Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
21.2.2008 | 02:52
Vegna fjölda áskoranna
ætla ég að henda hérna inn smá færslu um Flórídaferðina sem er rétt rúmlega hálfnuð hjá okkur.
Ástæðan fyrir bloggleysi undanfarinna daga er sú að húsmóðirin gleymdi Löbbunni sinni heima. Ég tók töskuna undir hana, hleðslusnúru og straumbreyti, músina og allt skóladótið en tölvan sjálf varð eftir heima. Gleymdi líka sjampói, kremum og einhverju fleiru - á sjálfa mig, en sem betur fer eru allir aðrir fjölskyldumeðlimir með allt sitt - það er nú fyrir öllu .
Við lögðum af stað hingað "niðreftir" á föstudegi eftir skóla og ferðin byrjaði ekki vel. Vorum stopp í 2 tíma í ekta amerísku umferðaröngþveiti, beið bara eftir að Undri breyttist í Michael Douglas í Falling Down og færi að gera skandala en þetta hafðist allt á endanum. Það var rétt um það leyti sem við fórum að komast á skrið að ég fattaði að ég hafði gleymt Löbbu minni en þá var auðvitað ekki inni í myndinni að snúa við.
Við keyrðum fram á kvöld og enduðum í Sandston, Virginia.
Stoppuðum þar rétt yfir blánóttina og í morgunverð og héldum svo af stað aftur. Ákváðum reyndar að þetta væri alltof lýjandi og settum því stefnuna á stuðstað þar sem við gátum teygt aðeins úr okkur. Þar gátum við farið í alls konar leiki og GoKart sem var algjör snilld. Keyrðum svo áfram í suður þar til við komum í Savannah, Georgia þar sem við gistum. Stoppuðum aðeins þar, sulluðum í lauginni næsta morgun og skoluðum af okkur ferðarykið áður en við lögðum í síðasta legginn. Hann var sem betur fer stystur því það voru allir komnir með alveg nóg af því að húka í bíl.
Það var alveg yndislegt að koma hingað í Windsor Hills, Kissimmee, húsið er risastórt og allt til alls hérna. Það eru sérherbergi fyrir alla og allir með sér baðherbergi. Í bílskúrnum er svona game room með billiardborði, þythokkí, rúllettu, fótboltaspili, leikjatölvu og ég veit ekki hverju. Í garðinum er svo þessi fína sundlaug sem er náttúrulega bara eðal.
Við erum svo búin að vera á spani frá því snemma á morgnana og langt fram á kvöld. Erum búin að þræða halfan Universal Studios og fara í fullt af tækjum og sýningum þar, fara tvo daga á ströndina, sjá Blue Man Group - sem var geggjað - og framundan er WetnWild, meira GoKart, klára Universal og meiri strönd. Hvenær við ætlum að gera þetta allt á þessum tveim dögum sem við eigum eftir veit ég ekki alveg en það hlýtur að hafast.
Við Undri erum reyndar aðeins farin að kvíða heimferðinni, það var ekki alveg það gáfulegasta í heimi að keyra alla leiðina hingað - heilar 1150 mílur eða 1850km ca. Athugðum m.a.s. hvort það væru ekki lestar sem gætu tekið okkur og bílinn uppeftir aftur en það er víst ekki. Við hljótum að þrauka þetta í sameiningu fjölskyldan, gekk nú alveg lygilega vel á leiðinni hingað. Lentum svo reyndar í því að fá argentínskan prófessor á fleygiferð í afturendann á Bjútí okkar (bíllinn ) en það var alveg 100% honum að kenna því við (eða eiginlega ég því ég var að keyra ) vorum grafkyrr á rauðu ljósi þegar þetta gerðist. Hann var svo sorry aumingjans maðurinn að maður gat ekki annað en vorkennt honum, sérstaklega þar sem mig grunar að ástæðan fyrir einbeitingarmissi mannsins hafi verið börnin í aftursætinu. Ekki að mín börn hagi sé nokkurn tíma illa í bíl, eru alltaf eins og ljós ).
Ætla að segja þetta gott í bili, get vonandi klárað ferðasöguna áður en ég held heim til Íslands á sunnudagskvöldið. Einhverjar myndir komnar í Flórídaalbúmið.
Knús og kossar til ykkar frá okkar,
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 04:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.2.2008 | 17:40
Flórída - here we come!
Það er mikil spenna í kotinu þessa dagana.
Eftir tvo daga keyrum við úr subbinu og slabbinu í Ardsley og höldum í sól og blíðu .
Og heil vika í fríi frá skólunum!
Við ætlum að keyra niðreftir, sáum að við gætum gert ansi margt fyrir andvirði flugfars og bílaleigubíls og ætlum því að leggja á okkur 19 tíma akstur. Tökum þetta í þrem leggjum á leiðinni niðreftir og tveim á leiðinni uppeftir aftur. Stoppum semsagt og gistum og tökum þessu rólega.
Veðrið hérna er búið að vera ferlega leiðinlegt. Í gærkvöldi var "snowstorm" (ca 4cm jafnfallin snjóföl og smá gola) og síðan í morgun er búið að rigna svona útlandarigningu, það er næstum eins og að ganga undir foss að fara út. Snjór í gær og rigning í dag = ökklahátt slabb yfir öllu.
Í fyrsta skipti er hægt að tala um að það sé á í garðinum hjá okkur, ekki lækur, vonandi sést áin okkar á myndinni.
Það er mest lítið að frétta annars. Bætti nýjum myndum í albúmið, mest einhverjar dýramyndir . Það er nefnilega ótrúlegt dýralíf í garðinum hjá mér. Um daginn hoppaði fálki upp á veröndina hjá mér, nánast beint í flasið á mér. Veit ekki hvoru okkar brá meira. Eitthvað var hann lemstraður greyið því hann gat ekki flogið burt heldur hoppaði hérna um allan garðinn þar til hann hvarf.
Ég verð vonandi nettengd í fríinu og set inn fréttir og myndir og eitthvað sniðugt.
Birgitta og co
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2008 | 19:33
Montblogg
Ég kemst bara ekki yfir það hvað börnin mín eru dugleg.
Flaug í gegnum hugann á mér um daginn, eftir að ég hafði komið öllum börnunum í skólann, hvað það er í rauninni fáránlegt að ég skuli senda þau svona frá mér án þess að vita almennilega hvert. Ég hef auðvitað komið inn í skólana þeirra og hitt eitthvað af kennurunum en ég þekki í rauninni ekki almennilega hvað þar fer fram svona dags daglega. Þetta er ekki eins og heima þar sem maður hefur sjálfur gengið í gegnum ferlið og veit nokkurn veginn hvernig allt gengur fyrir sig.
Við þessar pælingar fattaði ég ennþá betur hversu miklar hetjur þessir ormar mínir eru. Þetta er lítið mál fyrir mig (miðað við þau alla vega), ég þurfti ekki að mæta á nýjan og ókunnugan vinnustað og kynnast þar milljón nýjum reglum, nýju fólki og nýju umhverfi.
Ég þurfti bara að læra að rata í búðina .
Svo voru Árni og Kara að fá einkunnir.
Þau eru bæði að bæta sig þvílíkt (og ekki var ástandið slæmt áður).
Árni Reynir fær einkunnir í öllum fögum. Hann stendur sig þvílíkt vel í lesfögunum - social studies og science og er mikið að bæta sig í ensku (móðurmálskennslu) - fékk m.a.s. 10 fyrir ljóð sem hann samdi .
Í social studies er hann í alvöru mannkynssögu, er að læra um fornar þjóðir og er svo heppinn að þekkja margt úr tölvuleikjunum sem hann spilar sem mest eins og þjóðarbrotin, hvar þau voru staðsett landafræðilega, útlit þeirra og fleira (segið svo að tölvuleikir séu ekki til einhvers nýtir ). Í science er hann að læra allt um frumur, erfðir, bakteríur og sýkla og hugtökin eru svo flókin að oft þarf ég að grípa til orðabókarinnar þegar við lesum þetta saman. Stærðfræðin er mun þyngri en heima, en hún liggur vel fyrir honum (sem betur fer!) og hann stendur sig mjög vel þar.
Hann fær mjög góðar umsagnir frá öllum kennurum, hann stendur sig vel og sýnir framfarir .
Kara fær einkunnir í öllum fögum nema tveimur, það eru stóru lesfögin - saga og líffræði. ELL (english language learner) kennarinn hennar vill að hún nái betri tökum á hugtökum og slíku áður en hún fer að fá einkunnir. Umsagnirnar í þeim fögum eru samt alveg glimrandi góðar - báðir kennararnir mjög ánægðir með framfarirnar.
Stærðfræðin sem hún er í er svona menntaskólastærðfræði. Ég gat hjálpað henni fyrsta mánuðinn eða svo en það er ekki séns að ég skilji nokkuð í því sem hún er að gera núna. Þau Undri sitja löngum stundum yfir þessu og hún er svoddan snillingur að hún rúllar þessu upp. Hún á sko eftir að búa að þessu þegar hún kemur í 10. bekkinn heima í haust.
Eva Dröfn er ekki búin að fá neinar einkunnir síðan fyrir jól. Eigum von á að þær komi á næstu vikum. Hún stendur sig auðvitað eins og hetja líka og ég fæ reglulega að heyra frá Mrs. Fusillo hvað hún sé yndislega stillt og góð og ljúf (humm ) og dugleg . Rámar eitthvað í að hafa heyrt sögu af ónefndum afa sem var víst eins og ljós í skólanum en ekki alveg sama ljósið heima hjá sér - þetta er greinilega ættgengt .
Eva Dröfn bauð mér í skólann sinn í gærmorgun. Krakkarnir í 3ja og 4ða bekk voru búin að safna áheitum og ætluðu að sippa til styrktar hjartaverndarsamtökum bæjarins.
Eins og Ameríkönum sæmir fór heljarinnar undirbúningur í þetta. Krökkunum var skipt upp í lið og hvert lið þurfti að vera í sérmerktum búningum og búa sér til nafn. Ég vissi reyndar ekki af þessu fyrr en daginn áður en Eva Dröfn var búin að redda sér þannig að hún var í merktum bol (sem einhver önnur mamma útbjó ) og með allt á hreinu.
Sipperíið fór fram í íþróttasal skólans. Ég átti von á, ja, ég veit eiginlega ekki hverju, en þetta var alveg heljarinnar fyrirtæki. Salurinn skreyttur hátt og lágt, skólastjórinn hélt ræðu, plötusnúður hélt uppi þvílíku fjöri og ég veit ekki hvað.
Fór næstum að hlæja þegar allir settu hönd á brjóst og fóru með trúarjátninguna (fánahyllinguna) - "I pledge allegience to the American flag..." - áður en þau byrjuðu að sippa, guð minn góður hvað það var ammmrískt!
Krakkarnir sippuðu svo til skiptis undir dúndrandi stuðtónlist, maður komst ekki hjá því að dilla sér með. Svo komu stundum lög sem eiga sér einhvern dans (svona eins og fugladansinn, makarena og þ.h.) og þá var svo gaman að sjá að það ÖLL börnin virtust kunna dansana. Þá fleygðu þau frá sér sippuböndunum, smelltu sér út á gólf og dönsuðu öll í kór.
Það ætti að birtast bráðum myndband af herlegheitunum hérna til hliðar (undir Nýjustu myndböndin) - það virðist ætla að taka óratíma að hlaðast inn.
Læt þessu monti mínu lokið í bili ,
Birgitta
5.2.2008 | 02:28
Á skíðum skemmt'ég mér tra lalla lalla lallala
Það var frekar skrítið ástand hérna á heimilinu síðustu helgi. Mamman var aaaalein í kotinu í rúman sólarhring meðan pabbinn skellti sér á skíði með afkvæmin.
Þau skelltu sér á Hunter Mountain sem er í ca 2 1/2 TÍMA fjarlægð. Þar gistu þau á Friar Tuck hótelinu sem var eins og gamalt ítalskt óðalssetur. Pabbinn sagði reyndar að það væri orðið svoldið þreytt en krökkunum fannst þau vera eins og kóngafólk - svona getur upplifunin verið misjöfn eftir því hvað maður hefur lifað lengi (og ferðast mikið).
Aðstaðan var víst rosalega fín, reyndar frekar langt síðan það snjóaði síðast en færið samt ágætt og veðrið gott. Þau fundu brekkur við allra hæfi, segja m.a.s. að mamman gæti alveg farið í litlu brekkurnar - sjáum til með það. Svo fóru þau í sund, gufu og pottana og höfðu það já, bara eins og kóngafólk held ég. Þau hefðu alla vega ekki fengið svona góða þjónustu hérna heima get ég sagt ykkur.
Mamman var nefnilega UPPTEKIN. Það stendur einhvern veginn þannig á í skólanum hjá mér núna að allir kennararnir ákváðu að rumpa af verkefnum og veseni núna í janúar og febrúar og hafa frekar slakara í mars og apríl. Þegar maður er í 4 fögum þá þýðir þetta ansi mikið álag og ég var hætt að sjá fyrir endann á þessu öllu saman.
Helginni var þess vegna eytt með annað augað á skjánum og hitt oní bók. Enda voru afköstin þvílík að ég er ennþá að ná mér niður aftur. Er meira að segja farin að vinna að verkefnum þarnæstu viku !
Ég verð samt að viðurkenna að það var frekar skrítið (og pínku ponsu scary) að vera alein hérna um nóttina. Rosalega var eitthvað dimmt. Og svoldið drungalegt. Og skrítin hljóð sem ég hef aldrei heyrt áður. Það var allavega voðalega gott að vakna og sjá að sólin (ekki Sólinn ) var komin upp og allt orðið bjart og fínt.
Það eru nokkrar nýjar myndir í febrúaralbúminu
Knús og kram í öll kot.
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)