Knús og kram,
Birgitta
27.10.2007 | 16:39
Haustið
Það er lítið að frétta af okkur Krossgötubúum.
Mamman er lasin og þá einhvern veginn detta öll plön uppfyrir og allir eru bara í rólegheitum.
Við ætluðum að fara í dag og finna okkur Pumpkim Patch og velja okkur grasker til að skera út. Vorum búin að finna bóndabæ þar sem maður getur bæði valið sér grasker og tínt sér epli beint af trjánum en það verður bara að bíða betri tíma.
Reyndar rignir svo mikið að við hefðum jafnvel frestað ferðinni þess vegna. Það er algjört úrhelli! Það er búið að rigna svo mikið að litla sprænan í bakgarðinum er orðin að beljandi fljóti (ok, kannski pínu ýkjur en samt .
Í gær fór ég á fund á vegum skólanna hérna í Ardsley. Yfirskrift fundarins var Cultural Conversations og var haldinn fyrir okkur nýbúana í hverfinu. Ég fann mjög vel á þessum fundi hvað við stöndum vel að vígi miðað við flesta aðra nýbúa. 90% koma frá Japan og þau eru að fást við miklu meira menningarsjokk en við sem komum frá Litlu Ameríku (Íslandi). Fyrir utan að tala enskuna lítið sem ekkert, skilja lítið sem ekkert, þá eru þau að fást við gríðarlegan mun í venjum, siðum og hegðun. Í Japan er t.d. til siðs að nemandi líti niður og sýni auðmýkt ef kennari skammar hann, hérna fá þau "will you please look me in the eyes when I speak to you!" - það er semsagt talið dónalegt að horfa niður þegar maður er skammaður. Þetta er bara eitt dæmið af mýmörgum sem þær ræddu um hinar mæðurnar.
Við áttum að segja hvað okkur þótti erfiðast við að flytja hingað og hvað okkur líkar best. Það var nú ekki flókið að finna hvað mér þótti erfiðast en ég þurfti að hugsa mig svoldið um þegar ég átti að svara því hvað var best. Að lokum komst ég að því að mér þykir alveg meiriáttar hvað árstíðirnar eru greinilegar hérna. Það er Haust núna og það fer ekkert á milli mála. Árstíðirnar renna einhvern veginn ekki saman í eina eins og heima á Íslandi, hérna fá laufin frið á trjánum í nokkrar vikur orðin gul og rauð og appelsínugul og það er ekkert smá fallegt. Sumarið var líka alveg greinilega sumar. Ekki svona haust/vor/vetrar sumar eins og er á Íslandi. Ég hlakka mikið til að upplifa veturinn og vorið .
Hérna eru nokkrar haustmyndir svo þið sjáið hvað ég á við:
Það eru fleiri haustmyndir í Októberalbúminu fyrir ykkur sem langar að skoða. Þessar eru teknar af veröndinni okkar.
Spáin fyrir morgundaginn er bara nokkuð góð. Ég ætla að leggjast undir feld og reyna að hrista úr mér slappleikann svo ég geti kannski drifið liðið út í graskera- og eplatínslu á morgun.
Biðjum að heilsa öllum,
Birgitta
23.10.2007 | 21:40
Fyrir og eftir
Neyddist til að fara með Árna Reyni í klippingu í dag, annars hefði verið hætta á að hann myndi kafna í lubba.
Má til með að senda ykkur fyrir/eftir myndir af krúttukallinum.
Eins og þið sjáið var hann orðinn ansi skrautlegur drengurinn, enda ekki búinn að fara í klippingu síðan hann fékk "sumarklippinguna" á Íslandi í vor
Allt annað að sjá drenginn. Hann sagði sjálfur að hausinn á honum væri léttur eins og fjöður eftir þetta.
Knús,
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.10.2007 | 14:24
Matarboðið
Matarboðið gekk alveg glimrandi vel, ekki síst að þakka matseðlinum hennar Mörtu (í athugasemdum á hinni síðunni minni).
Kara sá alveg um forréttinn.
Í forrétt voru melónubitar vafðir í parmaskinku og eplabitar vafðir í íslenskan ost (fyrir grasbítinn ) - rosalega gott og listilega raðað á disk.
Í aðalrétt voru kjúklingabringur fylltar með gumsi úr sólþurkuðum tómötum, furuhnetum og ferskum kryddjurtum. Hrikalega gott.
Undramundur fékk papriku fyllta með sama gumsinu sem hann var nokkuð sáttur með.
Meðlætið var gufusoðið brokkolí og blómkál, ferskt salat og gratíneraðar kartöflur (kartöflurnar vöktu rosalega lukku). Með þessu var piparostasveppasósa.
Í eftirrétt var súkkulaði kaka (sem við keyptum alveg sjálf), Nóa Síríus konfekt og kaffi.
Gestirnir voru rosalega ánægðir með matinn, fjölskyldan mín líka og ég held að þetta hafi bara verið success .
Ég þarf svo bara að halda fleiri matarboð og losa mig við þetta stress sem ég fyllist alltaf þegar ég fæ fólk í mat - yfirleitt heppnast allt vel og allir ánægðir svo ég veit ekki hvað ég er að stressast.
Gestirnir voru hjón með einn 4ra ára pjakk. Hann var sá fyrsti sem ég hitti sem slær sponsinu mínu út í hávaða og orku. Meira að segja hún var orðin þreytt eftir að hafa leikið við hann heila kvöldstund . Ég hefði helst viljað vera með eyrnatappa hérna í verstu kviðunum - lætin voru þvílík að ég hefði ekki orðið hissa þó lögreglan hefði bankað uppá.
Í heildina fínt kvöld - takk fyrir hjálpina og móralska stuðninginn .
Birgitta
20.10.2007 | 19:15
Nýr bíll
Örstutt....
Fórum í gær og keyptum okkur nýjan bíl, ekkert smá flottan!
Þarna er hann ásamt henni Sophie litlu sem er nú í bílaþvottastöðinni í yfirhalningu áður en við skilum henni. Hérna er líka mynd af Köru í draumabílnum, hrikalega flottur en verður væntanlega að bíða betri tíma .
Það eru fleiri myndir í Október albúminu.
Við erum á fullu að undirbúa matarboðið í kvöld, set kannski inn fréttir af því á morgun.
Knús og kram,
Birgitta
16.10.2007 | 01:26
Xanadu, Homecoming og síðast en ekki síst - kjötbollur!
Þetta er búin að vera frábær helgi hérna á Krossgötunni.
Við fórum stelpuferð í bæinn (Manhattan) á laugardaginn og sáum Xanadu. Sýningin fylgir myndinni nokkðu vel en gerir um leið grín að myndinni, tískunni, tónlistinni og bara 80's tímabilinu eins og það leggur sig. Ég skemmti mér alveg konunglega enda kannski sú okkar sem man best eftir þessu öllu. Systur mínar skemmtu sér reyndar ekki síður og Eva og Kara kvörtuðu ekki.
Ég hefði sko dregið þessar eldri með mér beint á dansiball ef þessar yngri hefðu ekki verið með, maður var syngjandi og trallandi í þvílíkum gír þegar við komum út. Mæli eindregið með þessari sýningu fyrir alla þá sem muna eftir hjólaskautum, legghlífum og diskókúlum .
Við þurftum að drífa okkur úr bænum því heimasætan var á leiðinni á fyrsta skólaballið! Það var Homecoming ball í Ardsley High frá 20 - 23 og auðvitað vildi Kara kíkja á amerískt skólaball.
Ég viðurkenni fúslega að ég var með pínu hnút í maganum yfir þessu - fyrsta skólaballið!!! Hún byrjaði auðvitað á að kaupa sér nýjan kjól fyrir ballið, með hjálp Helenu og Rebekku og svo var brunað beint í að gera sig til. Það var nú ekki amalegt að hafa Helenu hérna sem stílista og hárgreiðslumeistara alla vega var afraksturinn hreint frábær - eins og þið sjáið . Kara skemmti sér konunglega á ballinu, sagði það eiginlega bara alveg eins og íslenskt skólaball. Mér þótti samt mikið gott þegar hún var komin heim heil á húfi með bros á vör.
