Ys og þys

Nú sit ég hérna klukkan 8:45 inni á hótelherbergi (eða íbúð) og bíð eftir að allir vakni. Ég er ennþá á íslenskum tíma og get alveg ómögulega sofið lengur en til hádegis en þau hin ætla sko að sofa út í dag þannig að ég verð líklega að bíða eitthvað áfram Wink.

Undramundur og ormarnir eru öll með einhverja flensu, Kara það slæm að hún fékk lyf í læknisskoðuninni, en þau eru öll á batavegi og eru bara ótrúlega brött þrátt fyrir allt.

Við erum búin að vera óskaplega dugleg. Við erum búin að skoða nokkuð margar húsgagnaverslanir og komin með ágætis hugmynd um hvað við viljum. Það eina sem við erum þó búin að kaupa eru rúmdýnur. Við sáum að þær væru það eina sem væri algjörlega nauðsynlegt að hafa til þess að geta flutt inn, restin má mæta afgangi.
Við ætlum samt að skoða aðeins meira í dag, og skoða sumt aftur, svo við séum ekki að kaupa eitthvað í fljótfærni sem við sjáum svo eftir síðar.

Fengum að kíkja inn á Krossgötuna í gærmorgun og hittum Dr. Diaz, landlordinn okkar. Hann er læknir og er sá sem skoðaði börnin á föstudaginn. Hann er algjör perla! Virkilega hrifinn af börnunum (sem þýðir auðvitað að ég er virkilega hrifin af honum) og honum er greinilega annt um að okkur líði vel í húsinu hans. Hann ætlar að taka okkur í rúnt á næstunni og sýna okkur allt það helsta í hverfinu, kynna okkur fyrir nágrönnunum, sýna okkur bestu leiðir á milli staða og fleira og svo eigum við bara að hringja "anytime" ef eitthvað er.
Húsið fáum við samt ekki afhent fyrr en seinnipart þriðjudags, núverandi leigjendur tæma ekki fyrr en að morgni og ég hef mestar áhyggjur af því að það náist ekki að þrífa í millitíðinni því núverandi leigjendur eru ... hvernig get ég sagt það pent?... eiginlega eru þau bara svoldið miklar subbur Pinch. Ég er því alveg undir það búin að flytja ekki inn fyrr en á miðvikudag því ég gæti ekki hugsað mér að flytja inn í húsið eins og það er í dag.
Það er einnig ástæðan fyrir því að ég vil ekki setja inn myndirnar sem við tókum í gær, þær myndu gefa kolranga mynd af húsinu því það er allt í drasli í öllum herbergjum og sést ekkert hvað húsið er fínt. Smelli kannski einni inn á eftir, mynd af börnunum fyrir framan húsið, en hún er inni á tölvunni hans Undra og ég þarf fingrafarið hans til að komast inn - spurning hvort ég biðji hann um að lána mér fingurinn í nokkrar mín?

Við ákváðum að fylgja uppástungu Döbbu ömmu og láta börnin velja sér herbergi. Það gerðum við þannig að þau máttu alls ekki segja hvaða herbergi þau vildu heldur áttu þau að skoða allt vel og vandlega fyrst. Svo þegar við vorum á leiðinni frá húsinu lét ég þau öll hafa miða þar sem þau skrifuðu hvaða herbergi þau vildu. Það var mjög skondið því ekkert þeirra valdi það herbergi sem við Undramundur höfðum spáð. Árni valdi sér minnsta herbergið og stelpurnar völdu báðar næst minnsta/stærsta herbergið. Ekkert þeirra vildi semsagt stærsta herbergið Tounge - kannski af því það var málað ljósblátt? Reyndar er stærðarmunurinn á herbergjunum mjög lítill þannig að þau verða öll í stórum herbergjum en við Undri áttum von á slagsmálum um stærsta herbergið.
Þetta bjargaðist þó allt, án stórvægilegra átaka, með loforði um að mála bláa herbergið.
Kara verður því í stærsta herberginu, Eva Dröfn í miðstærð og Árni í því minnsta. Á móti fær Árni herbergi í kjallaranum þar sem hann getur haft kubbana sína í friði (hann var ekkert smá ánægður með það!) og stelpurnar fá restina af kjallaranum til sameiginlegra afnota.

Það er semsagt allt fínt að frétta frá Mahwah, NJ (hótelið okkar er þar), allir sáttir en allir orðnir frekar spenntir fyrir að fá húsið afhent svo við getum byrjað að koma okkur fyrir.

Knús og kram frá öllum til allra,
Birgitta


So long, Farewell, Auf wiedersehen, Goodbye

Sit hérna á flugvellinum og er að hugsa til allra þeirra sem ég náði ekki að kveðja. Þá áttaði ég mig á því að ég kem aftur í byrjun október og ákvað að ég skyldi bara ná að kveðja alla þá. En þetta eru ansi margir og ég verð ekki lengi... kannski ég kveðji bara þá sem eftir eru þegar ég kem heim um áramótin? Og ef það verða ennþá einhverjir eftir sem hafa ekki fengið kveðjuknús, þá fá þeir það bara þegar ég kem heim næsta sumar Smile.

Krakkarnir eru í læknisskoðun í þessum skrifuðu orðum. Ég fékk símtal frá þeim áðan og þurfti að rifja upp í snarhasti hverjir eru með nefkirtla, hverjir með hálskirtla og eitthvað í þeim dúr - það gekk ekkert alltof vel en það hlýtur að bjargast.

Ég er vel byrg af skólabókum fyrir flugið, sé ekki fram á að fá jafngóðan lærdómsfrið í 6 heila klukkutíma næstu vikurnar svo ég ætla að reyna að nýta þennan tíma vel og læra mikið. Er með Laxdælu, Forn handrit og bókmenntafræðigreinar og hlakka bara til að sökkva mér í þetta allt.

 

Farið nú öll vel með ykkur, verið góð við hvort annað og dugleg að hafa samband, hvort sem það er í tölvupósti, síma eða eitthvað annað.

Ég ætla að vera dugleg að setja inn fréttir af okkur svo þið getið fylgst með framvindu mála í amríkunni.

Knús og kram í klessu,
Birgitta


Bólusetningar og fleira

Það verður víst einhver bið á myndum, við fáum líklega ekki að kíkja í heimsókn fyrr en á laugardaginn en það góða við það er að þá fæ ég að fara með Smile.

Það er lítið nýtt að frétta nema hvað þegar Undramundur arkaði með börnin á skólaskrifstofuna til að skrá börnin í skóla, voru honum afhentar þrjú stykki umsóknir sem hver var álíka þykk og íslensk Símaskrá. Hann ákvað að reyna ekki að fylla þetta út á staðnum, börnin orðin frekar óþolinmóð eftir hálftímann. Við nánari skoðun á umsóknunum kom í ljós að það var ýmislegt sem við höfðum ekki áttað okkur á að við þyrftum að hafa meðferðis til að börnin fengju skólavist. Þar á meðal eru bólusetningarvottorð, þinglýstan leigusamning, 2 contact aðila aðra en foreldra og fleira í þessum dúr. Börnin þurfa öll að fara í læknisskoðun og líklega fara þau í einhverjar bólusetningar sem eru ekki gefnar hérna.

Dagurinn í dag fór því í að hafa upp á bólusetningarvottorðum (gat fengið þau í skóla barnanna) og koma þeim á réttan stað. Undramundur er að finna einhvern skottulækni til að skrifa upp á "Clean bill of health" fyrir börnin og vonandi tekst honum að koma umsóknunum í skólann fyrir helgi.

Ég er komin á fullt í mínum skóla og mikið ofsalega er það gaman Smile. Ég vildi óska þess að ég hefði náð að njóta þess að vera í skóla þegar ég var yngri - eða bara að ég hefði fengið að taka grunnskólanámið núna Wink - ég gæti alveg hugsað mér að vera í skóla forever after.

Segi þetta gott í bili, þarf að fara að lesa Eldfærin á dönsku og byrja að "hraðlesa" Laxdælu Kissing.

Birgitta


Börnin farin

Þá eru börnin farin út með pabba sínum.
Ég skal alveg viðurkenna að ég hafði bara hlakkað pínu til að eiga smá tíma ein með sjálfri mér eftir að hafa verið með börnunum í allt sumar en úff púff hvað þetta var erfitt Frown. Er ekki frá því að nokkur tár hafi laumast niður kinn á leiðinni frá flugvellinum.
Það er svo skrítið hvað það er ólíkt að skjótast sjálfur til útlanda og börnin bíða heima - að vera sá sem bíður heima er ekkert gaman.
Núna langar mig barasta ekkert að vera ein með sjálfri mér, langar bara að vera í flugvélinni með Undramundi og ormunum Wink.

Bíð samt spennt eftir að hann sendi mér myndir af slotinu ógurlega, skal pósta einhverjum þeirra hingað inn um leið og þær berast.

Birgitta


Krossgata

Þetta gekk Grin!
Undramundur hringdi seint í gærkvöldi, búinn að undirrita samninginn og það sem meira máli skiptir, kominn með undirritun frá eigandanum líka! Ég bað hann nú að fara vel yfir samninginn og athuga hvort það væri ekki 100% allt rétt og enginn séns fyrir eigandann að bakka útúr þessu og þetta stemmir allt Tounge.
Við fjölskyldan erum því loksins komin með hús. Við flytjum á Krossgötu 11 í Ardsley, NY.
Húsið fáum við afhent 4.september en stefnan er að fara út eitthvað fyrr svo við getum verið tilbúin með öll húsgögn, raftæki og aðrar nauðsynjar um leið og við fáum afhent og byrjað strax að púsla okkur inn.
Það er hæpið að okkur takist að flýta afhendingardegi en við fáum að fylla bílskúrinn svo við getum verslað eins og sjúklingar, hrúgað öllu í skúrinn og byrjað strax að koma okkur fyrir um leið og við fáum afhent.
Málið er nefnilega að skólarnir byrja 6.september og mér finnst eiginlega lágmark að börnin eigi rúm að sofa í og morgunmat í ísskápnum þegar skólinn byrjar.
Þetta bjargast allt saman einhvern veginn - við erum alla vega komin með hús.

Og það er ekkert smá hús Gasp!
Minnir að hjónaherbergið sé 40+ fermetrar. Ég segi "minnir" vegna þess að ég man ekki alveg hvernig húsið lítur út. Við skoðuðum svo mörg hús í síðustu ferð að ég er farin að rugla þeim öllum saman. Man samt að mér líkaði það vel svo það hlýtur að vera gott Wink.
Það er alla vega nóg pláss fyrir gesti Wink. Byrja að taka bókanir 10.september Tounge.

Það er semsagt bara gleði gleði.

Birgitta


Beðið í rigningunni

Við bíðum enn eftir að fá fréttir frá Undramundi í Amríkunni. Hann er þar úti núna að reyna að ganga frá okkar málum svo við getum nú farið að drífa okkur út.

Það er voðalega notalegt að bíða, sitjum öll í stofunni og hlustum á rigninguna bylja á þakinu. Sumir að glápa, aðrir að tölvast og enn aðrir að lesa.
Ferlega kósí!

Set inn fréttir um leið og þær berast.

Birgitta


Kannskifréttir

Nú er að komast smá skrið á okkar Ameríkumál.
Ég er samt svo hjátrúarfull að ég ætla ekkert að vera að básúna þeim fréttum fyrr en málin eru komin alveg á hreint.
Ef allt gengur að óskum förum við fjölskyldan út til NYC næstkomandi föstudag til að kaupa eitt stykki innbú. Ég þarf svo reyndar að koma aftur til Íslands í vikunni á eftir til að fara í skólann en líklega verða Gummi og börnin bara úti á meðan og klára að versla. Og vonandi fáum við svo afhent daginn eftir að ég kem út aftur.

Nánari fréttir um húsið og allt það koma síðar.

Birgitta


Engar fréttir eru (ekki) góðar fréttir

Ástandið er orðið frekar þreytt.
Það er enn ekkert að frétta af afhendingardegi svo ég get lítið Planað og ekkert gert.
Við flengjumst núna á milli góðviljaðra ættingja - búin að vera í nokkra daga í Bústaðahverfinu, erum núna hjá múttu í besta hverfinu og flytjum á miðvikudaginn í Sundahverfið.
Ég skal alveg viðurkenna að þessi þvælingur á mjög illa við mig og það á enn verr við mig að vita ekki nákvæmlega hvenær ég flyt út.
Þetta er samt ágætis æfing í þolinmæði og ævintýramennsku, vona bara að ég komist gegnum þetta heil á geði Pinch.

Birgitta


Flutningar og húsamál

Nú erum við loksins búin að afhenda húsið okkar og að verða búin að koma okkur fyrir og þá hef ég smá tíma (og orku) í að skrifa fréttir Wink.

*Já Edda Björk, þetta er alveg með ólíkindum með okkur frænkurnar! Ég held bara að ömmur og afar hafi sett puttana í þetta og séð til þess að við færum í rétt hús Smile*

Síðasta vika er búin að vera hreint lygileg hjá okkur. Við fengum að vita sl. mánudag að við hefðum misst húsið sem við vorum búin að kaupa (að ég hélt) sem þýddi það að við Gummi þurftum að rjúka út til USA á miðvikudaginn. Við skoðuðum nokkur hús í New Jersey og nokkur í Scardale-hverfinu í New York. Okkur leist best á eitt húsið í NJ en þegar við fórum að kanna skóla og slíkt þá kom það frekar illa út. Við ákváðum því að halda okkur við hverfið í NY og gerðum tilboð í 2 hús þar. Þau voru bæði samþykkt svo nú erum við að bíða eftir að pappírsvinnan klárist alveg þangað til við getum sagst vera komin með hús.

Við komum svo heim síðasta föstudagsmorgun og fórum þá á fullt í að losa húsið okkar. Við erum svo heppin að litla systir fór í sumarfrí til Spánar svo við fengum að koma okkur fyrir í flottu íbúðinni hennar og þurftum því ekki að sofa innan um pappakassa og svarta ruslapoka Wink.
Þar sem það borgaði sig ekki fyrir okkur að flytja búslóðina með okkur ákváðum við bara að reyna að selja hana. Sendum auglýsingar á vini og vandamenn - og á Barnaland. Þetta gekk svo vel að við erum búin að losa nánast allt Happy, bara ein kommóða og 2 skrifborð eftir.
Þetta gekk ótrúlega vel og við náðum að losa húsið og afhenda það í gærdag.

Núna erum við bara að jafna okkur á hasarnum og munum líklega ekki hreyfa okkur í allan dag. Nema við förum í göngutúr og áttum okkur aðeins á umhverfinu og hvað er hægt að gera hérna í kring.

Ég set svo inn fréttir þegar húsamál fara að skýrast, vonandi verður þetta orðið 150% núna næstu daga og ég get farið að huga að því að koma okkur "heim".

Birgitta


"Smá" drama

Við vorum að fá slæmar fréttir Frown. Það er sko bara búið að selja húsið "okkar"!

Datt nú í hug orðatakið "oft kemur vel á vondan" því það voru einhverjir sem gerðu nákvæmlega það sem við gerðum - köttuðu inn í samningaferlið okkar og "stálu" af okkur húsinu.
Reyndar vorum við bara að bíða eftir að eigandinn skrifaði undir fullkláran samning, svo að við áttum nú ekki að þetta gæti klikkað svona korter í closing - en svona er lífið...

Ég er því á leiðinni út til NYC enn og aftur. Fer á miðvikudagsmorgun og kem á fimmtudagskvöldið og getiði hvað ég er að fara að gera???

Jújú, skoða hús Sideways.

Ég verð að viðurkenna að ég er orðin frekar óróleg! Við eigum að afhenda húsið okkar hérna í Árbænum á föstudaginn! Eigum reyndar svo góða að að okkur standa alls staðar til boða staðir til að halla höfðinu okkar á en það dugar einhvern veginn ekki til að róa mig niður... Mér líður betur þegar ég veit hvað er handan við hornið og nú hef ég ekki einu sinni hugmynd um handan hvaða horns framtíðin liggur!

Þið megið alveg senda mér svona róóóóósemdar strauma svo ég fari ekki bara yfirum!
Þakka fyrir að hafa Harry Potter til að dreifa huganum, veit ekki hvað ég gerði án hans Wink.

Meiri fréttir síðar - Birgitta


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband