Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
7.9.2007 | 15:58
Loksins!
Loksins erum við komin með nettengingu, nú líður mér eins og heima hjá mér . Erum reyndar líka komin með símanúmer og 100 og eitthvað sjónvarpsrásir en það hefur lítið verið notað.
Við fengum húsið afhent seinnipart þriðjudags og ég verð að viðurkenna að ég fékk vægt áfall. Mig langaði á tímabili bara að fara að væla og var næstum því búin að draga famelíuna á næsta hótel.
Húsið var svoooo skítugt!
Eigendurnir komu þarna rétt á eftir okkur og þau fengu líka áfall .
Sem betur fer eru þau algjörar perlur og þau fóru á fullt í að hreinsa út draslið sem hafði verið skilið eftir, redduðu fólki til að koma daginn eftir að þrífa og í sameiningu gerðum við þetta þannig að við gátum gist hérna fyrstu nóttina.
Það var svolítið eins og útilega, allir á dýnum á gólfinu og EKKERT annað inni í húsinu.
Við bættum úr því daginn eftir og fórum og keyptum helstu nauðsynjar og í gær komu svo húsgögnin sem við keyptum okkur og palletturnar með öllu dótinu okkar frá Íslandi. Hingað komu þrjár þrífur sem fóru með klór á nánast allt - allt sem þoldi klór alla vega og húsið var skrúbbað hátt og lágt og nú angar allt af hreinlæti.
Herbergin eru að verða mannsæmandi - eiginlega bara ferlega kósí - og ég er að myndast við að rífa uppúr kössunum. Finn reyndar engin hnífapör en þau hljóta að koma í leitirnar .
Fyrsti skóladagur barnanna var í gær og ég verð að segja að hann gekk framar öllum vonum.
Kara gengur nú í Ardsley High School og henni gekk rosalega vel að koma sér á milli stofa og kom heim með heimanám og fullt af glósum. Hún hitti meira að segja íslenska stelpu í skólanum, sú er búin að búa hérna í einhvern tíma því hún er víst svolítið ryðguð í íslenskunni en hún kynnti Köru fyrir vinum sínum og ætlar að vera henni innan handar í skólanum.
(alveg lygilegt hvað þetta er lítill heimur!)
Árni Reynir er í Ardsley Middle School og líst bara ágætlega á. Miðskólinn er svipaður og High School að því leyti að krakkarnir eru með skápa og þurfa að skipta um stofu fyrir hvern tíma. Það er eini mínusinn sem hann sá því stundum er langt frá stofu í skáp í stofu - og bara 3 mín. til að koma sér milli stofa. - það er annað, stundatöflurnar þeirra eru mjög furðulegar og tímarnir byrja 11:48 og skólinn er kannski búinn 2:12, svoldið skondið. Árni er með svona skólavin - sem er nemandi í skólanum sem tekur hann að sér og sýnir honum hvar allt er og hvernig hlutirnir virka (vildi að það væri svoleiðis fyrir húsmæður ). Reyndar gekk honum illa að finna skólavininn sinn því þeir eru ekki saman í tímum en hann bjargaði sér þessi elska.
Eva Dröfn er í Concord Road Elementary School þar sem hún er í elsta árgangi. Hún er í bekk hjá Mrs. Fusillo sem er "svoldið gömul en samt mjög góð" . Hún fékk líka svona skólavinkonu en sú var eitthvað annað að hugsa svo Eva fann sér bara nýja.
Þau komu öll ánægð heim úr skólanum í gær en mjög hissa á ýmsu sem er ólíkt því sem þau eiga að venjast. Eva Dröfn átti t.d. ekki orð yfir því að það er hægt að kaupa Skittles, Smarties og KitKat í matsalnum í skólanum - fyrir 1.-4.bekk! Ég varð nú eiginlega hálf-orðlaus sjálf. Eru Bandaríkjamenn ekki að berjast við offitu, offituvandamálið orðið alvarlegra en eyðni og eitthvað meira? Og skólamatseðillinn - of foj - ekki skrítið að þetta séu svona fitubollur - en nóg um það, mín börn fá bara hollt og gott nesti .
Þau fengu öll mikla athygli fyrir að vera frá Íslandi og ég held að þeim hafi ekki þótt það leiðinlegt.
Ég er búin að rífa uppúr heilum hellingi af kössum en mér tekst ekki að finna myndavélasnúruna mína en hún hlýtur að koma í leitirnar allra næstu daga og þá dæli ég inn myndum í lange lange baner.
Þetta með dýralífið í nágrenninu er sko satt! Í morgun fylgdumst við Árni Reynir með íkorna á veröndinni sem átti í furðulegum samskiptum við annan íkorna (sem var uppi í tré). Í gær voru dádýr að trítla sér hinum megin við lækinn í bakgarðinum og svo sjáum við alltaf öðru hvoru eitthvað sem heitir Woodchuck og ordabok.is (takk fyrir ábendinguna Marta mín , svona getur maður dottið út í öllum látunum) þýðir það sem skógarmúrmeldýr, hef nú aldrei heyrt það áður en ég hef heldur aldrei séð svona dýr áður svo það er kannski ekkert skrítið.
Lífið er semsagt bara ágætt á Krossgötunni. Það er heilmargt sem við eigum eftir að læra á - eins og t.d. loftræstikerfið, hér er annað hvort alltof heitt eða ískalt - en það kemur með tímanum. Ég held að þetta eigi eftir að verða mikið og gott ævintýri fyrir okkur öll.
Ætla að láta þetta duga í bili, er búin að vera að pikka þetta í hátt í 3 tíma milli þess sem ég ríf uppúr kössum og ætla að reyna að ná að gera meira áður en krakkarnir koma heim úr skólunum.
Knús og kyss til allra,
Birgitta
4.9.2007 | 12:52
Flutningadagur
Í dag er síðasti dagurinn á hótelinu fína og það gæti því orðið einhver bið á færslu frá mér. Ég veit ekki hvenær við fáum nettengingu heim en það verður sett í forgang um leið og við erum komin með lyklavöld á Krossgötunni.
Síðustu dagar hafa farið í mikinn þvæling á milli húsgagnaverslana og við erum búin að versla okkur það allra nauðsynlegasta. Flest fáum við afhent á morgun og fimmtudag og við ætlum svo að gefa okkur nokkra daga í að finna út hvað annað okkur vantar, hvað við höfum pláss fyrir og þ.h.
Ég verð að skjóta því að að ég hef aldrei vitað til þess að það væri hægt að prútta ALLS STAÐAR. Kannski er það bara hann Undramundur minn en honum tókst alla vega að fá verulega afslætti í öllum verslunum nema IKEA. Á einum staðnum var Labor Day útsala og flest allt á 50-70% afslætti. Hann náði samt í gegn viðbótarafslætti, niðurfelldum sendingargjöldum og ég veit ekki hverju . Það er alveg magnað að fylgjast með honum "in action".
Við fórum í fyrsta matarboðið í amríkunni í gær. Jim, sem vinnur með Undra hérna á skrifstofunni, og konan hans buðu okkur í svona ekta amerískan Labor Day dinner með grilluðum hamborgurum, pylsum og bbq kjúklingi - lítið af grænu (nema fyrir Undra) og nóg af djúsí - virkilega ljúffengt og gott.
Þau búa bara um 5 mín frá okkur og það var mjög gaman að rabba við þau um hverfið, þau hafa búið þarna í yfir 20 ár og þekkja því allt. Þau sögðu okkur t.d. að við megum alveg búast við því að sjá dádýr trítla um í garðinum okkar, íkornarnir eru auðvitað útum allt, chipmunks (veit ekki hvað þeir heita á íslensku), þvottabirnir, skúnkar og fleiri dýr sem ég man ekki í augnablikinu. Litla skottan varð svo spennt yfir þessu öllu að ég á von á því að hún muni hanga úti í glugga allan sólarhringinn að bíða eftir Bamba og fjölskyldu .
Í dag erum við að fara með Evu Dröfn í evaluation í skólanum hennar, þar verður metið hversu mikla aðstoð hún mun þurfa í skólanum. Við fáum líka að vita hvernig verður með skólabílana fyrir stelpurnar, Árni Reynir gengur í skólann, hann er bara örskot frá.
Nú þarf ég að fara að ræsa liðið mitt, þurfum að pakka saman dótinu og koma okkur yfir til Ardsley. Ég vona að nettengingin okkar komist á fljótlega og með henni sjónvarp og sími. Ég skýt inn fréttum um leið og það gerist .
Birgitta
3.9.2007 | 01:32
Ein mynd
Þetta eru semsagt börnin fyrir framan Krossgötu 11. Við útidyrnar stendur Dr. Diaz, landlord með meiru.
Birgitta
2.9.2007 | 13:15
Ys og þys
Nú sit ég hérna klukkan 8:45 inni á hótelherbergi (eða íbúð) og bíð eftir að allir vakni. Ég er ennþá á íslenskum tíma og get alveg ómögulega sofið lengur en til hádegis en þau hin ætla sko að sofa út í dag þannig að ég verð líklega að bíða eitthvað áfram .
Undramundur og ormarnir eru öll með einhverja flensu, Kara það slæm að hún fékk lyf í læknisskoðuninni, en þau eru öll á batavegi og eru bara ótrúlega brött þrátt fyrir allt.
Við erum búin að vera óskaplega dugleg. Við erum búin að skoða nokkuð margar húsgagnaverslanir og komin með ágætis hugmynd um hvað við viljum. Það eina sem við erum þó búin að kaupa eru rúmdýnur. Við sáum að þær væru það eina sem væri algjörlega nauðsynlegt að hafa til þess að geta flutt inn, restin má mæta afgangi.
Við ætlum samt að skoða aðeins meira í dag, og skoða sumt aftur, svo við séum ekki að kaupa eitthvað í fljótfærni sem við sjáum svo eftir síðar.
Fengum að kíkja inn á Krossgötuna í gærmorgun og hittum Dr. Diaz, landlordinn okkar. Hann er læknir og er sá sem skoðaði börnin á föstudaginn. Hann er algjör perla! Virkilega hrifinn af börnunum (sem þýðir auðvitað að ég er virkilega hrifin af honum) og honum er greinilega annt um að okkur líði vel í húsinu hans. Hann ætlar að taka okkur í rúnt á næstunni og sýna okkur allt það helsta í hverfinu, kynna okkur fyrir nágrönnunum, sýna okkur bestu leiðir á milli staða og fleira og svo eigum við bara að hringja "anytime" ef eitthvað er.
Húsið fáum við samt ekki afhent fyrr en seinnipart þriðjudags, núverandi leigjendur tæma ekki fyrr en að morgni og ég hef mestar áhyggjur af því að það náist ekki að þrífa í millitíðinni því núverandi leigjendur eru ... hvernig get ég sagt það pent?... eiginlega eru þau bara svoldið miklar subbur . Ég er því alveg undir það búin að flytja ekki inn fyrr en á miðvikudag því ég gæti ekki hugsað mér að flytja inn í húsið eins og það er í dag.
Það er einnig ástæðan fyrir því að ég vil ekki setja inn myndirnar sem við tókum í gær, þær myndu gefa kolranga mynd af húsinu því það er allt í drasli í öllum herbergjum og sést ekkert hvað húsið er fínt. Smelli kannski einni inn á eftir, mynd af börnunum fyrir framan húsið, en hún er inni á tölvunni hans Undra og ég þarf fingrafarið hans til að komast inn - spurning hvort ég biðji hann um að lána mér fingurinn í nokkrar mín?
Við ákváðum að fylgja uppástungu Döbbu ömmu og láta börnin velja sér herbergi. Það gerðum við þannig að þau máttu alls ekki segja hvaða herbergi þau vildu heldur áttu þau að skoða allt vel og vandlega fyrst. Svo þegar við vorum á leiðinni frá húsinu lét ég þau öll hafa miða þar sem þau skrifuðu hvaða herbergi þau vildu. Það var mjög skondið því ekkert þeirra valdi það herbergi sem við Undramundur höfðum spáð. Árni valdi sér minnsta herbergið og stelpurnar völdu báðar næst minnsta/stærsta herbergið. Ekkert þeirra vildi semsagt stærsta herbergið - kannski af því það var málað ljósblátt? Reyndar er stærðarmunurinn á herbergjunum mjög lítill þannig að þau verða öll í stórum herbergjum en við Undri áttum von á slagsmálum um stærsta herbergið.
Þetta bjargaðist þó allt, án stórvægilegra átaka, með loforði um að mála bláa herbergið.
Kara verður því í stærsta herberginu, Eva Dröfn í miðstærð og Árni í því minnsta. Á móti fær Árni herbergi í kjallaranum þar sem hann getur haft kubbana sína í friði (hann var ekkert smá ánægður með það!) og stelpurnar fá restina af kjallaranum til sameiginlegra afnota.
Það er semsagt allt fínt að frétta frá Mahwah, NJ (hótelið okkar er þar), allir sáttir en allir orðnir frekar spenntir fyrir að fá húsið afhent svo við getum byrjað að koma okkur fyrir.
Knús og kram frá öllum til allra,
Birgitta