Systurnar fóru svo heim í dag með örlítið þyngri töskur en þegar þær komu . Það var frekar skrítið að koma heim og hafa engan til að spjalla við, enginn gestur í Evuherbergi og allt bara komið í sama farið nánast strax. Ég hafði samt mikið gott af því að fá heimsóknir og líka af því að koma aðeins heim. Það verður gaman að fara heim með krakkana yfir áramótin og sjá hvernig það leggst í þau. Gummi fór samferða systrunum til Íslands í kvöld, hann verður fram á miðvikudag á fundum og slíku svo við krakkarnir erum bara fjögur í rólegheitunum.
Við notuðum tækifærið, fyrst grasbíturinn var ekki heima, og elduðum kjötbollurnar frá ömmu. Kjötbollur með ömmusósu, ömmusultu og grænum baunum! Hélt að börnin myndu springa - myndir (og bloggið hennar Evu Drafnar) segja meira en mörg orð!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.10.2007 | 01:09
Íslenskur matur á faraldsfæti
Það fór auðvitað ekki svo að það myndi ganga áfallalaust að koma íslenska matnum til hungruðu barnanna - ekki aldeilis!
Ég var með 2 töskur, önnur, sem mútta lánaði mér, var full af frosnum mat og hin full af dósum og sælgæti. Það gekk mjög vel alla leið til NYC, tíminn flaug áfram og flugferðin virkaði ekki nema 1-2 tímar . Við skemmtum okkur konunglega í vélinni, stjórnuðum umferðinni á salernið og hjálpuðum flugfreyjunum við störf sín - enda var Rebekka einu sinni flugfreyja (þetta er local húmor fyrir þá sem botna ekkert í þessari setningu ).
Við fórum hratt og örugglega gegnum immigration, gekk vel að finna töskurnar og þegar við komum út þá beið hann Felix ofurleigubílstjóri frá Puerto Rico eftir okkur (já Marta, ég pantaði hann aftur ).
Flugum (sko næstum í bókstaflegri merkingu!) heim á ljóshraða trallandi við spænska tónlist og þegar heim kom voru sko fagnaðarfundir! Allir faðmaðir og knúsaðir í bak og fyrir og allir ótrúlega kátir og glaðir.
Þangað til ég opnaði töskuna með frosna matnum!
Ofan í töskunni voru bækur um New York á frönsku, silkiblússur, nærbuxur, kex, súpupakki og ýmislegt fleira í einum hrærigraut. Og lyktin! Herre Gud!
Fórum að rifja upp flugvallardvölina og mundum eftir því að hafa furðað okkur á því að hafa aldrei tekið eftir því að taskan hennar múttu væri með hjólum og hvað hún væri orðin skítug.
Áttuðum okkur auðvitað á því að við höfðum kippt með okkur rangri tösku !
Og hugsuðum með hryllingi til aumingja frönsku konunnar sem hefði engin nærföt en væri með fulla tösku af lifrarpylsum, hangikjöti, flatkökum o.s.frv.
Við reyndum í klukkutíma að ná sambandi við einhvern á vellinum en það gekk akkúrat ekki neitt. Það endaði með því að riddarinn minn á hvíta hestinum bjargaði okkur og geystist af stað út á flugvöll. Helena systir fór með honum því allar töskurnar voru á hennar nafni.
Við vorum svo ótrúlega, frábærlega heppin að franska konan hefur verið athugulli en við og látið töskuna okkar vera. Taskan beið því bara eftir þeim og var afhent án vandræða.
Sem betur fer!!!
Ísskápurinn og frystirinn eru því fullir af íslenskum mat og skáparnir fullir af sælgæti . Börnin vilja samt spara þetta allt saman svo við höldum áfram að þræla í okkur amerísku fæði .
Knús og kram,
Birgitta
12.10.2007 | 13:52
Farin eftir stutt stopp
Er að fara að leggja í hann eftir örstopp á Íslandi.
Það er búið að vera alveg yndislegt að koma hingað í rokið og rigninguna.
Hrikalega gott að vera hjá múttu minni og alveg meiriháttar að hafa náð að hitta svona marga á þetta stuttum tíma, plús fara í skólann, flytja verkefni og fullt fullt.
Tók svakalega innkaupaferð í Bónus, held að skvísan á kassanum hafi haldið að ég ætlaði að bjóða í asnalegasta matarboð í heimi.
Keypti 10 pakka af rúgbrauði, alla vega annað eins af flatkökum, lifrarpylsu, bjúgu, pítusósu og eitthvað fleira.
Mamma toppaði þetta svo með því að steikja 10 tonn af kjötbollum, búa til sósu og smella í frystinn. Þessu öllu er ég svo búin að troða í kælitöskur ásamt íslensku sælgæti og stórum kassa af Nóa-Síríus konfekti sem tengdó komu til mín.
Held það verði veisla á Krossgötunni í næstu viku!
Vona bara að tollararnir úti hleypi mér í gegn, annars þarf ég bara að segja þeim frá íslensku börnunum sem hafa svelt í 6 vikur af því þau finna sér ekkert ætt í Ameríkunni .
Ég er svo heppin að hafa ferðafélaga báðar leiðir - Marta kom með mér hingað og litlu systurnar mínar báðar ætla að koma með mér út aftur. Þær ætla að vera fram á mánudag svo ég tek með þær sama rúntinn og við Marta tókum síðustu helgi .
Þær fá samt engar kjötbollur, þær geta bara farið í mat til múttu í næstu viku .
Bið bara að heilsa ykkur öllum rosalega vel og takk fyrir alla hittingana, matarboðið, útaðborðaferðina, spjallið, kaffið o.s.frv.
Knús og kram,
Birgitta
8.10.2007 | 12:56
Fyrsta heimsóknin
Marta vinkona komst hingað eftir smá ævintýri síðasta miðvikudag. Þegar vélin hennar var á leiðinni í aðflug helltist yfir þessi líka þoka svo það þurfti að snúa vélinni til Boston. Þar var tekið bensín og beðið eftir að þokunni létti.
Þegar hún loksins lenti, ca 3 tímum of seint, þá tók við annað ævintýri því enginn af leigubílstjórunum fyrir utan völlinn rötuðu hingað til Ardsley. Með hjálp Google Maps tókst mer þó að lóðsa hana hingað og hún renndi upp að dyrum um 12:30 eða 4:30 að íslenskum tíma.
Marta kom færandi hendi, tók með sér flatkökur og hangikjöt og íslenskt sælgæti. Ég laumupúkaðist með það morguninn eftir og smurði í nesti handa börnunum. Þeim fannst það ÆÐI! Reyndar sögðust bæði hafa tárast þegar þau sáu nestið sitt - þessar elskur.
Hérna situr Marta í dyrunum á lærdómsherberginu og reynir að festa íkornana á filmu. Það er hægara sagt en gert því þeir eru mjög aktívir þessa dagana, á fullu að grafa niður (og upp) hnetur og ýmislegt annað gómsætt til vetrarins.
Dádýrin hafa ekkert sést allan tímann sem Marta hefur verið hérna, það gæti reyndar verið vegna þess að við höfum lítið verið heima til að líta eftir þeim . Hún fékk þó að sjá eitt stykki skógarmúrmeldýr vesenast í garðinum.
Annars hefur hún mest séð búðir að innan og utan .
Við erum búnar að skoða öll mollin og flestar búðir í um 30 km radíus og fundum margt sniðugt og skemmtilegt. Ég þurfti auðvitað að versla smá líka, ekki hægt að láta hana standa í þessu öllu eina. Það er voðalega gaman að vera eins og túristi hérna í hverfinu, maður kynnist því á aðeins annan hátt.
Gummi og krakkarnir eru búin að vera á fullu í að finna skemmtigarða og annað skemmtilegt sem hægt er að gera og það er heill hellingur í kringum okkur. Reyndar margt sem lokar eftir sumarið en eitthvað sem er opið aðeins frameftir haustinu.
Í dag er frídagur, Columbus Day, svo krakkarnir eru heima. Ég er voða glöð með það því þá get ég knúsað þau á milli þess sem ég pakka niður fyrir Íslandsferðina mína í kvöld. Ég tek Helenu systur aftur með mér út það verður örugglega jafngott og að fá flatkökur með hangikjjöti að sjá hana .
Hlakka til að sjá ykkur sem flest.
Knús og kram,
Birgitta
2.10.2007 | 13:53
Halloween og heimsóknir
Það er helst í fréttum að Árni Reynir er allur að koma til . Við erum hætt að tala við Dr. Longobardi og förum bara til Dr. Schweitzer núna, hún gefur okkur góðan tíma og er öll í að finna lausnir. Hún er á því að ónæmiskerfið hans Árna sé bara að venjast öllum nýju sýklunum og áreitunum í umhverfinu hérna. Þetta getur þýtt að hann verði með einhver astma/ofnæmis einkenni í einhvern tíma en það ætti að brá af honum fljótlega.
Undramundur tók verklega bílprófið í gær og stóðst það auðvitað með prýði. Prófdómarinn nennti nú ekki að prófa hann, held að prófið hafi varað í 5 mínútur .
Hérna eru allir mjög spenntir fyrir Halloween. Þó svo að Halloween sé ekki fyrr en eftir mánuð eru margir búnir að skreyta húsin sín og garðana og það verður ansi draugalegt í hverfinu á kvöldin. Við erum að hugsa um að taka allan pakkann í þessu, skreyta allt hátt og lágt og kaupa fullt af íslensku nammi til að gefa krökkum sem koma að trikkortríta. Krakkarni fóru um helgina og keyptu sér grímubúninga, Kara vildi reyndar bíða með það og heyra í krökkunum í skólanum með hvernig unglingarnir haga sér á Halloween en mér heyrist nú á henni að hana langi svoldið að klæða sig upp og sníkja nammi með litlu systkinum sínum - en við sjáum hvernig það fer .
Ég mun setja inn fullt af myndum þegar þar að kemur.
Það er farið að kólna ansi mikið hjá okkur og stundum þurfa börnin næstum því að fara í jakka. Ekki alveg en næstum því. Nú sér maður að flest börnin eru búin að leggja stuttbuxunum og komin í síðbuxur, það er semsagt officially komið haust. Veðrið er reyndar alveg dásamlegt, milt og fallegt og bjart alla daga. Ég viðurkenni þó að ég fæ langmesta heimþrá þegar einhver er að lýsa fyrir mér brjáluðu veðri á Íslandi, væri þvílíkt til í almennilegt, íslenskt haustveður! Það er voðalega mikið "veðurleysi" hérna einhvern veginn, alltaf sama dag eftir dag. Eva Dröfn hafði einmitt orð á því að maður þyrfti aldrei að kíkja á veðrið áður en maður klæðir sig á morgnana, maður fer bara í það sem mann langar og það er aldrei vitlaust. *Marta mín, held þú getir alveg skilið sumarkjólana eftir heima .
Reyndar eru margir búnir að vara mig við því að það verður mjög kalt hérna á veturna (jan, feb, mars) og við megum jafnvel búast við "snowstorms" ! Þá opna skólarnir ekki fyrr en það er búið að moka allan snjó af öllum götum og oft eru þeir bara alveg lokaðir. Við erum reyndar svo heppinn að Slökkviliðsstjórinn býr hérna í götunni svo okkar gata er alltaf mokuð með þeim fyrstu.
Heimþráin lætur svolítið á sér kræla hérna öðru hvoru. Þau sakna öll vina sinna, skólanna og auðvitað fjölskyldunnar á Íslandi. Það er svolítið erfitt hvað það er allt ólíkt hérna, það tíðkast t.d. ekki að banka uppá hjá vinum sínum og biðja þá um að vera memm, það þarf að panta "playdate" með fyrirvara. Yngri börnin veigra sér við að biðja um playdate en við ætlum að fara að gera eitthvað í þessu mjög fljótlega.
Á jákvæðu nótunum þá höfum við sjaldan gert jafn mikið saman sem fjölskylda. Við reynum að gera eitthvað nýtt um helgar, kynnast nágrenninu og því sem það hefur upp á að bjóða. Eða bara vera heima og spila - borðspil og tölvuleiki, badminton eða horfa á eitthvað saman. Svo þetta er alls ekki alslæmt .
Framundan eru svo heimsóknir og ferðalög, Marta mín kemur á annað kvöld og ég fer svo með henni heim til Íslands á mánudaginn. Gummi er að fara út til Zurich á morgun og kemur heim á föstudag. Ég fer svo aftur út (heim) á föstudaginn í næstu viku og þá kemur Helena systir með mér.
Ég hlakka þvílíkt til að hitta sem flesta í næstu viku, þó ég hafi bara 3 daga til þess .
Knús og kram,
Birgitta