16.5.2008 | 13:54
Danssýningin
Eins og þið vitið tók Eva Dröfn þátt í lokasýningu dansskólans síns síðustu helgi. Hún sýndi með hópnum sínum bæði laugardag og sunnudag.
Við fjölskyldan fórum að sjá hana á frumsýningardeginum og mikið ofsalega var þetta frábært, æðislegt og meiriháttar. Vildi bara óska að ég hefði mátt vera með vídeóvélina eða myndavélina. Ég pantaði samt myndbandsupptöku af sýningunni þannig að þeir sem vilja geta komið í heimsókn og fengið að kíkja .
Ég mátti samt vera með myndavélina á general prufunni svo að þið getið aðeins fengið að sjá hvað þær voru flottar. Eva Dröfn er lengst til hægri, hún er elst í hópnum þó hann eigi að vera fyrir 9 - 12 ára, hinar eru held ég allar árinu yngri en hún. Í hópunum sem tóku þátt í sömu sýningu og Evu hópur voru allir á aldrinum 6-12 ára, yngri krakkarnir voru fyrr um morguninn og eldri um kvöldið. Ég er ekki frá því að hennar hópur hafi verið flottastur, þær brostu allar svo fallega og voru með sporin sín á hreinu en það er örugglega 50% mömmumontrassinn sem talar þar . Þetta var alla vega geggjað.
Ég er svo stolt af henni að taka þátt í einhverju svona, það er sko meira en að segja það að fara upp á svið fyrir framan nokkur hundruð manns og dansa svona - guð veit að ég er ekki á leiðinni að gera það í bráð.
Það eru nokkrar fleiri myndir í Maí-albúminu ef ykkur langar að kíkja.
Ég blogga meira seinna, þetta er nóg í bili .
Knús,
Birgitta
7.5.2008 | 21:33
Úti í blíðunni
Algjör bongóblíða búin að vera hérna alla vikuna. Tókst loksins að lokka börnin með mér út í göngutúr í gær og svo á teppi í garðinn í dag. Skil ekki alveg af hverju það er svona mikið meira spennandi að fara út ef maður fær teppi með sér - en einhverra hluta vegna er það málið.
Reyndar hundleiðinlegt að þegar krakkarnir koma úr skólanum þá er sólin farin úr bakgarðinum. Þau þurftu því að vera fyrir framan hús. Það mætti alveg setja grindverk eða limgerði eða eitthvað til að loka garðinn frá götunni en það bíður væntanlega næstu eigenda hússins.
Árni vildi endilega taka tölvuspilið með sér út en sökum sólar var erfitt að sjá á skjáinn. Hann fann útúr því en hefði svosem alveg eins getað verið inni .
Getur einhver sagt mér hvaða fuglategund þetta er? Sá hann á vappinu í garðinum og datt fyrst í hug að storkurinn væri kominn, hefði nú fengið svoldið mikið sjokk ef hann hefði komið færandi... goggi.
Allar myndir sem ég finn af storkum eru samt ekkert líkar þessum svo þetta hlýtur að vera eitthvað annað - anyone?
Annars er ég föst inni yfir bókmenntum allan liðlangan daginn, verð nú að segja að ég hlakka til að geta snúið mér að einhverju öðru, einhverju sem ég vel mér alveg sjálf og þarf ekki að kryfja í öreindir .
Knús í öll kot,
Birgitta
5.5.2008 | 21:06
Jazzdrottning
Eva Dröfn mun taka þátt í danssýningu Central Park Dance næstu helgi. Þessi vika er undirlögð í æfingar og generalprufur og svo eru sýningar á laugardag og sunnudag.
Ég fæ ekki að taka neinar myndir á sýningunni svo ég smellti nokkrum af henni þar sem hún var á leiðinni á æfingu, komin í dressið og rosa kát.
Birgitta
5.5.2008 | 18:48
Veðurmont
3.5.2008 | 18:06
Matarboð í gær
Svosem ekkert merkilegt við það. Nema við vorum hjá Judith og Monte sem komu hingað síðasta vetur, þessi sem áttu strákinn sem hljóp öskrandi hérna um allt hús heila kvöldstund .
Hann var sko ekki búinn að gleyma skemmtilegu krökkunum sem nenntu að hlaupa gargandi með honum í nokkra klukkutíma og beið spenntur eftir komu okkar.
Börnin tóku svo til við að hlaupa og garga og öskra og æpa um allt hús næstu 5 tímana. Sem betur fer er húsið mjög stórt með risa kjallara og háalofti og alles svo við foreldrarnir gátum spjallað og snætt og spjallað án teljandi truflana.
Nema þegar eitthvert okkar þurfti að breyta sér í skrímslið sem átti að elta þau svo þau gætu hlaupið argandi um allt hús. Sem betur fer voru þau nokkuð sanngjörn svo það hlutverkið dreifðist jafnt á alla foreldra (nema Gumma, hann var ekki nógu ógurlegur að sögn litla mannsins sem öllu stjórnaði).
Kjallarinn er algjör ævintýraheimur. Monte er listamaður og málar og teiknar mjög sérstakar myndir. Þessi mynd er t.d. tekin inni í einu herberginu í kjallaranum. Hinir veggirnir í herberginu eru ekki fullkláraðir en munu verða í þessum dúr.
Virkilega skemmtilegar og öðru vísi myndir, við fengum eina í kveðjugjöf sem þið fáið að sjá hjá okkur síðar í sömu sögu.
Ég ætla að halda áfram krufninu minni á Sjón og Þorgrími Þráinssyni . Reyni að vera duglegri að setja inn fréttir - um leið og þær gerast!
Knús á alla,
Birgitta
26.4.2008 | 14:54
Komin heim í heiðardalinn
Þá erum við komin heim í "kotið" okkar.
Mamman var í ofurgír í gærkvöldi og reif uppúr öllum töskum þannig að nú er bara afslöppun og rólegheit framundan alla helgina.
Ferðin var æðisleg í alla staði, það eina slæma var hvað hún leið hrikalega hratt, við trúðum því varla að heil vika hefði liðið svona fljótt.
Ísland tók á móti okkur með morgunljósadýrð, alveg yndislegt að koma heim í fríska loftið og meira að segja allt þetta gráa var svoldið yndislegt .
Strax eftir flugþreytulúrinn fóru börnin á stúfana - Árni Reynir til Garðars Árna og Eva Dröfn til Andreu Rutar - og ég sá þau varla meira þann dag. Voðalega gaman að því að Eva og Andrea næðu að hittast þarna í nokkra tíma. Þær prófuðu að tala saman ensku og þótti það frekar skondið - önnur með breskuna og hin með amerískuna. Svo báru þær saman skólana sína og það var greinilega margt ólíkt.
Á laugardeginum fórum við í Grindavíkina í kræklingatínslu. Eva Dröfn kaus reyndar frekar að skottast með Úlfhildi svo við fórum bara fjögur - amman og afinn og mamman og Árni Reynir. Árni er mjög efnilegur í kræklingatínslu, var kominn á kaf með afa sínum og fannst mjög gaman. Það tíndust nógu margir kræklingar í góðan forrétt og meira til. Svo fann Árni fullt af skrítnum og skemmtilegum sjávardýrum sem fengu að fljóta með í bæinn - krossfiskar, sæbjúga, sniglar og alls konar ormar og fleiri (ógeðs)dýr sem enduðu í dalli úti á palli í H29. Árni Reynir fékk svo að keyra afabíl alla leið út að vegi og tókst það með sóma.
Seinni partinn bættist svo í fjölskylduna á H29 þegar Helena systir kom frá Danmörku. Það var því þröngt á þingi í ömmu og afa húsi en þröngt mega sáttir sitja (og liggja) og það gekk auðvitað eins og í sögu.
Góðum degi lauk svo á kræklingaveislu og Singstar - hvað getur verið betra en það? Reyndar var Guðmundur orðinn fárveikur þá og var fjarri góðu gamni en við hin sungum svo íðilfagurt fyrir hann að hann sofnaði eins og engill .
Sunnudaginn tókum við snemma, geystumst í Bláfjöll mínus Gummi og plús Úlfhildur, og renndum okkur þar nokkrar ferðir. Gæti trúað að þetta hafi verið síðasti skíðafæri dagurinn því færið var frekar slappt og blautt.
Mánudaginn fóru bæði börnin í skólann! Þau voru búin að fá leyfi til að heimsækja bekkina sína og fengu að vera með í kennslustundum heilan dag. Þetta fannst þeim algjört æði. Rosalega gaman að hitta alla vinina og flesta kennarana og fara í frímínútur og allan pakkann. Það var svo gaman að þegar þeim var boðið að koma aftur þriðjudag og miðvikudag þáðu þau það með þökkum . Ekki oft sem þessir ormar eru hoppandi af gleði yfir að fá að fara í skólann.
Meðan þau voru í skólanum var mamman að berjast við ógeðsprófið ógurlega. Það var heimapróf sem tók 2 og 1/2 dag að berja saman og ég er enn ekki viss um að ég hafi verið að gera rétt (það er aftur efni í tuðbloggfærslu á öðrum vettvangi). Ef ég hefði ekki haft lærdómspartner númeró únó mér til halds og trausts væri ég örugglega farin yfirum. "Árangurinn" kemur væntanlega í ljós síðar í sömu sögu.
Miðvikudaginn fengu börnin bæði gistiboð hjá betri helmingunum svo ég skellti mér bara í langþráðan saumaklúbb um kvöldið. Alltaf jafn gaman að blaðra og hlæja í góðra vina hóp. Mjög við hæfi að enda veturinn á þennan hátt.
Sumardaginn fyrsta fórum við í hádegismat á Vox í boði Steinunnar ömmu og Magna afa. Það var mikið gaman og gott og yndislegt að hitta fjölskylduna, verst að Imma hafi ekki getað komið. Undra fannst nokkuð skondið að litla barnið hans er orðið stærra en stóra systir hans en svona gengur þetta . Maturinn á Vox er alltaf jafn ljúffengur, Eva Dröfn sveif um á bleiku þegar hún kom auga á súkkulaðigosbrunninn á eftirréttahlaðborðinu - ótrúlegt hvað henni tókst oft að reka alla hendina undir hann "alveg óvart" .
Sumardaginn enduðum við börnin svo í heimsókn hjá Mörtu og hennar börnum. Fengum dýrindisveislumat, lékum og kjöftuðum langt fram á kvöld. Árni Reynir er nú ekki frá því að hann myndi vilja eiga einn svona lítinn skemmtilegan bróður eins og Rökkva, hann verður samt að sætta sig við að fá Rökkva bara lánaðan öðru hvoru .
Eva Dröfn fór í fyrsta píanótímann sinn og fannst alveg "æðislegt mamma!". Hún er búin að æfa sig oft oft oft á dag síðan þá og hlakkar til að fara í næsta tíma þegar við verðum komin með varanlegt þak yfir höfuðið á Íslandinu.
Það er frekar mikill munur að koma svo hingað á Krossgötuna þar sem börnin fara varla útúr húsi, sérstaklega þegar þau eru varla búin að sjást síðustu vikuna - búin að vera úti að leika sér nánast stanslaust frá morgni til kvölds. Hlutirnir eru bara ekki þannig hérna og þannig er það bara.
Það var nú ósköp gott að koma hingað í gærkvöldi, allt dótið okkar og draslið, rúmin okkar og allt hitt sem gerir hús að "heima".
Ótrúlegt að sjá muninn á hverfinu okkar eftir eina viku:
Myndin til vinstri er reyndar tekin fyrir 2 vikum en þið sjáið kannski hvað ég á við? Það er allt GRÆNT og það sem er ekki GRÆNT er BLEIKT eða GULT eða HVÍTT. Ótrúleg vorlitadýrð hérna, alveg meiriháttar.
Framundan hjá okkur er bara lærdómur og skóli og "venjulega" lífið aftur. Svoldið skrítið en líka svoldið gott. Við eigum bara 9 vikur eftir hérna á Krossgötunni og ætlum að reyna að nýta þær til hins ítrasta. Það styttist í að við getum farið að kíkja á ströndina um helgar og svo eru margir garðar og skemmtisvæði hérna í kring sem verður gaman að kíkja á.
Marta mín og Óli hennar eru á leiðinni í byrjun maí. Við Marta ætlum að skvísast aðeins á Manhattan meðan við leggjum lokahönd á enn eina ritgerðarsnilldina , kíkja örlítið í búðir og dekur og brunch og eitthvað skemmtilegt.
Svo fer bara að líða að því að við þurfum að byrja að pakka okkur niður í kassa og senda af stað til Íslands en það er síðari tíma vandamál .
Ætla að láta þessari romsu minni lokið, það eru fleiri myndir í Vorfrísalbúminu.
Knús og kram á ykkur öll, frábært að fá að hitta ykkur og knúsa ykkur í eigin persónu.
Birgitta og co
15.4.2008 | 15:20
Spring break eða A break from spring
Vorið er komið og grundirnar gróa...
Geggjað veður í Ardsley, NY - glampandi sól, fuglakvak, flugnasuð, blómstrandi tré og runnar, iðandi lækjarspræna, stuttbuxnaveður, fuglar liggja á eggjum og lífið er ljúft.
Og við ætlum að fara í Spring break til Íslands . Nágranni minn, hún Karen, hló dátt þegar ég sagði henni þetta og spurði hvort við þyrftum að fá smá break from spring . Svoldið flott hjá henni miðað við vorið hérna og vorið á Íslandi. Þau ætla til Argentínu og það er svolítill munur á því sem fer í töskurnar hennar - sumarföt, bikiní og sólarvörn, við pökkum niður öllum vetrarfötunum okkar, skíðaskónum og frostbitsvörn.
Ætlum svo reyndar að skilja öll vetrarfötin og skíðaskóna okkar eftir á Ísalandinu , lítil von til þess að þau verði notuð meira hérna.
Nú er komið svona skilti á lóðina hjá okkur:
Við erum búin að bóka gám 26.júní og flug heim 3.júlí - jeyyy . Ætlum að taka okkur smá "sumarfrí" í Atlantic City áður en við komum heim. Við verðum svo á þvælingi um Ísland fram í ágústbyrjun þegar við fáum gáminn og húsið okkar heima afhent.
Ég get þá hætt að vera grasekkja í Ammríku og farið aftur í að vera grasekkja á Íslandi .
Höldum heim á fimmtudaginn, vona að ég nái að hitta ykkur sem flest.
Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar og símtölin, var alveg yndislegt að heyra í og frá ykkur .
Knús og kossar, Birgitta og co
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.4.2008 | 22:10
Natures Classroom og frænkuheimsókn
Árni Reynir er kominn heim úr ævintýraferðinni í Natures Classroom.
Hann sagði að fyrstu nóttina hefði hann verið með pínu heimþrá en þegar hann vaknaði daginn eftir var hann alveg "do I have a home somewhere else?" - það var semsagt rosalega gaman og margt brallað.
Þau fóru í 5 klukkutíma göngu upp á fjall, þaðan sem var æðislegt útsýni yfir allt nágrennið.
Þau gátu valið sér ýmsa skemmtilega tíma til að fara í á daginn, Árni Reynir valdi t.d. Back to basics, Tearific, Piff, pamm, poom og fleiri. Reynið að geta hvað var gert í þessum tímum .
Þau sviðsettu Underground railroad - þegar verið var að bjarga svörtum þrælum á 19. öld. Árni sagði að hann hefði orðið ansi hræddur þá, þetta var gert - næstum of - raunverulegt með því að fullorðna fólkið voru þrælahaldararnir og börnin þrælarnir. Þrælahaldararnir voru með svipur og allan pakkann og skv. lýsingum ansi höst við litlu englabörnin.
Það sem setti litla mömmuhjartað samt alveg í keng var að hann svaf á gólfinu allan tímann! Þau voru víst svo mörg að einhverjir sváfu á gólfinu og Árni var svo hógvær að hann var ekkert að gera vesen yfir því og fattaði því ekki að auðvitað voru til dýnur. Hann gerði nú samt lítið úr þessu, en viðurkenndi að það var ósköp gott að komast í bólið sitt.
Eitt þótti mér algjör snilld. Þegar svona mörg (held þau hafi verið hátt í 200 börnin) börn borða saman mat á hverjum degi í risastóru mötuneyti vil verða svo að miklu er leift. Starfsfólkið er því með keppni milli skóla um hverjir ná að leifa minnstu eftir hverja máltíð. Öllum matarleifunum er safnað saman í einn dall/tunnu og svo vigtað. Börnin skrá svo niður hversu mikið þau leifa eftir hverja máltíð. Eftir fyrstu máltíðina voru ca 7.5 kíló í dallinum ! Þessar elskur tóku þessu svo alvarlega að þau urðu fyrsti skólinn sem náði þessu niður í 0 !
Nú er Árni Reynir mjög meðvitaður um að fá sér ekki meira á diskinn en hann ætlar að borða sem er bara snilld.
Það eru örfáar myndir í Apríl albúminu, myndir sem hann tók sjálfur í ferðinni.
Við fengum svo æðislega heimsókn í dag. Hérna bönkuðu uppá Valva föðursystir og Gunni frændi, mikið var ofsalega gaman að sjá þau. Þau fengu auðvitað "The grand tour" um húsið og voru alveg sammála okkur með að hjónaherbergi eiga ekkert að vera svona stór .
Það var þvílík blíða hérna í dag, fór upp í 27°, svo við gátum verið úti á palli að spjalla og njóta samverunnar.
Þau buðu okkur svo í lunch áður en þau héldu áfram flakkinu um austurströnd Bandaríkjanna.
Takk fyrir komuna elsku frænka og frændi .
Svo eru bara rólegheit framundan, alla vega fram á fimmtudag þegar ég rýk með börnin út á flugvöll og við höldum til Íslands! Undri ætlar að fara degi fyrr svo hann nái að taka nokkur heljarstökk og armbeygjur áður en við komum.
Hlakka til að hitta þau ykkar sem ég næ að hitta - vonandi sem flest!
Knús,
Krossgötubúar
10.4.2008 | 23:44
Hulduheimsókn
Mikið hef ég gott af því að fá heimsóknir hingað, ég uppgötva alltaf eitthvað nýtt þegar ég er að þvæalst um með gestina mína .
Hulda vinkona fór heim í gærkvöldi, frekar vel klyfjuð.
Við byrjuðum heimsóknina á stórborginni, tókum lestina á Manhattan og þvældumst í búðum. Fórum á Canal Street í Kínahverfinu í smá töskuleiðangur. Höfðum nefnilega heyrt að þar væri hægt að kaupa mjöööög ódýrar merkjatöskur - sumar ekta og aðrar mjög óekta . Eitthvað var nú slappt stuðið þarna á götunni, svona miðað við mína fyrri reynslu og sögurnar sem við höfðum heyrt, en okkur tókst nú samt að láta bjóða okkur "baksviðs" til að skóða "varninginn". Okkur var nú hætt að lítast á blikuna þegar við vorum komnar inn í lyftu með svona frekar skuggalegu fólki og ekki jókst comfort levelinn þegar við þurftum að ganga þrönga ranghala til að komast á áfangastað. Enduðum í herbergi með Gucci, Luis Vuitton, Coach og fleirum góðum félögum hangandi uppum alla veggi og í hrúgum á gólfinu. Eftir að hafa gramsað þarna í smá tíma komumst við að því að okkur fannst þetta bara ekkert smart og fórum - töskulausar (nema auðvitað ennþá með okkar eigin handtöskur).
Það gekk aðeins betur í leynilegu bakherbergi í annarri búð, fjárfestum báðar í ekta feik töskum þar og vorum þokkalega ánægðar með árangurinn.
Við létum þennan dag duga í Manhattan og eyddum hinum dögunum hérna í hverfinu. Þræddum margar búðir og Hulda kenndi mér að stundum getur verið sniðugt að gramsa smá .
Ég verslaði reyndar mest á prinsessuna mína yngri, en það var líka alveg kominn tími á það. Hérna sjáið þið hana í nýja Puma-gallanum sínum að kenna Huldu á Ripstik - það gekk bara vel miðað við aldur og fyrri störf .
Mikið er alltaf tómlegt þegar við kveðjum þá sem hafa verið í heimsókn, væri helst til í að hafa ykkur öll hérna í kjallaranum eða eystri álmunni, eða jafnvel þeirri syðri (nei segi nú bara svona).
Í dag var fyrsti sumardagurinn (sko í hitastigi). Hitinn fór upp í 26° og eitthvað hafa hinir foreldrarnir verið betur undir það búnir en ég því flestir krakkarnir voru í stuttbuxum og sandölum í skólanum hennar Evu Drafnar, hún sjálf fór í nýja jakkanum, síðbuxum og með húfu í töskunni - ég þarf að fylgjast betur með veðurfréttunum það er alveg ljóst!
Við fjölskyldan bíðum spennt eftir að fá Árnann okkar heim á morgun, vonandi alsælan með ævintýri vikunnar.
Læt vita hvernig gekk hjá honum síðar.
Knús og kram í öll kot,
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt 11.4.2008 kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.4.2008 | 23:13
Karan okkar
Úff, nú er síðasti dagurinn sem Karan okkar er 14 ára. Á morgun þegar hún vaknar verður hún orðin 15 .
15 ára!
Get sko alveg dottið örfá ár aftur í tímann og munað hvernig það var að vera 15 (er nefnilega bara 16 eða kannski svona 18 ennþá inni við beinið þó svo að grá hár og hrukkur í speglinum reyni að telja mér trú um annað).
Þar sem það er ekkert gaman að eiga 15 ára afmæli á sunnudegi hefur eiginlega verið hálfgert afmæli í dag. Af því hún var á leiðinni út í kvöld ákváðum við að hún fengi bara gjafirnar í dag.
Frá Döbbu ömmu og Árna afa fékk hún... töskuna sem hana langaði mest af öllu í heiminum að eignast (eða eins og það heitir á 14/15 ára máli "Ég bara VERÐ að eignast þessa tösku!!"
Hérna er hún að opna pakkann og svei mér ef hún táraðist ekki bara þegar hún sá innihaldið...
Frá Steinunni ömmu og Magna afa fékk hún pening. Það er annað sem "hún bara VARÐ að eignast" vegna þess að hún átti "ENGIN föt" og sérstaklega "EKKERT að fara í á afmælinu sínu.
Ég renndi því með hana í Pretty Girl og Charade og hún keypti sér þessi fínu föt fyrir peningana frá Steinunni og Magna:
Þegar maður er 14 (aaaalveg að verða 15) er ekkert gaman að halda afmælisveislu heima hjá sér. Ekkert kökuboð, blöðrur og stoppdans í boði ónei. Hún er því núna með nokkrum vinum sínum á Fridays að fagna. Svo er búið að bjóða í stelpupartý hjá einni vinkonunni þannig að hún fær bara gamaldags kökupartý á morgun, þegar hún Á afmæli .
Hún fékk líka aur frá okkur foreldrunum (öllum 3 ) og systkinunum, aur sem hún ætlar að nota til að kaupa sér eitthvað fallegt í mollinu, set inn myndir af því þegar það er komið í hús.
Hérna er hún svo, á leiðinni útúr dyrunum "litla barnið okkar" :
Birgitta og co