Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Sjúkrasaga og enskupróf

Ástandið á Krossgötunni er búið að vera frekar slappt undanfarna daga.
Árni Reynir er búinn að vera með einhverja lufsu í hátt í 5 vikur og var sendur heim úr skólanum á miðvikudaginn.
Við erum búin að kynnast aðeins hinu alræmda heilbrigðiskerfi hérna í USA og ég verð að segja að mín fyrstu kynni af því eru svona lala.
Fórum fyrst til læknis fyrir 3 vikum síðan. Þá var hann búinn að vera frekar kvefaður í 2 vikur og kominn með leiðinlegan hósta. Læknirinn fann ekkert að honum en sendi okkur heim með pensilín (hana grunaði kinn/ennisholusýkingu).
Viku seinna var allt við það sama svo við fórum aftur og hittum sama lækni.
Hún hafði nú ekki mikinn áhuga á þessu en sendi okkur heim með astmapúst. Gaf ekki mikið útá að það væri nokkuð að.
Á miðvikudaginn var hann svo sendur heim úr skólanum og var kominn með hita um kvöldið svo við örkuðum aftur til læknis í gær.
Hittum sem betur fer á annan lækni sem hafði aðeins meiri áhuga á málinu. Hún gerði ýmis próf og endaði með að senda okkur í lungnaröntgen. Það kom ekkert útúr því.
Við fórum því heim með sterapúst og nefúða og annan tíma nk. mánudag svo doksi getið tekið stöðuna á honum þá.
Hann er orðinn hitalaus í dag svo ástandið er vonandi að lagast eitthvað.

Af því við erum ekki komin með sjúkratryggingaskírteinin okkar hefur þetta verið ansi dýrt! Við fáum reyndar alveg sömu þjónustu (held ég alla vega..) en þurfum að borga og borga og borga Pinch.

Krakkarnir voru öll sett í stöðupróf í ensku í síðustu viku. Niðurstöðurnar eru alveg ótrúlega góðar. Kara skoraði svo hátt að hún er á mörkunum að eiga rétt á aðstoð. Hún fær hana samt eitthvað áfram og ætlar að vera dugleg að nýta sér hana meðan hún býðst.
Árni skoraði "advanced" og á rétt á áframhaldandi aðstoð. Það er aðallega rituð enska sem hamlar honum, stafsetningin ekki alveg komin og svo þarf hann bara að vanda skriftina sína þessi elska því hún er stundum svolítið óskýr - ætli hann verði ekki bara læknir Wink. Hann fékk mikið hrós fyrir töluðu enskuna og fyrir að vera ekki feiminn við að spyrja og spjalla.
Eva Dröfn skoraði líka "advanced", reyndar við lægri mörkin svo hún mun fá aðstoð áfram. Hún fer til Mrs. Murray 3svar í viku og finnst það alveg æði! Hún elskar skólann sinn hérna, hún hlakkar til að fara á hverjum morgni og finnst ekkert voðalega gaman að það sé komin helgi því þá kemst hún ekki í skólann Tounge.
Þau verða öll "súkkulaði" fyrstu vikurnar. Það þýðir að þau munu ekki fá einkunnir eins og hinir krakkarnir heldur fá þau "passed" eða einkunn með "moderation" sem þýðir að þau fá einkunnir á sama skala og aðrir en verkefnin verða aðlöguð að þeim. Eftir áramót verður staðan tekin aftur og þá munu þau jafnvel þurfa að standast sömu kröfur og aðrir krakkar en það verður metið þegar þar að kemur.

Það er svo skondið að manni finnst að allir sem eru á ferðinni hérna í USA eigi að "droppa við" hingað til okkar. Það er samt svona eins og að finnast að allir sem fari til Þýskalands, Frakklands eða Spánar eigi að "droppa við" hjá Helenu systur í Danmörku Whistling.
Þið vitið bara að þið eruð alltaf velkomin í innlit ef þið eruð í nágrenninu Kissing.

Knús í bili,

Birgitta


Lúsabanar

Maður losnar ekki við lúsina þó maður flytji yfir öll heimsins höf.
Eitt af því fyrsta sem kom heim í töskupósti úr skólanum hennar Evu Drafnar var lúsamiði!

En þetta er ekki lúsamiði eins og ég er vön - ónei.
Skólinn kaupir þjónustu hjá fyrirtæki sem heitir LiceEnders (ég vil þýða það LúsaBanarnir svona eins og Draugabanarnir góðu hér í gamla daga). Þetta fyrirtæki kemur í skólann að hausti og lúsakembir ÖLLUM nemendum, kennurum og öðru starfsfólki. Þeir nemendur sem eru með lýs eru sendir heim med dete samme.
Að kvöldi sama dags sótthreinsa Lúsabanarnir allar skólastofur sem lúsabörnin/starfsmennirnir hafa verið í hátt og lágt. Þeir fara síðan heim til sýktu fjölskyldunnar þar sem þeir gefa góð ráð um hvað skal þrífa, hvað skal sótthreinsa og hvernig fjölskyldan þarf að meðhöndla lúsabarnið og aðra fjölskyldumeðlimi.
Lúsabanarnir koma svo aftur í skólann nokkrum dögum seinna og lúsakemba allt liðið aftur, ef það finnast lýs er sama ferlið endurtekið (mig er farið að klæja þvílíkt Pinch) þar til skólinn er lúsalaus.
Lúsabanarnir endurtaka þetta svo aftur kringum vetrarfrí (jólin) og eftir vorfríið.

Þetta þykir mér algjör snilld. Það er ekki verið að taka sénsa á því að skólinn "sleppi" þetta árið eða að foreldrar standi sig í stykkinu ef upp koma lúsatilfelli, heldur bara fengið fyrirtæki í málið - ekta Ameríka Tounge.

Annars allt fínt að frétta. Eva Dröfn er loksins byrjuð í ensku fyrir erlenda nemendur (ELL). Ég veit ekki af hverju það byrjaði ekki strax eins og hjá hinum krökkunum en þeir prófuðu hana fyrst í síðustu viku og komust auðvitað að því að hún þarf á kennslu að halda. Hún fer því í 1-2 tíma á dag þar sem hún lærir ensku gegnum söng, leiki, lestur og dans sem ég er alveg viss um að á eftir að falla vel í kramið.

Kara fór á amerískan fótboltaleik á sunnudaginn, með "íslensku" vinkonu sinni sem er klappstýra LoL. Mamma hennar fór með þeim svo við Undri vorum mjög ánægð með að hún fengi aðeins að kynnast alvöru amerískri unglingamenningu.  Á meðan fórum við hin í skemmtigarð sem er í ca 20 mínútna fjarlægð en það var svo hrikalega heitt að það var varla orka í að arga í rússíbönum, hvað þá meira.
Krakkarnir fengu sér svona candy apples, eitthvað sem ég hef oft séð í bíómyndum en aldrei bragðað. Það voru miklar pælingar um hvort þetta væri "bara hollt" eða "hrikalega óhollt" eða bara eitthvað þar á milli?

Candyapples

Við þurftum líka að vinna þessa Hello Kitty í hestakapphlaupi, ormana fengum við í körfubolta (sko, ormana sem ormarnir mínir halda á Tounge).

Í snjóskafli

Við fundum snjóskafl þarna á miðri bryggju, í glampandi sól og steikjandi hita. Komumst að því síðar að þarna er skautasvell og snjórinn tengist því væntanlega eitthvað.

Árni Reynir á Gokartbíl

Árni Reynir og Gummi tóku hring í Gokart og fannst ekki leiðinlegt. Árni Reynir var mjög einbeittur allan tímann og stóð sig eins og hetja.

Það eru fleiri myndir í albúmunum, gerði nýtt albúm sem heitir Playland.

Knús og kram,

Birgitta


Skyr.is, Vatnajökulsvatn og smjör

Fórum í Wholefoods Market áðan og ég sver það, ég held ég hafi séð tár í augum barnanna þegar við fórum í mjólkurvörukælinn og sáum Skyr.is Tounge. Það var alla vega dansaður stríðsdans og hrópað og kallað og highfive-að. Held að fólkið í kringum okkur hafi haldið að við værum eitthvað galin. Það voru sko keyptar 10 dósir eða fleiri og mig grunar að ég eigi eftir að þurfa að fara nokkuð oft í þessa búð.
Í næstu hillu voru svo Smjörstykki, ég keypti eitt slíkt þó ég sé nú ekkert viss um að það verði borðað.
Samþykkti samt ekki að kaupa Vatnajökulsvatn á flöskum, á 5 dollara stykkið, ef það er ekki okur þá veit ég ekki hvað. Og Vatnajökulsvatn..!? Hvað er það eiginlega? Vatnið í ísskápnum okkar er alveg þrælfínt svo ég ætla frekar að spandera á eitthvað annað en þetta.

Komum svo heim og erum búin að hlusta á Somewhere over the Rainbow með Iz svona 100 þúsund sinnum. Verst að við erum bara með þetta af YouTube, þarf að kaupa þetta á diski svo fólk geti hlustað í einrúmi.

Ég veit ekki hvort mér tekst að koma þessu hingað en njótið vel ef það tekst Kissing.

Knús,

Birgitta


Fréttir og veður (auglýsingar og dagskrá)

Það er aldeilis að þessi vika hefur verið fljót að líða, bara komin helgi aftur Tounge.

Það er ekki hægt að segja að daglegt líf á Krossgötunni sé svipað því sem var í Brautarásnum. Dagarnir hérna byrja klukkan 6:00 hjá Gumma og Köru og 6:50 hjá okkur hinum. Eftir það hefðbundna tekur við skutl útum allan bæ - Kara fyrst í skólann, svo Árni og loks bíðum við Eva Dröfn saman eftir skólabílnum hennar.
Þetta hefur verið svoldið stress en ég held við séum búin að finna rétta taktinn í þetta - samtaka nú einn tveir einn tveir!

Ég ætla að prófa að setja vikuplanið inn sem viðhengi, veit ekkert hvernig það mun líta út. Ef það tekst þá er Eva Dröfn bleik, Árni blár og Kara fjólublá. Ég ákvað að setja þetta upp í skjal svo ég væri nú pottþétt mætt á réttan stað á réttum tíma - líka svo Undramundur geti gripið inn í ef ég er vant við látin Wink.
Þetta er þvílíkur munur því hérna þarf að skutla og sækja ALLT! Ekkert sem heitir að labba í fimleika/karate/gítar eins og heima. Ég er farin að skilja þetta hugtak "soccermom" mun betur en ég gerði. Og tómstundir Köru eru ekki enn komnar á listann FootinMouth, hún er reyndar að stefna á að taka kickboxing og þeir tímar eru yfirleitt á kvöldin svo þetta mun allt púslast saman einhvern veginn.

Það er svo gaman að því að ef við heyrum frá einhverjum á Íslandi þá fáum við alltaf fréttir af veðrinu. Hérna er bara sama veðrið dag eftir dag, nánast engin breyting frá því að við komum hingað fyrst. Það er reyndar aðeins að kólna, ekki lengur hægt að fara í stuttbuxum og stuttermabolum á morgnana heldur þarf að vera í peysu en svo hitnar vel yfir daginn og allir koma fáklæddir heim. Maður er semsagt hættur að gá til veðurs áður en maður klæðir sig á morgnana, það hefur t.d. bara rignt einn dag síðan við komum hingað en það var samt heitt og engin ástæða til að breyta klæðnaðinum nokkuð.

Ég spjalla stundum við eina mömmuna meðan við bíðum eftir skólabílnum. Hún er frá Argentínu og er búin að vera mjög hjálpleg og indæl. Hún sagði mér að ef það snjóar hérna þarf alltaf að hringja í símsvarann hjá skólanum því skólarnir loka mjög oft ef það snjóar Gasp. Þá væru öll börn heima, annað hvort þar til búið er að moka allt eða þar til næsta dag ef það snjóar mikið. Það verður gaman að sjá hvað telst "mikill snjór" hérna í Ardsley Tounge.

Var að bæta við myndum í September-albúmið. Hérna er ein af Evu Dröfn fyrir utan uppáhaldsbúðina sína - Build a Bear á Manhattan.

Eva Dröfn

Knús og kossar,

Birgitta og co.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sönglandi, syngjandi

Ég er búin að sitja hérna í allan morgun og hlusta á yndislegan spænskan (eða mexíkanskan) söng. Þrífurnar mínar tvær voru nefnilega hérna og þær syngja sko og raula í kór allan tímann - ekkert smá notalegt.

Og þvílíkur munur á íslenskum þrífum og spænskum/mexíkönskum! Það er ekkert sem heitir "við gerum ekki svona eða hinsegin" það er bara allt tekið og skrúbbað og sumt skrúbbað uppúr klór. Og ekki nóg með það heldur tóku þær úr þvottavélinni, settu í þurrkarann og í næstu vél og gengu frá öllu - óumbeðnar Grin. Og rúsínan í pylsuendanum... þetta kostar skid og ingenting!

Annars gengur allt ósköp vel hérna á Krossgötunni.
Krakkarnir að aðlagast vel í skólunum, farin að eignast kunningja og skilja meira og meira með hverjum deginum.
Eva Dröfn fór í fyrsta danstímann í gær, hún valdi sér að æfa jassballet og líkaði bara ágætlega. Árni fer á fyrstu karateæfinguna í dag og hlakkar mikið til, hann vill ekki missa úr meðan við erum hérna og þurfa að byrja á eftir félögunum á Íslandi þegar við komum heim. Mér gengur ekki vel að finna samkvæmisdansa fyrir Köru, það virðist ekki vera "inn" hérna í hverfinu en ég er ekki hætt að reyna.

Ég er að ná í afturendann á náminu, er ekki eftirá í öllu lengur og mun vonandi ná að vinna allt upp í þessari viku. Svo fæ ég námslegan stuðningsaðila númer 1 í heimsókn í byrjun október og þá verð ég nú aldeilis með þetta allt á hreinu Tounge. Hún Marta ætlar nefnilega að koma og vera hérna í nokkra daga áður en við förum í staðlotu. Við ætlum að vinna saman verkefni sem við eigum að flytja þá.
(þetta er ekkert fyndið - við ætlum VÍST að læra!).
Helena systir ætlar svo að koma með mér heim úr staðlotunni og við ætlum að gera eitthvað hrikalega skemmtilegt saman - svo vill hún endilega passa fyrir mig meðan við gömlu hjónin förum eitthvað en ég veit ekkert hvort ég leyfi henni það GetLost.
Svo í nóvember fær Kara vinkonu sína í heimsókn og þær eru komnar á fullt í að plana allt sem á að fara og skoða og kaupa og sjá Tounge.

Aðrar heimsóknir eru ekki Planaðar en sendið mér bara nótu ef þið viljið kíkja og ég skal athuga hvað er laust Wink.

Kveðja,

Birgitta


Myndir

Jæja, þá er efsta hæðin komin alveg í lag Grin. Öll herbergi tilbúin fyrir utan kannski hjónaherbergið sem mætti alveg bæta í húsgögnum.
Ég er búin að sjá það að hjónaherbergið er ca 4 sinnum stærra en hjónaherbergið okkar í Brautarásnum, herbergið hans Árna er tvöfalt stærra, Evu Drafnar er svona helmingi stærra og Köru eitthvað aðeins stærra. Það gæti því orðið erfitt að skipta aftur til baka Wink.

Þar sem öll herbergi voru rosalega fín og flott í svona 2 mínútur eftir að við kláruðum að koma öllu saman þá ákvað ég að smella myndum. Það eru fleiri myndir í myndaalbúminu sem heitir September.

Barbie og Bratz hornið

 

 

 

 

 

 

 

Vinnuaðstaða mömmunnar

 

 

 

 

 

 

 

 

  Hjónaherbergið

Í nýja rúminu

Köruherbergi

 

 

 

 

 

 

 

Svo er hérna ein mynd af Undramundi í peysunni fínu sem hann fékk í afmælisgjöf, senda alla leið frá Íslandi (ásamt lýsispillum og lakkrís Wink).

Pabbi í afmælispeysunni

Nú erum við fjölskyldan á leiðinni inn á Manhattan þar sem við ætlum að gera okkur glaðan dag. Ætlum að fara á Stomp og kíkja aðeins í búðir og ef við verðum heppin hittum við Oddnýju frænku kannski á vappinu í ChinaTown.

Birgitta

Ps. Myndirnar hlaðast eitthvað furðulega inn, þið getið skoðað þær betur í Myndaalbúminu.


Loftmyndir

Ég á að vera að læra núna en er komin með alveg upp í kok af frumlagsígildum, nafnliðum og setningarlegum einkennum sagna.
Og þá er mikið skemmtilegra að blogga Smile.

Við erum búin að hafa það hrikalega gott í dag. Við krakkarnir erum í fríi og því sváfum við úúúút í morgun.
Þurftum að skila bílaleigubílnum en erum svo heppin að dóttir hans Jims, sem vinnur hjá Undra, var einmitt að fara í 4ra mánaða Evrópureisu í gær og þau lánuðu okkur bílinn hennar. Sá heitir Sophie og er lítill sætur Golf. Föttuðum svo reyndar seint í gærkvöldi að Sophie er ekki með neitt GPS-tæki svo við brunuðum í Best Buy til að fjárfesta í þeim lífsnauðsynlega grip - en það var lokað!
Ég keyrði því í fyrsta skipti í morgun ÁN GPS í Best Buy en þá var græjan ekki til Pinch.
Ég komst þó áfallalaust fram og til baka og er ekkert smá stolt af mér!
Græjan var pöntuð á netinu og ætti að koma á morgun.

Ég veit ég er margbúin að lofa að setja hingað inn myndir af slotinu en þar sem við eigum ennþá eftir að klára upppakkningu þá ætla ég að geyma það fram að helginni. Þangað til getið þið skoðað þessar fínu loftmyndir af húsinu sem ég fann á Google Maps.

loftmynd Þetta er mynd af húsinu okkar. Vonandi sést litli blái pinninn í þakinu sem ég notaði til að merkja. Við búum semsagt ekki í risahúsinu með sundlauginni og litla vatninu í garðinum. Þar búa skrilljónamæringar sem eiga yfir 400 bensínstöðvar, hef mikið verið að velta því fyrir mér hvernig ég eigi að fara að því að kynnast þeim en ekki enn fengið góða hugmynd - megið alveg koma með uppástungur Kissing.

Evuskóli Hérna er skólinn hennar Evu Drafnar - Concord Road Elementary School. Þarna eru borðaðir djúpsteiktir hamborgarar í hádeginu og allir sem eru í mat fá nammi í eftirmat. Þeir sem koma með nesti fá sér popp, snakk og sælgæti og vinsælasta jógúrtið er Trixjógúrt (muniði ekki eftir Trix?). Evu Dröfn líkar mjög vel þrátt fyrir þetta allt og er búin að eignast nokkrar vinkonur. Hún er einmitt á þeim aldri þar sem hinum stelpunum finnst mikið sport að vera með "íslensku stelpunni" og þær keppast um að hjálpa henni og leika við hana.

Árnaskóli Þetta er Árnaskóli - Ardsley Middle School. Glöggir lesendur sjá líklega bláa punktinn efst í hægra horninu.. það er húsið okkar.
Hérna er líka borðað subb og vibb í hádeginu en að öðru leyti er þetta mjög professional og flottur skóli. Við komumst reyndar að því í gær að álagið var helst til mikið á Árna greyið. Hann er það góður í enskunni og duglegur að spyrja að kennararnir hafa líklega talið að hann væri fullfær um að vinna sömu vinnu og aðrir nemendur í 6. bekk. Sem hann er auðvitað ekki.
Hann fékk því smá kvíðakast í gær yfir heimanáminu og átti frekar bágt greyið Frown. Við erum búin að tala við skólann og þar var haldinn fundur með kennurunum hans og á að búa til nýtt plan fyrir hann. Og allir kátir og ánægðir með það.

Köruskóli Og hérna er svo Köruskóli - Ardsley High School. Hann virkar rosalega stór svona á mynd en telst lítill á mælikvarðanum hér, held það séu ekki nema um 600 nemendur. Hérna er hægt að kaupa sér hollari mat en er í boði í hinum skólanum. Kara er mjög ánægð þarna og námið gengur vel. Það er stundum svolítið erfitt að átti sig á hvar næsti tími er en það er allt að koma. Hún var svo heppin að hitta þarna íslenska stelpu og sú er búin að vera dugleg að kynna Köru fyrir vinum sínum og skólanum.

Og þannig er nú það.
Kannski ég reyni að remba mér gegnum restina af fyrirlestrinum, vona bara að það sitji eitthvað smá eftir.

Mig langar að enda þetta á að þakka ykkur fyrir öll commentin, það er gaman að vita af því að þið eruð að fylgjast með, þá finnst mér ég ekki vera alveg jafnlangt í burtu.

Knús og kyss,

Birgitta

 


Heimanám og ostur

Ósköp lítið að frétta héðan.
4. skóladagurinn gekk mjög vel fyrir sig og allir komu ánægðir heim. Heimanámið er reyndar svolítið yfirþyrmandi þar sem það er allt á ensku en þau eru algjörar hetjur börnin mín þrjú og láta sig hafa að liggja yfir því þar til það er búið.
Við reynum að halda okkur við það að byrja á heimanáminu um leið og þau eru búin að fá sér hressingu en stundum er samt kominn kvöldmatur áður en allt er búið. Það mæðir reyndar mest á Köru en hún hefur (eðlilega) langmest að gera greyið. Ég hef þó fulla trú á því að þetta muni ganga hraðar þegar þau eru komin betur inn í málið og farin að ná öllum hugtökum og frösum sem maður lærir ekki af útvarpi, sjónvarpi og tölvuleikjum - hef ekki ennþá heyrt Eminem syngja um multiplication, Bratz leggja stund á experimental science eða umræðu um literature í Star Wars en það kemur kannski að því Smile.

Lífið er semsagt að komast í rútínu sem er ósköp gott fyrir alla. Það er svo frí í skólunum á fimmtudag og föstudag útaf hátíð sem heitir Rosh Hashanah og er hátíð gyðinga til fögnuðar fyrsta dags nýs árs hjá fólki, dýrum og lagalegum samningum Woundering (people, animals, and legal contracts) og þá ætlum við að reyna að gera eitthvað skemmtilegt.

Lærdómurinn gengur ekki alveg eins vel hjá mömmunni Pinch. Morgnarnir mínir eru búnir áður en þeir byrja, það er alltaf eitthvað sem þarf nauðsynlega að gera, skjótast, sækja eða eitthvað, og áður en ég veit af eru börnin komin heim og minn friður úti. Og það er ekki eins og ég sé að taka uppúr kössum - ónei, ég er að gera eitthvað allt annað (ekki spyrja mig hvað). Ég vona að þetta lagist um leið og öll okkar mál hérna komast á hreint.

Undramundur er núna í ökuskólanum Wink. Það er meiriháttar ferli að fá gilt ökuskírteini og það þurfum við að hafa til að geta keypt og tryggt bíl. Hann lætur sig þó hafa það, búinn í bóklega prófinu, er í ökuskólanum núna og tekur svo verklega prófið í október.

Og okkur tókst að finna ost Grin! Danskan hávarta sem bragðast bara nánast eins og íslenskur brauðostur. Það var mikil gleði í kotinu þegar það uppgötvaðist (þarf ekki mikið til að gleðja lítil hjörtu - eða maga Wink). Svo heyrðum við af íslenska skyrinu í Wholefoodsmarket sem við verðum að bruna og kaupa (ætli morgundagurinn fari ekki í það.. Kissing) og þá hlýtur mér að takast að forða matagötunum mínum frá sultardauða.

Allir semsagt í góðum gír.

Birgitta


Lítill mexíkani með skrú, skrú, skrúfjárn...

Það er alveg magnað að ef maður pantar sér einhverja þjónustu hingað heim þá mætir yfirleitt verkstjóri og skilur eftir 2-3 mexíkana til að vinna vinnuna.
PappakassarÍ gær voru hérna 2 mexíkanar í 10 klukkutíma Pinch að skrúfa saman IKEA-vörur , verkstjórinn þeirra skutlaði þeim hingað og sótti þá svo þegar þeir voru búnir. Það er alveg meiriháttar að geta pantað heimsendingarþjónustu og samskrúfun á IKEA-dótinu, Undri gekk um með sælubros á vör yfir því að þurfa ekki að gera þetta allt sjálfur.
MBMexíkanarnir voru mjög duglegir og náðu að skrúfa næstum allt saman, þeir voru virkilega kátir og glaðir við sína vinnu, töluðu hátt og hlógu mikið. Árna Reyni þótti þeir mjög skondnir og var farinn að kalla þá Maríóbræður, sem var mjög viðeigandi Tounge.

Í dag er fyrsti dagurinn þar sem hægt er að segja að allt sé í nokkuð eðlilegum farvegi. Krakkarnir fóru allir í skólann í morgun, Gummi fór í vinnuna og ég er sest við tölvuna og ætla að myndast við að ná upp þeirri vinnu sem hefur setið á hakanum hjá mér undanfarnar vikur. Morgnarnir hérna verða nokkuð skondnir - Árni og Kara mæta 7:55 í skólann og eru í sitthvora áttina. Gummi þarf að vera mættur í lestina 8:02 í næsta bæ og Eva mætir svo síðust eða klukkan 8:40. Þetta þýðir ansi mikinn akstur fram og til baka um hverfið og svolítið span á öllum. Á jákvæðu nótunum þá verð ég líklega fljót að læra að rata hérna Wink.

Það er aðeins farið að bera á heimþrá. Þetta er allt svo ólíkt því sem við eigum að venjast og undanfarið hefur lítið verið hægt að gera nokkuð annað en að pakka upp, ganga frá, borða og sofa. Við ætlum að reyna að bæta úr því næstu helgi og gera eitthvað saman - kannski finna strönd til að fara á eða skemmtigarð eða eitthvað skemmtilegt.
Svolítið gaman að því hvers þau sakna mest - matarins! Árna finnst maturinn hérna bara ekki neitt eins og hann á að vera. Það vantar almennilegt smjör, enginn ostur er góður, brauðið er of "þykkt" og jógúrtið kekkjót. Það sem bjargar þessu öllu að mamman getur eldað góðan hafragraut hvar sem er í heiminum og svo má ekki gleyma "glænýju ömmusultunni" sem fyldgi okkur yfir hafið. Veit ekki hvar við værum án hennar Wink.

Árni saknar líka vina sinna í Árbæjarskóla, krakkarnir hérna eru víst ekki eins og hann er vanur en ég held að þetta taki bara smá tíma. Stelpurnar sýna honum reyndar mikinn áhuga - of mikinn að hans sögn. Svo mikinn að hann þurfti hreinlega að hlaupa burtu frá þeim á föstudaginn, þær spurðu hann svo mikið Whistling.

Ég ætla að segja þetta gott í bili og reyna að koma einhverju í verk. Þ.e.a.s. ef útsýnið, íkornarnir og dádýrin trufla mig ekki  of mikið - er svo æðislegt að sitja hérna og stara útum gluggann Smile.

Knús og kyss,

Birgitta


Myndir og meiri fréttir

Ég var varla búin að senda inn færsluna hér að neðan þegar ég fann blessaða myndavélasnúruna. Hún var ofan í "vitlausum" kassa og því ekki nema von að ég finndi hana ekki. 

Annars verð ég að segja að ég er ofsalega fegin að ég er aaaalein heima þegar ég pakka uppúr kössum hérna á Krossgötunni. Ég á bara ekki orð yfir sjálfri mér þegar ég er að taka upp hluti sem ég veit ekki einu sinni til hvers ég geymdi hvað þá að ég skilji hvers vegna ég dröslaði þeim með mér yfir hálfan hnöttinn (eða svona næstum því).

Ætla sko ekki að segja neinum frá því hvað var í þessum kössum (Marta mín er eina undantekningin því hana vantaði svo svakalega upplyftingu) - þetta fer með mér í gröfina (eða bara beint í ruslið).

Hérna koma svo fullt af myndum. Það verða líka fleiri myndir inni á albúmalistanum en hann má nálgast með því að smella hingað.

Á leiðinni út Krakkarnir á leiðinni í ævintýrið mikla.
Á Homewood í Mahwah Í sundi á hótelinu.
Kara í sólbaði Kara skvís.
Framhiliðin Þetta er svo framhliðin á húsinu. Lengst til vinstri er inngangurinn, hann er opinn alveg upp svo að glugginn beint fyrir ofan er hluti af andyrinu og stigaopið upp á efri hæðina. Á neðri hæðinni til hægri er borðstofan og þar fyrir ofan er herbergið hans Árna Reynis.
Framhliðin frmh. Restin af framhliðinni. Þarna er bílskúrinn á neðri hæðinni og hjónaherbergið á efri hæð.
Bakhliðin Bakhliðin. Lengst til vinstri á neðri hæðinni er stofan/fjölskyldu/sjónvarpsherbergið, þar fyrir ofan er "háaloftið" sem er inn af hjónaherberginu og þar mun Undramundur hafa vinnuaðstöðuna sína. Glugginn sem kemur aðeins út er þar sem eldhússborðið er og þar fyrir ofan er baðherbergið inn af hjónaherberginu.
Bakhliðin frmh Þetta er svo restin af bakhliðinni. Lengst til hægri á neðri hæð er eldhússglugginn, þar við hliðina er lærdómsherbergið mitt. Efst til vinstri er herbergið hennar Köru, litli glugginn er baðherbergi barnanna og efst til hægri er herbergi Evu Drafnar.

Þessar myndir lýsa samt engan veginn stærð húsins. Eldhússglugginn er t.d. ekki pínulítill heldur bara nokkuð stór. Glugginn á lærdómsherberginu mínu er hærri en ég - þetta eru svona rennihurðir.

Það eru fleiri myndir í albúminu sem er merkt september.

Knús og kram,

Birgitta


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband