Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Ævintýralegar heimsóknir

Ég gleymdi nú alveg að minnast á það í færslunni á undan að það ætlar ekki að ganga áfallalaust fyrir neinn að koma í heimsókn hingað á Krossgötuna.

Fyrst lenti Marta í smá dítúr til Boston, dítúr sem seinkaði henni hingað um 3 tíma eða meira.

Næst var það ferðin okkar systrana sem endaði í töskuruglingnum ógurlega.

Svo voru það ma og pa sem komu auðvitað með fulla tösku af mat.
Þau voru með fisk, lambakjöt, jógúrt, grænar baunir og sitthvað fleira.

LærisveislaÞegar þau komu að tollvarðahliðinu rauk á þau fíkniefnahundur! Sá hefur líklega fundið gómsætan ilm af fiski og lambakjöti og ákveðið að kanna það nánar.
Sem betur fer eru foreldrar mínir ekki mjög eiturlyfjasjúklingaleg svo þau fengu góða meðferð hjá tollvörðunum. Þeim þótti bara virkilega sniðugt að amman væri að ferðast milli heimsálfa til að elda lambakjöt ofan í barnabörnin sín Sideways.
Þeir sögðu þeim líka að það er í lagi að flytja inn ferskt lambakjöt - bara frá Íslandi og Nýja-Sjálandi - en kannski síður ferskan fisk. Samt sluppu þau með allt í gegn.
Þannig að ef þið ætlið að "droppa í heimsókn" þá megið þið endilega kippa með einu læri eða svo.

Knús,

Birgitta


Ömmu og afaheimsókn

Úff, ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja Smile.
Byrja kannski bara á því að segja að ég trúi því varla að þessi tími sé búinn og að gömlu séu farin.

KarlmennirnirÞetta er búið að vera ótrúlega gott og gaman. Erum búin að borða hrikalega góðan mat, hlæja mikið og fara langt í hina áttina.
Það fyrsta sem við gerðum var að fara í Target og kaupa eitt stykki Jól Tounge. Við keyptum seríur og skraut, jólatré, kúlur, engla og bangsa og ég veit ekki hvað. Svo komum við heim og skreyttum aðeins, svona rétt til að fá fílinginn, restin fer upp í desember.

Á sunnudeginum fórum við niður á Manhattan.
Fórum á Ripley's believe it or not safnið þar sem við skoðuðum margt skrítið og skemmtilegt. Stærsti maður heimsÓtrúlegustu hlutir þar til sýnis. Við hefðum eiginlega þurft að hafa aðeins lengri tíma þar.
Eftir safnið hlupum við beint yfir í leikhús og sáum Mary Poppins söngleikinn. Fótalaus Eva
Hann er hreint út sagt frábær! Amman og afinn keyptu diskinn með tónlistinni og á leiðinni heim var allt sett í botn og við sungum hástöfum A spoon full of sugar, It's a jolly holiday og öll hin lögin. Reyndar eru allir búnir að vera trallandi stef úr söngleiknum daginn út og inn, einn byrjar kannski og áður en maður getur sagt Supercalifragilisticexpialidocious eru allir búnir að taka undir og trallar hver í sínu horni Tounge.

Við erum svo búin að flengjast í hina áttina fram og til baka. Skoða flest allar búðir í svona 10 km radíus og versla aðeins í þeim öllum Wink.Fjölskyldan á Times Square

Það er ekki laust við að mér hafi vöknað um augu þegar ég knúsaði þau bless. Ég er alla vega alveg búin að sjá hvað vantar í stóra húsið mitt!
Ömmu og afa í kjallarann!
Krakkarnir eru sko alveg sammála því, finnst frekar tómlegt í kotinu þegar amman og afinn eru farin.
Knús amma og afi og takk innilega fyrir samveruna.

Birgitta og aðrir aðdáendur

PS. Nýjar myndir í Nóvemberalbúminu


Þakkargjörð

Fyrsta Þakkargjörðarhátíðin okkar var í gær. Og nei, ég eldaði ekki risakalkún með öllu tilheyrandi Wink.  Fengum bara litla frænda kalkúnsins, kjúkling, með fullt af grænmeti og góðri sósu (úr íslenskum ostum Tounge).

BakarameistararnirDagurinn fór bara í algjör rólegheit og slökun. Dæturnar ákváðu að þær myndu sjá um eftirmatinn og ákváðu að bara súkkulaðiköku. Það var greinilegt að þær höfðu ekki gert þetta oft áður en myndarskapurinn var ótrúlegur. 

Kakan var rosalega flott, eins og sjá má á myndinni og afskaplega góð á bragðið. Þær eiga sko framtíðina fyrir sér í kökubakstri.

Kökulistaverkið

 

 

 

 

  

Enduðum svo daginn á að spila - eins og sést er mikið keppnisskap í sumum

Spilafólkið

 

Nú teljum við bara niður mínúturnar þangað til amma og afi koma í kvöld og æfum knúsin.

Knús og kram,

Birgitta og co


Einkunnir, heimsóknir og kannski eitthvað meira

Mér krossbrá þegar ég sá að ég hef ekki sett inn færslu í heila viku! Ákvað svo að það væri bara gott þar sem það hefur ekkert fréttnæmt gerst og ef ég hefði sett inn færslu hefði hún verið enn meira blaður en sú þar á undan Wink.

Fallegustu börninÞað er helst í fréttum að Árni Reynir og Kara fengu einkunnir fyrir fyrsta fjórðunginn í dag. Skólaárinu er semsagt skipt í fjórðunga og þeim fyrsta lauk í síðustu viku.
Einkunnirnar voru virkilega fínar.
Ég er eiginlega ánægðust með hvað þau fengu margar einkunnir. Málið er nefnilega að það var spurning hvort þau myndu fá einkunnir eða hvort þau fengju bara "staðist". Það að þau fá einkunnir þýðir að þau standa sig það vel að kennararnir telja að þau eigi að fá einkunnir eins og hinir nemendurnir - sem eru NB að læra fagið á eigin tungumáli.
Og að engin einkunn fari undir C+ (7,7-7,9) er auðvitað bara merki um hvílíka snillinga við eigum Kissing.
Við bíðum svo spennt eftir einkunnum Evu Drafnar sem ættu að berast í byrjun desember.

Myndin hérna til hægri er tekin þegar Undramundur Ofurmaður fór með börnin sín þrjú á American Museum of Natural History. Það er safnið þar sem myndin A night at the museum er tekin upp. Þar er m.a.s. boðið upp á "night at the museum" - næturgistingu í svefnpokum með vasaljós og allt. Farið í könnunarleiðangra í myrkrinu og ég veit ekki hvað - eitthvað sem okkur langar mikið að prófa. Í þetta skipti var tekinn örstuttur hringur um brotabrot safnsins, mest til að gefa mömmunni smá lærdómsfrí. Spurning hvort okkur takist að draga ömmuna og afann með okkur aftur næstu helgi Wink??

Eva Dröfn Já, það er mikil spenna yfir yfirvofandi heimsókn. Krakkarnir spyrja á hverjum degi hvað sé langt í Döbbu ömmu og Árna afa (og lambalærin Tounge). Þau hafa líka ekki sést síðan í ágústlok! Mikið held ég að einhverjir verði knúsaðir alveg í kremju Smile.

Minni ykkur á myndir í nóvemberalbúminu, ég bæti alltaf inn myndum öðru hvoru.

Hérna er mynd af Evu Dröfn á leðinni í skólann, með fínu ICELAND húfuna sem mamman keypti í síðustu Íslandsferð. Árni Reynir gengur um með skjaldarmerkið á enninu en Kara hefur ekki fengist til að smella sinni ICELAND húfu á kollinn Whistling.

Knús til ykkar allra.

Birgitta

 


Mest lítið að frétta

Lífið gengur bara sinn vanagang.

AfraksturinnVinkona Köru búin að vera í heimsókn síðan á fimmtudaginn og helgin búin að fara í að snattast með þér stöllur um New York. Þær misstu reyndar af Hairspray sýningu á Broadway vegna þess að stage hands (vantar íslenska þýðingu á þetta starfsheiti takk) eru í verkfalli. Þær voru nú ekki í vandræðum með að finna sér eitthvað annað að gera og versluðu bara eins og óðar væru.

Heimsóknin fór að mestu leyti í að skoða allar búðir nágrennisins, mollið fékk góða yfirferð og svo var reyndar kíkt í bíó og á vaxmyndasafnið, horft á nokkrar DVD myndir, flissað, hlegið og vakað frameftir Tounge.

Við hin bara í rólegheitum á meðan að spila, Árni og kassaskrímsliðleika með pappakassa Kissing, horfa á Svamp Sveinsson maraþon, læra, læra og læra og lítið annað.
Keyptum reyndar vetrarföt á börnin, það er nefnilega orðið ansi kalt hérna. 1° í mínus hérna er eins og 5° í mínus heima á Íslandi og hitinn er búinn að vera kringum frostmark á morgnana og seinnipartinn alla vikuna.

Framundan er mikil vinnutörn hjá mér, stórar ritgerðir að skila og próflestur að byrja. Thanksgiving er núna 22.nóvember og þá verða mamma og pabbi á leiðinni til okkar - það mun sko verða íslensk Thanksgiving hátíð hérna á Krossgötunni Happy, mikil tilhlökkun í lofti vegna þess!

Held ég setji bara punktinn hérna, ekkert að frétta bara ég að blaðra Wink.

Myndir í nóvemberalbúminu.

Birgitta

Grein

Gleymdi alveg að segja frá því að um daginn hrökk ég upp úr tölvuskjánum við þvílíkan hávaða og læti. Gekk hérna um allt að leita að ástæðunni og fann hana á - eða eiginlega í - veröndinni bakvið hús.

Það er ansi hátt tré sem stendur upp við gaflinn á húsinu, greinilegt að ein greinin hefur gefið upp öndina og tak sitt á lífinu og látið gossa.

B


Múhammeð og fjallið

Ef Undramundur kemst ekki í ræktina, kemur ræktin bara til Undramundar Tounge.

Eins og þið vitið er hjónaherbergið okkar RISASTÓRT.
Við höfum eitthvað verið að vandræðast með hvernig ætti að fylla upp í það. Einhverjir voru með rómantískar hugmyndir um að við gætum notað plássið til að dansa saman tangó eða vínarvals (eða Flashdance GetLost) en það sem varð ofaná var að smella inn nokkrum líkamsræktargræjum.Taugar
Við ætlum að kalla líkamsræktarstöðina okkar Taugar af því það hefur víst svo góð áhrif á taugarnar, skapið og geðið að hrista kroppinn smá - hef það frá öruggum heimildum Wink.

Nú er búið að fylla upp í ca helminginn af herberginu, þarf bara að finna eitthvað sniðugt til að bæta í restina.

Knús og kram,

Birgitta


Leikföng

Ég er alveg búin að sjá það að við hefðum getað skilið 90% af leikföngum barnanna eftir á Íslandi - jafnvel 95%. Kannski er það vegna þess að þau eru að eldast, kannski eru þau bara komin með leið á dótinu sínu eða þau vantar leikfélagana til að leika við, alla vega leika þau nánast aldrei með dótið sitt.
Yngri systkinin hafa nefnilega ekki verið mjög hrifin af hvoru öðru hérna úti, eiginlega þvert á móti. Hvers vegna veit ég ekki en ég var farin að hafa svolitlar áhyggjur á tímabili.

Þangað til núna um helgina.

Og það sem fékk þau til að leika sér saman ALLA helgina var ekki eitthvað nýtt leikfang eða tölvuleikur - nei það voru pappakassar!

Við tókum okkur til og keyptum svefnsófa í kjallarann og þeir komu í þessum líka fínu pappakössum. LeynifylgsninKrakkarnir hertóku kassana og eyddu svo helginni í að gera leynifylgsni, þrautabraut og njósnatæki útum allt. Mamman átti svo að testa þetta allt saman og ég þurfti reglulega að koma niður og reyna að komast gegnum þrautabrautina án þess að þau yrðu vör við mig. Það var hægarasagt en gert því þau eiga njósnadót með alls kyns nemum og ég var varla komin niður þegar eitthvað fór að pípa.

Það sem ég lærði af þessu er að pappakassar eru hið mesta þarfa þing Tounge.

Mest lítið í fréttum héðan. Undramundur er að Hellisbúast á Íslandi og við krakkarnir bara í sama sama á meðan - skóli, læra, leika pínupons og svo allir upp í hjónarúm að lesa.
Ég er svo heppin að börnunum mínum (öllum) finnst ennþá frábært að skríða upp í rúm til mín og hlusta á mig lesa. Gyllti áttavitinn
Núna erum við að lesa Gyllta áttavitann eftir Philip Pullman sem er fyrsta bókin af þremur um Lýru og ævintýri hennar. Bókin er alveg hrikalega spennandi og þýðingin er mjög góð (annað en sumar Potterbækurnar Pinch).
Ég mæli með henni fyrir alla - ekki síður fullorðna en börn.

Bíómyndin kemur svo út núna fyrir jólin og takmarkið er að vera búin með bókina áður en við förum á myndina.

Knús til allra nær og fjær en sérstaklega til Tengdapabba - til hamingju með daginn elsku Magni afi Kissing.

Birgitta og co


Halloween

Ætla að byrja á að benda ykkur á fullt af Halloweenmyndum í albúmi merktu Halloween.

Við lögðum lokahönd á skreytingarnar í fyrrakvöld. KóngulóarvefurVið höfðum ætlað að missa okkur í skreytingunum og vorum búin að kaupa tonn af dóti til að skreyta með en húsið okkar er svo stórt að það var rétt að við náðum að  skreyta kringum útidyrnar.  Við bættum örlítið við í  gærkvöldi  og létum þar við sitja.Allt í flækju
Börnin áttu mjög erfitt með að festa svefn í fyrrakvöld og ekki gekk þeim betur að sofa nóttina. Spenningurinn var svo mikill að allir voru vaknaðir um 6 leytið.

Kara eskimóastelpaKara fór sem eskimóastelpa, Árni Reynir var Darth Vader og Eva Dröfn var norn.
Káta norninMyndin af Evu Dröfn er tekin á Halloween Parade sem var í skólanum hennar um morguninn. Allir krakkarnir í skólanum trilluðu í halarófu um skólalóðina með kennurunum sínum, rosalega sniðugt og mikið fjör. 

Krakkarnir voru mjög kátir þegar þau komu heim og ánægð með skóladaginn, lítið um kennslu og besta af öllu - ekkert heimanám Wink.

Krakkarnir kíktu aðeins í bæinn með pabba sínum á meðan mamman mallaði kvöldmat (reyna að fylla litla maga svo þau myndu ekki borða yfir sig af sælgæti) og gaf litlum púkum, nornum, prinsessum, álfum og seiðkörlum Treats. Á leiðinni í Trick or TreatTreatið okkar var auðvitað íslenskt, allir fengu þrista og ég verð að segja að sumir voru hálf skeptískir Tounge.
Um kvöldið fór Kara á röltið með sínum vinum, ekkert fjör að vera með gömlu hjónunum og "litlu" börnunum Tounge. Á röltinuÁrni Reynir ákvað að hvíla Darth Vader og gerðist Storm Trooper, Mamman var Svarthetta, Eva Dröfn var vampírunorn og pabbinn var Hinn Illi sjálfur.
Veðrið í gærkvöldi var alveg yndislegt, svo hlýtt að við þurftum engar yfirhafnir (nema skikkjurnar okkar) og blankalogn. Við röltum um hverfið og börnin bönkuðu uppá og göluðu "Trick or Treat". Flestir voru alveg í gírnum, fullorðnir og börn í búningum að útdeila sælgæti. Sums staðar var þó greinilega ekki mikil gleði yfir þessum degi, dregið fyrir alla glugga, öll ljós slökkt en maður sá sjónvarpsglampann í stofunni og bílana í innkeyrslunni Pouty en það er bara þannig.Trick or Treat
Við vorum mest hissa á einum nágranna okkar, hann var búinn að skreyta húsið sitt um miðjan september - rosalega draugalegt og flott. Svo í gærkvöldi var búið að slökkva á öllum skreytingum og húsið dimmt og drungalegt. Börnin trítluðu samt að dyrunum og ætluðu að hringja bjöllunni en þegar þau nálguðust dyrnar heyrðist hrikalega hátt gelt. Í lítilli girðingu við hliðina á útidyrunum var risastór shefferhundur sem var alveg trítilóður.
Krökkunum brá svo rosalega og þau urðu eiginlega bara dauðhrædd greyin og versta við allt saman að það voru engin Treats í boði. Nágranninn hefur greinilega verið kominn með nóg af Halloween þetta árið.


Í heildina var þetta frábær dagur og börnin rosalega ánægð með að hafa fengið að upplifa alvöru, ameríska Hrekkjavöku. Nú flæðir allt í sælgæti hérna, liggur við að það muni duga fram að jólum!

Knús og kossar,

Birgitta


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband