Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
24.9.2008 | 20:19
Myndir
Ákvað að henda hingað nokkrum myndum - mest svona fyrir tengdó, held þau séu þau einu sem kannski reka nefið hingað inn .
Knús,
B
28.8.2008 | 14:04
Haustið komið
Það má segja að haustið sé komið - eða að það skelli á í næstu viku.
Þá byrja nefnilega flestar tómstundir barnanna og my oh my það verður nóg að gera! Ég sé ekki fram á að sjá börnin bæði í einu nema kannski á laugardögum - sem verður eini frídagurinn í vetur. Ofan á þetta bætist auðvitað heimanám þeirra og mitt eigið og staðlotur og vettvangsnám hjá mér svo ég veit eiginlega ekki alveg hvenær við ætlum að chilla fjölskyldan . Ég er alla vega búin að sjá að ég er ekkert minni soccermum hérna heima en ég var í NY.
Við finnum þó örugglega eitthvað útúr því eins og alltaf.
Ég ætla alla vega að njóta þessarar síðustu chill-viku minnar áður en alvöru alvaran hefst hjá mér nk. mánudag.
Knús,
Birgitta og co
7.8.2008 | 09:49
Uppgjör
Ég var spurð að því um daginn hvort ég saknaði ekki New York. Ákvað að svara því ekkert strax, spá ekkert í það fyrr en hlutirnir væru komnir í eðlilegt horf hérna heima og allt komið á eðlilegt ról.
Og núna get ég alveg sagt að það er slatti sem ég sakna.
Ég sakna þess að fá skemmtilegar heimsóknir í marga daga þar sem maður getur verið að dandalast í búðum, börum og veitingastöðum og hafa það gaman og gott. Ég held að það sé lítill séns á slíkum heimsóknum hingað í B12.
Ég sakna allra búðanna minna. Bæði matvöruverslananna, með öllum nýju og fersku ávöxtunum og hrikalega flotta úrvalinu, og auðvitað allra hinna búðanna líka.
Ég sakna þess að geta ekki skotist niður á Manhattan í dagsferð - Reykjavík er fín en ekki alveg jafn stórfengleg
Ég sakna ruslakallanna minna . Þeir komu 2svar í viku og tóku rusl og einu sinni í viku komu þeir og tóku pappa og/eða plast. Semsagt mjööög auðvelt að endurvinna.
Ég sakna líka útsýnisins af veröndinni. Það breyttist á nokkurra vikna fresti og var alltaf jafn fallegt:
Vona að það sé hægt að smella á myndirnar og stækka þær þannig að þetta sjáist betur. (og já, þetta er ég að dunda mér við í sumarfríinu af því að ég hef EKKERT betra að gera ).
Og síðast en ekki síst sakna ég Maríanna minna á þriðjudagsmorgnum, syngjandi og trallandi, skúrandi og skrúbbandi. Það er ekki séns að ég nái að búa jafn vel um rúmin og þær - sama hvað ég reyni.
Það sem vegur samt upp á móti þessu öllu saman er hvað börnin mín eru frjáls og ánægð hérna heima. Þau eru valsandi um allan Árbæinn með vinum sínum, skjótast í sund, í hjólatúra eða bara heimsóknir, án þess að ég þurfi að bóka slíkt með 2ja vikna fyrirvara og án þess að ég sé með hjartað í buxunum af áhyggjum.
(Svo er líka miklu auðveldara að gefa þeim að borða hérna ).
Knús í kotin,
Birgitta
20.7.2008 | 13:04
Ojbara Ojbara Ojbara Ullabjakk
Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum þá finnst mér ekki gaman að flytja!
Við fengum gáminn á planið á fimmtudagseftirmiðdag. Ég byrjaði strax að henda út því sem ég gat þar til Helena litlaofursystir (ætlaði að skrifa ofurlitlasystir en hún er nú ekki svo lítil ) kom og hjálpaði mér. Við vorum hrikalega duglegar þar til Undri kom með 2 hjálparhendur sem Undrasystir- og mágur lánuðu okkur og þá fór allt á fullt og 2 tímum, 3 pizzum og 4 bjórum síðar var allt komið úr gámi og inní hús.
Og þá leit húsið svona út:
Þá langaði mig bara að skríða uppí rúm og undir sæng - en það var ekki hægt því rúmið var í 18 pörtum og sængin oní einhverjum kassa - einhverjum af rúmlega 100.
Og NB - þetta er stofan hér á myndinni og í henni var bara dót sem átti að vera þar, þetta er semsagt bara brotabrot af öllu saman .
Það var ekkert annað að gera en að bretta ermarnar enn hærra og vinda sér í fjörið. Við náðum að klára öll svefnherbergi að mestu þetta sama kvöld - það er ekki af honum Undramundi skafið þegar kemur að vinnu, ótrúlega duglegur maður sem ég á!
Hérna er nefnilega ekkert hægt að panta sér Mario bræður til að koma og skrúfa og negla og raða - ónei! Hérna er það bara Do It Yourself takk fyrir takk.
Núna erum við loksins farin að sjá fyrir endann á þessu. Ekki eftir nema 3-4 kassar - svona kassar sem enginn veit hvar eiga að vera eða hvort er hreinlega pláss fyrir. Mig langar mest að setja þá út í skúr og ná ekki í þá fyrr en þegar ég sakna einhvers úr þeim. Er nefnilega nokkuð viss um að það gerist aldrei...
Held m.a.s. að það séu nokkrir kassar úti í bílskúr sem ég nennti ekki að taka með út og ákvað að geyma - hef ekki hugmynd um hvað er í þeim og er örugglega búin að kaupa mér nýtt ef það var eitthvað sem ég verð að eiga .
Alla vega, ég er alveg búin að sjá það að við hefðum betur keypt öll húsgögnin okkar í Ikea, New Jersey, þá hefðum við alla vega fengið þau í evrópskum stærðum. Þessi húsgögn sem við erum með eru alla vega ekki gerð fyrir íslensk hús, það er alveg ljóst. Það er rétt svo að húsið passi utan um húsgögnin, spurning um að fara að kíkja eftir stærra húsi .
Við Guðmundur furðuðum okkur á því að við fáum engan ruslpóst, ekki Fréttablaðið eða neitt af þessu sem dettur inn um lúguna sama hvað. Svo litum við út og sáum aðkomuna:
Má bjóða ykkur í heimsókn?
Knús og kveðja,
Birgitta og co
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.7.2008 | 13:40
Beðið eftir Gámi
Nú er ferðalaginu okkar alveg að ljúka.
Ég bíð eftir símtali frá bílstjóranum sem ætlar að keyra gáminn okkar heim í hlað. "Eftir hádegi" var okkur sagt og ég er búin að vera að bíða frá því klukkan 12:01 .
Ligg nú samt ekkert í leti, er að týna saman dótið okkar hérna í H29, panta mér þvottavél og þurrkara, láta mig dreyma um nýjan, tvöfaldan ísskáp með klakavél og vatnshana, nýtt helluborð, ofn, háf og uppþvottavél og sitthvað fleira . Kostar ekkert að láta sig dreyma eða hvað?
Veit ekki hvernig verður með nettengingar í B12, hún á reyndar að vera komin skv. þjónustuaðilanum en spurning hvernig okkur gengur að koma upp nauðsynlegri aðstöðu og tengja nauðsynlega víra. Vonandi um helgina.
Það verða líklega engar fréttir af okkur fyrr en í næstu viku en þeir sem eru óþreyjufullir geta bara fengið sér bíltúr og kíkt á okkur .
Knús,
Birgitta og co
9.7.2008 | 23:18
In luuuuuvvv
Já, ég held ég sé bara ástfangin! Kom á Vestfirði í fyrsta skipti á ævinni og er ennþá að jafna mig (sko á besta mögulegan hátt).
Við lögðum af stað á föstudagsmorgni og leiðin lá norður og vestur. Þar sem við vorum bæði að fara akandi vestur í fyrsta skipti vorum við nú ekki alveg örugg á öllum afleggjurum og útafbeygjum. Keyptum kort (og fullt af mat) í Borgarnesinu og þóttumst aldeilis til í slaginn.
Auðvitað tókst okkur svo að "villast" og keyra lengri leiðina en það kom ekki að sök . Vorum að vísu aðeins lengur á leiðinni en við ætluðum okkur en enduðum á réttum stað sem er fyrir öllu.
Rétti staðurinn var Flókalundur í Vatnsfirði. Þar biðu Marta og Óli, Katla og Rökkvi okkar á besta stað á tjaldsvæðinu.
Þarna eyddum við ljúfum tíma í dund og dútlerí, sund og át og drykk og fleira slíkt sem tilheyrir útilegum. Úr Flókalundinum keyrðum við yfir heiðar og fjöll (sem ég kann ekki að nefna öll) og enduðum í Hvestu í Arnarfirði. Þar fóru pabbarnir í landamæraparís með börnunum, mömmurnar sátu bara í sólbaði og smelltu myndum á meðan. Hvesta er þvílík Paradís! Ég trúi bara ekki að þar eigi að byggja olíuhreinsunarstöð . Ég skora á alla sem vettlingi geta valdið (hljóta nú flestir að valda vettlingi...) að fara þangað áður en þetta verður eyðilagt. Vona að það sjáist á myndunum hvað þetta er fallegt, börnin auðvitað í forgrunni en bakgrunnurinn alveg ótrúlegur - ekki satt?
Við héldum svo áfram inn til Ísafjarðar þangað sem ég var að koma í fyrsta skipti. Við fengum inni á Búinu Mörtu og Óla þar sem var farið með okkur eins og kóngafólk. Ég skammast mín nú fyrir að viðurkenna að ég er ekki alveg með sögu Búsins á hreinu, Marta mín er vonandi til í að uppfræða mig við fyrsta tækifæri...
Gummi þurfti að rjúka í bæinn á sunnudeginum, reyndar síðar en hann ætlaði þar sem ekki var flogið vegna þoku. Honum tókst svo hið frækna verk að fljúga til Reykjavíkur með lyklana að bílnum okkar í vasanum . Það gerði lítið til þar sem ég var ekkert að fara strax, fékk lyklana svo bara senda með flugi daginn eftir.
Við gerðum alveg ótrúlega margt á þessum stutta tíma sem ég var í heimsókn; fórum á tónleika í Haukadal, í sund í Bolungavík, börnin fóru á árabát með pöbbunum, fórum í stelpuferð í bæinn og versluðum í Legg og skel (sem er besta búð í heimi skv. Evu Dröfn ), í Olíubúðina þar sem keypti mér garn, fórum í Gamla bakarí, fengum dýrindisveislu í góðum félagsskap á Seljalandi og margt, margt fleira.
Ég er örugglega að gleyma einhverju hrikalega merkilegu, en það er þá bara vegna þess að ég er ennþá stútfull af fjallafegurð, ég vissi bara ekki að Ísland ætti þetta til - þó mér hafi nú alltaf þótt Ísland fallegast í heimi þá vissi ég greinilega ekki nema helminginn.
Heimferðin gekk eins og í sögu þó ég væri ein á ferð með börnin. Nýi bíllnn stóð sig eins og hetja og Árni Reynir var besti leiðsögumaður sem ég hef fengið, hann var kortastjóri og vísaði veginn og benti á markverða staði (öll bæjarstæði, ár, fjöll, hæðir, gil, fossar, hólar og heiðar á leiðinni ). Já, það má segja að heimferðin hafi gengið glimrandi þangað til við komum að Hvalfjarðargöngunum. Þar var einhver 'illi' búinn að velta tjaldvagninum sínum í miðjum göngum sem þýddi að öll umferð var stöðvuð í um 40 mínútur . Við misstum því af Galdrakarlinum í Oz í Elliðadalnum en verðum bara að ná því síðar.
Frábær ferð um frábær fjöll í frábærum félagsskap .
... Ég er að hugsa um að halda þessari síðu opinni, fínt að setja hingað ferðafréttir fjölskyldunnar. Tók hana úr lás þar sem ekki er lengur um nein hernaðarleyndarmál að ræða - eins og staðsetningu hinna ýmsu fjölskyldumeðlima á óvinagrundu og þ.h. .
Myndir í Júlí.
Knús í kotin öll (og Búin),
Birgitta
28.6.2008 | 12:06
Brottför og heimkoma
Jæja, þá er þessum kafla lokið.
Það var skrítið andrúmsloft í bílnum þegar við keyrðum út Krossgötuna í síðasta skipti. Sumir sorgmæddir og aðrir himinlifandi. Dagurinn var algjört kaos, allt á fullu frá því eldsnemma um morguninn og langt fram á kvöld.
Moverarnir komu fyrir 8 og byrjuðu strax að vefja öllu inn í kílómetra af bóluplasti, plastfilmu og pappír - ég hugsa með hryllingi til þess að þurfa að vefja þessu öllu til baka en þetta ætti að verja rándýru IKEA eldhússtólana mína þannig að þeir verði heilir þegar þeir lenda í Reykjavíkurhöfn í júlílok.
Við lögðum svo af stað frá Krossgötunni klukkan rúmlega 18, í 2 leigubílum og náðum inn á JFK um 19. Við vorum bara með rúmlega 20 töskur , hluti fór í handfarangur en við fengum góðfúslega að tékka inn 12 stykki. Þurftum aðeins að endurraða sökum þyngdar en þetta slapp allt ótrúlega vel. Stutt bið á vellinum, stutt flugferð heim (bara 5 tímar) og svo vorum við lent á gamla góða Íslandi . Frekar þreytt og lúin en frekar kát og glöð.
Mamma Köru beið á flugvellinum og þar urðu sko fagnaðarfundir. Hennar beið líka kærastinn, hann Bjarni, og þar urðu ekki minni fagnaðarfundir .
Árni afi kom og sótti okkur hin og keyrði okkur í ömmu- og afakot.
Nú erum við svona að reyna að koma okkur á rétt ról og ætlum bara að láta fara vel um okkur hérna í H29.
Knús til ykkar allra. Takk fyrir allar kveðjurnar, það er búið að vera svo gott að hafa ykkur hérna, það stytti aðeins fjarlægðina við ykkur öll að vita að þið fylgdust með ævintýrunum okkar í Ameríkunni.
Til hamingju með daginn Edda frænka og stuðningsmaður númer 1-2 . Vona að þú njótir hans í botn!
Birgitta og co
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.6.2008 | 12:53
Aukastress - update
Ekki að það hafi verið mikið stress í gangi hjá okkur - sem betur fer - allir voðalega slakir.
Það breyttist aðeins í gær.
Eimskip hafði samband (loksins!) og þá er ekkert öruggt að þeir geti staðfest gáminn til okkar á morgun . Jafnvel ekki fyrr en á föstudaginn.
Og við búin að breyta fluginu okkar og alles.
Og panta flutningamenn til að hjálpa okkur - á morgun.
Og fá Maríurnar mínar til að koma og þrífa húsið - á föstudaginn.
Svona lítur borðstofan okkar út í dag .
Það eru samt allir í svo góðum gír að þetta náði ekkert að hræra (mikið) í okkur. Ef til kemur þá breytum við bara plönunum skv. því.
Fer samt svoldið illa með Planið að vita þetta ekki af eða á...
Update: Eimskip náði að redda málunum og gámurinn verður kominn - á undan áætlun! - fyrir hádegi á morgun .
Birgitta
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.6.2008 | 15:46
Flugi flýtt vegna veðurs
Ákvað að kíkja á veðurspána fyrir Long Island, athuga hvort við fengjum ekki sól og blíðu og dásemd og dýrð í þriggja daga sumarfríinu okkar.
Ónei, það var sko ekki í boði.
Veðurspáin fyrir akkúrat þessa 3 var bara glötuð. Þrumuveður og rigning ALLAN TÍMANN. Sól og blíða daginn áður og daginn eftir að við ætluðum að halda heim.
Veit fátt leiðinlegra en að kúldrast inni á hótelherbergi í leiðindaveðri .
Breytti því planinu með det samme.
Við krakkarnir ætlum að fljúga heim með Köru á fimmtudagskvöldið. Undramundur ætlar að skila húsinu okkar hérna og fara með bílinn á bílasöluna og kemur með föstudagsfluginu.
Þó það verði leiðindaveður á Íslandi er mun betra að kúra í ömmu og afa koti en á hótelherbergi á Long Island.
Best að bretta upp ermarnar og henda mér í pakkið.
Knús,
Birgitta og co
22.6.2008 | 01:48
Moving up
Á föstudaginn síðasta var Moving Up Ceremony í Concord Road Elementary School.
Það er ekki beint útskrift heldur svona 'uppfærsla' því þá færast krakkarnir í fjórða bekk upp í Middle School.
Þetta var samt ekkert minna maus en alvöru útskrift - get ekki ímyndað mér að útskriftir úr Háskólanum séu neitt minna mál, enda eiga þær ekkert að vera það.
Það var auðvitað byrjað á fánahyllingunni, ég fattaði ekkert af hverju ég fékk hornauga frá fólkinu í kringum mig fyrr en ég kveikti á því að það voru ALLIR með hönd yfir hjarta að þylja - enginn að smella myndum eins og ég . Svo sungu börnin ýmiss lög með 'America' í textanum og allir fengu tár í augun - svona eins og ég hefði fengið ef þau hefðu verið að syngja 'Ísland er land þitt' eða eitthvað álíka - en ég var merkilega þurrhvarma.
Alveg þangað til Mrs. Fusillo, kennarinn hennar Evu Drafnar, fór að lesa upp nemendurna sína. Hún er búin að kenna í ansi mörg ár, fyrstu nemendurnir eru víst fimtugir í ár. Og þetta er síðasti bekkurinn hennar. Hún er að hætta störfum og hún átti svo bágt með sig konu greyið að ég held að hálfur salurinn hafi verið farinn að snökta með henni.
Vona að ég nái að setja hingað inn myndbandið sem ég tók af þessum merka atburði, þá getið þið snökt með mér og Mrs. Fusillo .
Eva Dröfn er semsagt útskrifuð úr Elementary School. Verð nú að viðurkenna að hluti af mér væri alveg til í að vera hérna eitt ár í viðbót og leyfa henni að fylgja öllum nýju vinunum sínum í Middle School.
Köru leist nú ekkert alltof illa á ár í viðbót, eða kannski svona nokkra mánuði en Árna Reyni leist bara alls ekkert á svona pælingar. Enda held ég að þetta sé alveg orðið ágætt í bili .
Pökkunin gengur vel - eða það held ég alla vega. Kemur í ljós á fimmtudagsmorguninn hversu vel hefur gengið.
Knús og kram,
Birgitta og co.