2.4.2008 | 12:43
Ævintýri í morgunsárið
Allar þessar litlu tilviljanir...
Við Eva Dröfn erum svoooo þakklátar fyrir að það var þrumuveður í gær!
Ef það hefði ekki verið þrumuveður í gærkvöldi þá hefði væntanlega ekki verið svona hrikalega heitt og rakt fyrr um daginn.
Og ef það hefði ekki verið svona hrikalega heitt og rakt í gær þá hefði ég ekki skilið eldhússgluggann eftir opinn.
Og ef ég hefði ekki skilið eldhússgluggann eftir opinn væri ég núna læst úti, lyklalaus og engir lyklar í umferð nema inni í harðlæstu húsinu .
Við uppgötvuðum nefnilega að við vorum læstar úti sem við vorum að leggja af stað í skólabílinn. Við hlupum til nágrannans og fengum lánuð skrúfjárn. Það var ekki séns að komast inn um útidyrnar (sem betur fer kannski) en þá mundi ég eftir eldhússglugganum !.
Við þurftum reyndar að kroppa flugnanetsgrindina frá með skrúfjárninu, og líklega er hún ónýt, og svo tókst mér að lyfta Evu Dröfn upp í gluggann og hún prílaði inn og ofaní eldhússvask.
Og við komumst inn - guð hvað ég er fegin!!
Misstum reyndar af skólabílnum en það er nú minnsta málið.
Þetta var drama dagsins í boði Birgittu og Evu Drafnar .
28.3.2008 | 18:29
Drukkin í skólanum!
Við fengum símtal frá Ardsley High School í gær.
Það var Frú Aðstoðarskólastjóri sjálf sem tilkynnti okkur að hjá henni sæti Ungfrú Kara Guðmundsdóttir sem væri undir áhrifum áfengis .
Við fengum eðlilega áfall! Og sjokk! Og aftur áfall! Og aðeins meira sjokk !
Gummi rauk af stað - ég þyrfti að eiga svona tilfinningatákn sem væri sambland af áhyggjufullum og foxillum pabba því það var hann svo sannarlega.
Ég beið hérna á meðan og gekk um gólf.
Gummi kom aftur stuttu seinna.
Þegar hann kom á skrifstofuna var búið að mæla í henni blóðþrýstinginn og eitthvað meira og staðfesta það að hún væri nú ekkert drukkin barnið enda heitir áfengið sem Karan okkar var að drekka Egils Maltextract - bætir hressir kætir .
Mamma hennar hafði laumað tveimur dósum á Undramund sem hann ferjaði hingað til Köru, við mikinn fögnuð hennar. Þetta hafði hún með sér í skólann í kókflösku (af því það er svo erfitt að vera með opna dós í skólanum) og drakk á milli tíma.
Eins og flestir vita þá lyktar Malt ekkert ósvipað bjór, lítur út eins og dökkur bjór og hlýtur þá að vera bjór - ekki satt?
(if it walks like a beer, talks like a beer og allt það)
Einhver saklaus skólafélagi hennar sá sig semsagt tilneyddan til að tilkynna það að Kara væri að sulla í áfengi á miðjum skóladegi.
Þetta var Drama dagsins - í boði Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar .
27.3.2008 | 17:50
Páskar
Steingleymdi alveg að minnast á páskana, enda voru þeir nú ekkert svo eftirminnilegir .
Byrjuðum daginn auðvitað á páskaeggjaleit. Steinunn amma og Magni afi sendu börnunum þessi líka flottu strumpaegg og það var mikill spenningur að komast í góssið.
Var reyndar alveg búin að gleyma hvað svona páskaeggjaleit fylgir mikið drasl, það eru nefnilega allir svo uppteknir við að rótast og tætast í skápum og skúffum að það endar einhvern veginn allt útum allt. En það fylgir víst svo mamman leitaði bara á stöðum sem aðrir voru búnir að leita á og tíndi til í leiðinni.
Þar sem pabbinn "gleymdi" að kaupa páskaegg handa fullorðna fólkinu fékk hann bara eitt pínkulítið NóaSíríus-egg en var svo sætur að kaupa stærra Ammríkuegg handa mömmunni. En svo var Karan mín svo hrikalega sæt að gefa mér eitt af sínum 3 Alvöru eggjum svo deginum var bjargað og ég tók gleði mína á ný .
Við Eva Dröfn bökuðum svo eftirmatinn, henni þykir skemmtilegast að brjóta eggin, fyrir utan auðvitað að sleikja deigið . Kakan mishepnaðist eitthvað hjá okkur, þeytt egg í mínum bókum eru egg sem eru þeytt í þeytara en þegar við skoðuðum leiðbeiningarnar betur þá þýðir þetta víst bara hrærð egg. Við höldum að kakan hafi þess vegna verið þunn og crispie en ekki þykk og flöffí. Hún var samt góð á bragðið og það er það sem máli skiptir ekki satt?
Fengum dýrindis lambalæri sent frá Döbbu ömmu og Árna afa, alveg einstaklega ljúffengt og gott .
Svo spiluðum við frammá kvöld.
Þetta voru svo sannarlega páskaveisla í boði amma og afa - takk fyrir okkur .
Slatti af nýjum myndum í færslunni hér að neðan og í Mars-albúminu.
Birgitta og co
27.3.2008 | 15:06
Myndir
(farin að skilja hvað þú meinar Eddamín með að blogga útí vindinn ).
Vorið er komið, að minnsta kostið farið að sjást í þetta litla ljúfa græna á trjánum. Skal ekki tala meira um dýralífið þó ég gæti alveg fyllt nokkrar síður af lýsingum á því.
Kannski frekar að tala um litlu dýrin mín sem eru aldeilis að taka við sér í vorinu. Þau hoppa hérna um öll tún eins og lömb, kát og oftast glöð.
Nýjasti leikurinn er svona Role Play leikur. Eitthvað sem þau apa upp eftir Astrópíu. Þau eru búin að búa sér til karaktera og velja á þá útlit, vopn og alls konar eiginleika. Þetta teikna þau allt saman sjálf og fara svo út í bardaga .
Við erum búin að vera dugleg að rölta um hverfið í vikunni og skoðuðum m.a. betur garðinn sem ég hérna nálægt og heitir einfaldlega Ardsley Park. Þar voru fullt af krökkum í alls konar dundi - fótbolta, barnapössun, eltingaleikjum, á hjólabrettum og mörgu öðru. Þau fundu strax einhverja sem þau þekktu og voru "úti að leika" í lengri tíma. Það er eitt af því sem ég (og þau) hafa saknað - að fara "út að leika" með fullt af krökkum. Þetta var því algjört æði og við verðum vonandi reglulegir gestir þarna. Garðurinn er mjög mikið notaður af bænum fyrir alls kyns uppákomur, sérstaklega á sumrin. Við misstum af mesta fjörinu síðasta sumar af því við komum svo seint en munum vonandi ná einhverju stuði núna í byrjun sumars. Ég veit að stundum eru útibíó þarna um helgar, þá mæta allir með teppi, popp í poka og góða skapið og horfa saman á ristatjald - örugglega frekar mikið sport.
Knús af Krossgötunni,
Birgitta og co.
22.3.2008 | 15:59
Föstudagurinn langi
Var nú ekkert svo langur hjá okkur.
Þegar yngri börnin tvö vöknuðu full af kvefi og skít var ákveðið að blása skíðaferðina af. Í staðinn lágum við í algjörri leti og gláptum á sjónvarpið, lásum, spiluðum og höfðum það virkilega notalegt. Létum ekki hósta og hnerra skemma það neitt.
Þetta var sko dagur alveg eftir mínu höfði, ég er nefnilega búin að komast að því að ég er sófakartafla og innipúki - eitthvað annað en Undramundur Orkubolti . Opposites attract eða eitthvað þannig .
Við fjölskyldan höfum alltaf haft rosalega gaman af því að spila borðspil - enda ekki langt að sækja þann áhuga þegar annar afinn var til langs tíma Borðspilakóngur Íslands .
Hérna sjáið þið spilaskápinn okkar. Hann inniheldur þann hluta af spilunum okkar sem við tókum með okkur hingað út, hinn hlutann geymum við í bílskúrnum í Brautarásnum. Ég viðurkenni alveg að það eru einhver spil þarna í skápnum sem við höfum ekkert spilað frá því við komum hingað en þau eru ekki mörg .
Innipúkadagurinn okkar endaði á því að við lögðum undir okkur borðstofuborðið í Risk. Risk er eitt af skemmtilegustu spilum ever og alveg frábært að eiga orðið það stór börn að við getum spilað þetta öll saman.
Pabbinn er mjög skæður Risk-spilari og hann ber að varast - Grænn.
Mission - Destroy all blue troops
Mamman er ekki nógu skæður Risk-spilari, þarf að herða í sér móðurhjartað - Rauð
Mission - Destroy all red troops - or occupy 24 territories
Karan er nokkuð lúmskur Risk spilari, þarf að fylgjast vel með henni - Gul
Mission - Conquer the continents of America and Australia
Árninn er mjööög skæður Risk-spilari og nær ansi oft að vinna - Blár
Mission - Destroy all green troops
Evan er nokkuð nýlega farin að spila sjálf (ekki að hjálpa mömmu sinni) og það er alveg ljóst að það þarf að fylgjast vel með henni, hún er mjög efnileg... - Fjólublá
Mission - Conquer the continents of Europe and South America.
Og Karan vann. Virkilega lúmskulega!
Meðan allir einbeittu sér að því að forða Evunni frá Árnanum, við vorum alveg viss um að hann ætti að eyða henni og reyndum að forða því að hann sigraði, tók Karan sig til og náði sínu missioni.
Við munum hefna harma okkar í kvöld!
Það er nefnilega annar í Sófakartöflum í dag, krakkarnir ennþá kvefaðir og best að halda þeim í ró og næði.
Rifjast allt í einu upp fyrir mér þegar við Undri vorum að spila Risk við góða gesti eftir góðan mat og Eva Dröfn kom niður (átti að vera farin að sofa) og fór að fylgjast með. Hún hafði mikinn áhuga á því hvað hver ætti að gera og hvernig maður ynni (eða svona eins mikinn áhuga og 4-5 ára barn sem á að vera í rúminu en kemst upp með að vera það ekki) og allt eftir því. Svo spyr hún allt í einu:
"Mamma, hvernig álfar eru eiginlega heimsálfar?" .
Knús í öll kot,
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2008 | 12:43
Framundan
Ég er eitthvað óskaplega andlaus þessa dagana.
Undri er byrjaður aftur á þvælingnum, í stað þess að við bíðum eftir honum heim frá NY bíðum við núna eftir honum heim frá Íslandi, frekar skondið hvernig þetta hefur snúist við allt saman.
Á morgun stefnum við á skíði á Windham Mountain sem er í 2-3 tíma fjarlægð. Ætlum að gista eina nótt og skíða föstudag og laugardag.
Krakkarnir eru í skólanum í dag, hérna er bara frí föstudaginn langa og annan í páskum, hina dagana er bara skóli - sko ekki mikil gleði yfir því.
Fengum sent þetta fína páskalamb sem verður eldað á sunnudaginn, allir þvílíkt spenntir yfir því (nema kannski Undri kallinn en hann fær bara eitthvað annað gómsætt). Held samt að börnin mín myndu borða skósóla ef ég segði þeim að hann væri íslenskur, ótrúlegt hvað þau eru föst í að íslenskur matur sé LANGBESTUR í öllum heiminum .
Framundan er mikið fjör.
Kara á afmæli í byrjun apríl og er að hugsa um að halda jafnvel partý .
Hulda vinkona kemur um það leyti, ætlar aðeins að kíkja í búðirnar og draga mig aðeins útúr hús - hlakka svooo til.
Á sama tíma fer Árni Reynir með skólanum sínum í Natures Classroom. Þangað fara langflestir 6.bekkingar í heila skólaviku. Þetta er mjög spennandi. Þau verða í kennslu allan tímann en kennslan miðast mest við raungreinarnar og fer mikið fram úti í náttúrunni. Þau gera alls kyns tilraunir og fá að fylgjast með dýralífinu, bæði að nóttu og degi. Svo eru leikir og kvöldvökur og alls kyns skemmtilegt.
Ég vona að ég nái að tappa einhverjum ritgerðarpælingunum úr kollinum á mér svo ég hafi pláss fyrir eitthvað annað. Ef það tekst skal ég setja inn aðeins skemmtilegri færslu .
Birgitta
13.3.2008 | 18:20
Vorið góða grænt og "hlýtt"
Ég held ég geti með sanni sagt að vorið sé komið í Ardsley, NY.
Hitinn er reyndar ekki nema 8° (feels like 4°, eins og stendur í spánni) en það er allt farið á fullt í vorundirbúningi - hjá dýrunum.
Fuglarnir eru að gera mig geðveika, þeir byrja að kvaka um 5 á morgnana og lætin eru þvílík að það er ekki svefnfriður. Maður sér þá hérna um allt, með strá og fleira fínerí í gogginum svo hreiðurgerð er greinilega á fullu allt í kring. Það er ótrúlega mikið fuglalíf hérna, ég held ég hafi bara aldrei á ævinni séð svona margar fuglategundir í einum garði. Fæstar þeirra þekki ég, nema þessar stærri, þyrfti eiginlega að ná mér í fuglabók svo ég viti nú hvað þeir heita allir - eða ekki.
Íkornarnir eru líka í óða önn að grafa aftur upp restarnar af því sem þeir grófu niður í haust. Garðurinn er eins og eftir moldvörpufaraldur! Þessar elskur muna nefnilega ekkert hvar þeir settu góssið sitt svo þeir grafa smá, þjóta svo eitthvert allt annað og grafa aftur smá og þannig skjótast þeir um allan garðinn og moka litlar holur og slást svo eins og óðir ef einhver þeirra finnur eitthvað bitastætt.
Chipmunk-arnir eru vaknaðir eftir blundinn og núna í morgun sá ég aftur skógarmúrmeldýr. Þau fara víst í dvala yfir vetrarmánuðina svo ég held mér sé óhætt að segja að vorið sé komið.
Nú bíð ég spennt eftir að það hlýni svo að við stóru dýrin getum farið í vorfílinginn með litlu dýrunum.
Birgitta
8.3.2008 | 22:03
Evu Drafnar blogg
Það er allt með kyrrum kjörum á Krossgötunni (fyrir utan forheimsku og fuglagarg ).
Eva Dröfn var í samræmdu prófi í stærðfræði í síðustu viku - miðviku-, fimmtu- og föstudag og rúllaði því auðvitað upp eins og öllu öðru.
Við fengum túlk frá sendiráðinu til að vera henni innan handar í prófinu þannig að ég fékk fréttir eftir hvert próf. Hún stóð sig eins og ofurhetja, túlkurinn vissi um eina villu á fyrsta prófinu og eina eða tvær á næsta og enga á því síðasta! Ég er auðvitað alveg að springa úr stolti og monti og öllu því, hlakka til þegar hún fær einkunnir og sjá þetta svart á hvítu.
Það er aldeilis að við Undri rötuðum á rétta jólagjöf handa litlu skottunni. Hún fékk hljómborð sem er svo sniðugt að því fylgdi kennsluforrit. Hún situr því löngum stundum og æfir sig á píanó. Hún er farin að nota báðar hendur og orðin nokkur klár, eins og sést (vonandi) hér að neðan.
Einu áhyggjurnar sem mamman hefur er að hún sé með ranga fingrasetningu og sé að læra eitthvað sem gæti orðið erfitt að aflæra en það verður bara að koma í ljós. Stefnan er alla vega á píanónám í haust . Það er annað myndband með píanóspili hérna til hliðar (undir nýjustu myndböndin) fyrir þá sem hafa áhuga.
Hún hrúgar að sér vinkonum þessa dagana. Er samt mest með Öshnu frá Indlandi. Svona eru þær rosalega stilltar og prúðar til að byrja með (eins og hérna til vinstri) en svo þegar þær eru búnar að leika í svona klukkutíma þá hefur heldur betur færst fjör í leikinn og þær líta einhvern veginn svona út:
Þær eru nefnilega svipað miklar skottur, báðar frekar háværar og til í stuð og fjör. Þegar maður býr í svona stóru húsi er það allt í lagi, hinir fjölskyldumeðlimirnir geta alltaf forðað sér í aðra álmu ef hávaðinn er orðinn yfirgnæfandi (verst bara hvað það hljóðbært gegnum pappaveggina en það verður að hafa það).
Núna er hún á playdate með annarri stelpu sem er frekar róleg en þær ná samt mjög vel saman. Vona að sú stelpa (Gaby) hafi áhrif á Evu Dröfn frekar en öfugt... svona svo þær fái að hittast aftur (nei, segi nú bara svona ).
Hún er á fullu þessa dagana að skipuleggja hvað á að gera í afmælinu hennar, hvað á að borða, hvaða leiki, hvaða tónlist og allt það - ekki nema 3 mánuðir í afmæli svo það er ekki seinna vænna .
Allir aðrir hressir og kátir, Undri nýkomin frá Íslandi, á leiðinni til Mexíkó og svo aftur til Íslands og Bretlands í næstu viku.
Knús í öll kot,
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.3.2008 | 00:00
Undramundur og Oprah
Ég er búin að liggja í kasti yfir minni eigin heimsku núna í kvöld.
Málið er að þegar ég fór til Íslands fór ég í heimsókn til hennar Huldu vinkonu (og þáði hjá henni gómsætt salat sem kemur málinu akkúrat ekkert við ). Ég færði henni nokkur slúðurblöð sem ég var búin að lesa.
Svo þegar ég er komin hingað út aftur (eða heim eða eitthvað) þá fæ ég undarlega athugasemd frá henni á MSN. Hún segir mér að hún hafi ekki tekið eftir nafni Undramundar í blaðinu heldur hafi maðurinn hennar (sem les NB yfirleitt ekkert slúðurblöð ) rekið augun í þetta.
Ég kom alveg af fjöllum og vissi ekkert hvað hún átti við.
Daginn eftir sendir hún mér þessa mynd (af Opruh), skannaða úr blaðinu, og viti menn - stendur ekki bara nafnið hans Undra míns þarna efst, fyrir ofan Opruh sjálfa, á heilsíðuauglýsingu í ammrísku slúðurblaði . Ég átti barasta ekki orð!
Mér þótti alveg stórmerkilegt að þeir skyldu velja þetta nafn í auglýsinguna, sá fyrir mér að þeir hefðu bara farið í "þjóðskrá" og valið eitthvað nafn af handahófi og svo undarlega hefði viljað til að það væri akkúrat nafnið hans Undra míns - Undur og stórmerki! Svo datt mér reyndar í hug að þetta væri úr People Magazine vegna þess að ég gerðist áskrifandi að því blaði þegar ég flutti hingað út og þurfti að skrá Undra sem áskrifanda (útaf því þeir taka ekki íslensk kreditkort og eitthvað svona vesen). Hélt kannski að þeir hjá People hefðu bara dregið eitthvað ofurkúl nafn úr áskrifendahópnum og smellt í þessa fínu Opruh-auglýsingu.
Maður flækist ekkert í gáfunum sko!
Undra sjálfum fannst þetta ferlega kúl en af allt öðrum ástæðum en mér. Auðvitað er ástæðan fyrir nafninu hans Undra míns á auglýsingunni sú að þeir prenta nafnið á hverjum og einum áskrifanda á þessa síðu, maður fær semsagt blaðið í lúguna með þessari persónulegu spurningu frá Opruh.
Sem er auðvitað líka súperofurkúl en ekki næstum því eins kúl og hitt hefði verið.
Það er samt nokkuð töff að eiga þessa síðu (Hulda mín, þú kannski geymir hana fyrir okkur ).
Birgitta Blondie
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.3.2008 | 15:17
Á ferð og flugi
Flórídaferðinni lauk á sama spaninu og hún byrjaði.
Við fórum meira á ströndina, aftur í Universal, í Wet'nWild, GoKart og örugglega eitthvað meira en það. Við sáum La Nouba hjá Cirque Soleil sem er rosalega flott sýning, mæli með henni ef þið eruð í Disney World.
Við mælum alveg eindregið með húsinu sem við gistum í - Windsor Hills Royal Ascot - 5 svefnherbergi, 5 baðherbergi, sundlaug og allur pakkinn. Alls ekki dýrt og mjög stutt frá öllu skemmtilegu.
Heimferðin gekk ljómandi vel, svo skrítið hvað hún virkaði styttri en ferðin niðreftir en það getur varla verið. Við lentum í hundleiðinlegu veðri á fyrsta leggnum, mikil rigning og rok, en vorum svo heppin að veðrið var búið þegar við lögðum í seinni legginn því þá var ofankoman orðin að snjó eða slyddu.
Þrátt fyrir gott ferðagengi þá var það ansi þreytt og lúin fjölskylda sem kom að Krossgötunni seint að kvöldi 23.febrúar.
Fyrir utan dyrnar biðu okkar 10-11 bögglar og troðfullur póstkassi. Einhverjir (nefni engin nöfn ) höfðu verið duglegir að senda til okkar alls kyns dót sem ég ferjaði svo til Íslands.
Ég fór nefnilega beint í staðlotu á sunnudeginum. Fékk rétt tæpan sólarhring til að pakka upp og þvo eftir Flórídaferðina og hentist svo af stað.
Ég kom alveg ótrúlega miklu í verk í staðlotunni, skilaði verkefnum, fór í matarboð og út að borða, hitti nýbakaðan prins, fór á bókamarkað og ég veit ekki hvað . Ég verð samt að viðurkenna að það er gott að vera komin heim í rútínuna aftur.
Undramundur er svo á leiðinni til Íslands á morgun og við vorum að ákveða að í staðinn fyrir að fara til Vegas í vorfríinu ætlum við öll að koma í vikuferð til Íslands . Það eru allir mun spenntari fyrir því en meira Ameríkuflakki. Við sjáum ykkur því vonandi sem flest í apríllok.
Ætla að ljúka þessu með þessari mynd. Þetta sáum við mjög mikið á leiðinni til Flórída, fólk á svona motorhomes með venjulegan bíl í eftirdragi. Þessi var samt heldur stórtækari því hann er með einhvers konar golfbíl eða eitthvað á pallinum á bílnum sem þau drógu á eftir sér. Þessi var (minnir mig) með númeraplötur frá Quebec svo þau hafa farið ansi langa leið.
Knús og kram í öll kot,
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)