Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Amerísku jólin

Pabbi og KaraÞetta er búið að vera hreint út sagt yndislegt.
Ég skil ekkert í okkur Íslendingunum að vera að bögglast við að opna pakkana á aðfangadagskvöldi, allir orðnir yfirspenntir og þreyttir og ná ekki að njóta matarins og svo þegar síðasti pakkinn er opinn þarf nánast að fara beint í bælið.

Við byrjuðum auðvitað á að hafa möndlugraut í hádeginu. Árni Reynir fékk möndluna og fékk Partýspilið Tounge. Svo fór dagurinn í dund og spil (og eldhússstúss).

JólamaturinnVið borðuðum jólamatinn klukkan 18, hamborgarhrygg með öllu og grænmetisgúmmelaði fyrir Undramund. Allir borðuðu í rólegheitum og það var ekkert mál þótt við leyfðum matnum að sjatna aðeins áður en við snerum okkur að eftirmatnum.
Eftir matinn spiluðum við Partýspilið, stelpur á móti strákum og auðvitað unnu stelpurnar "it's a girl thing" Wink.

Þegar við vorum búin spila fengu allir 2 pakka, í pökkunum voru náttföt og inniskór fyrir alla - dressið fyrir Jóladaginn.

 

Jólamorgunverðurinn

 

Við Undri vöknuðum svo eldsnemma (8:30) í morgun og fórum beint í eldhúsið þar sem við elduðum þennan líka dýrindis morgunverð. Vorum með pönnukökur, skrömbluð egg, ávexti og grænmeti, lax, skinku og alls kyns annað álegg, ferskan djús a la Undri og já, held það sé komið (bara fyrir þig Marta Sideways).

 

 

Árni opnar pakkaÞá kom loksins að því að við settumst inn í stofu og réðumst á pakkaflóðið.
Ótrúlega mikið af pökkum W00t af öllum stærðum og gerðum.
Hérna er Árni Reynir að opna Ripstik frá Döbbu og Árna, alveg lygilega erfitt að halda jafnvægi á þessu! Árni á Ripstick

Hann var reyndar fljótur að ná ballans og þýtur núna um allt hús eins og náttfataklædd ofurhetja. 

 

Gamall vinurPabbinn fékk þessa snilldargjöf frá börnunum sínum. Þau höfðu skrifað á kortið "Þetta er gamall vinur þinn, hann vill hefnd". Gummi var að vonum frekar hlessa og svoldið spenntur og hló svo dátt og innilega þegar hann opnaði pakkann og sá Rubiks Cube í nýrri ofurútgáfu. Þessi er sko ekki 3x3 heldur 4x4 og þ.a.l. trilljón sinnum erfiðari en kubbburinn sem Undri litli leysti á nokkrum sekúndum í gamla gamla daga.


PabbinnSvo var hann reyndar alveg niðursokkinn í þetta, svo niðursokkinn að við enduðum með að fjarlægja kubbinn svo að við hefðum einhvern pabba með okkur í jólagleðinni. Hljómborðið

Verð að smella inn einni mynd af Evu Dröfn þegar hún opnaði pakkann sinn frá okkur Undra. Við ákváðum að gefa henni hljómborð, gengur ekki lengur að hafa hana glamrandi á litla 10 lykla hljómborðið sem hún erfði frá Rebekku eða Helenu. Eins og þið sjáið á svipnum þá hitti þetta svo sannarlega í mark!
Elsku þið öll, takk innilega fyrir allar fallegu gjafirnar, það eru allir í skýjunum!

Kara krútta

 

Það eru allir alsælir og glaðir með daginn. Við erum svo búin að liggja hérna í algjörri leti. Krakkarnir búnir að leika sér með allar nýju gjafirnar í rólegheitum og allir á náttfötunum allan daginn Grin. Ég veit ekki hvernig það á eftir að leggjast í fólkið en ég gæti alveg hugsað mér að gera þetta að hefð hjá okkur, þetta er svo mikið afslappaðra og notalegra svona.

Það eru fleiri myndir í Jólaalbúminu.

Framundan er svo ferðalagið mikla á morgun, allir að vakna og pakka niður og svo skutlumst við yfir hafið til að knúsa ykkur öll LoL - guð hvað við hlökkum til.

Ég ætla ekki að taka hana Löbbu mína með mér til Íslands, held við verðum með feykinóg af farangri svo ekki búast við annarri bloggfærslu fyrr en á næsta ári.

Knús og kossar,

Birgitta og co


Jólakveðja


Beðið eftir jólunumEva Dröfn er gjörsamlega friðlaus, ég held hún muni enda með að springa áður en við náum að að halda jólin. Myndin hérna til hliðar lýsir ágætlega því hvernig hún er búin að vera síðustu daga Tounge.

Árni greyið veiktist í fyrradag og er búinn að liggja með hita og hausverk. Hann er ótrúlega duglegur að reyna að slaka á og halda sér í ró, þrátt fyrir að það sé margt sem reyni að toga hann á fætur og í fjörið (lesist, litla systir).

Kara tekur þessu öllu með stóískri ró, ég er samt ekki frá því að ég sjái spennuglampa bregða fyrir í augum hennar öðru hvoru.

Jólatréð í stofunni

Við ætlum að hafa jólin að amerískum sið þetta árið. Ætlum að borðan jólamatinn í kvöld en svo að honum loknum ætlum við bara að fara að spila og hafa það notó saman.
Svo þegar við vöknum í fyrramálið, þá verða pjakkajólin, eftir dýrindismorgunmat Halo.

Hérna er jólatréð okkar í myrkrinu í gærkvöldi, þegar við Undri vorum að lauma undir það síðustu pökkunum. Ótrúlega hefur þeim fjölgað eitthvað síðustu daga, við verðum allan morgundaginn að opna þá alla Grin.

 

Elsku vinir og fjölskylda, hafið það svo ofsalega ljúft og gott og yndislegt næstu dagana, við hlökkum svo innilega til að hitta ykkur.

Risaknús og -kossar,

FJölskyldan á Krossgötunni


Jólatónleikar

Við Árni Reynir fórum á jólatónleika Concord Road Elementary School í gærkvöldi. Þar söng hún Eva Dröfn með fríðum flokki drengja og stúlkna úr 4ða bekk í skólanum hennar.

Þetta var alveg ótrúlega gaman, virkilega fallegt og meiriháttar. Mér fannst svolítið skrítið að hlusta á snúlluna mína syngja svona tónleika á ensku, hún hefur alltaf verið í kór en þá er sungið á íslensku.
Það er svo gaman að því að þó maður hafi heyrt sitt barna æfa sig hérna heima þá er það svo ólíkt því þegar mörg börn eru komin saman, ég var með gæsahúð og kökk allan tímann.

Vona að mér takist að setja inn upptöku af einu laginu, annars verðið þið bara að koma á næstu tónleika Wink.

Púff, það er eitthvað þarna, sé ekki hvernig þetta verður en það kemur í ljós. Er þetta hepnaðist þá er Eva Dröfn þarna fyrir miðju einhvers staðar, ég var mjög aftarlega þannig að ég þurfti að vera á fullu zúmmi svo upptakan er kannski ekki mjög góð.

Hérna er svo jólakveðja til ykkar allra, er nú líklega búin að senda þetta á flest ykkar en ...

http://www.elfyourself.com/?id=1523719019

Birgitta

 


Bið, endalaus bið

Nú er eiginlega bara verið að bíða hérna á Krossgötunni.

Eva bíður eftir Jólunum,
Árni bíður eftir jólunum og að hitta Garðar vin sinn á Íslandi,
Kara segir á hverjum degi "ég hlakka svo til að fara til Íslands" og "ég get ekki beðið eftir að koma til Íslands", svo hún bíður eftir að áramótaferðinni
og
við gömlu bíðum bara eftir.. tja, eiginlega bara engu Tounge.

Það er ósköp notalegt að vera í jólafríi.
Tala nú ekki um þegar börnin eru í skólanum fram yfir hádegi, Maríurnar mínar koma vikulega að þrífa og jólainnkaupin eru búin. Ég er bara eins og prinsessan á bauninni hérna og kann ekkert smá vel við það.

Á morgun fer ég reyndar 19 ár aftur í tímann og fer í verklega bílprófið í annað sinn á ævinni. Það skiptir semsagt ekki máli þó ég hafi keyrt bíl í 19 ár, ég verð að sanna það fyrir ammrískum prófdómara að ég kunni í alvörunni að keyra.
3ptGet nú ekki sagt að ég hlakki til, kvíði mest fyrir ef ég þarf að bakka í stæði Frown, það hefur sko aldrei verið mín sterkasta hlið.

pp

Eða ef ég þarf að gera svona 3 point turn - man ekki eftir þessu úr ökuskólanum á Íslandi... (sem er kannski ástæðan fyrir því að ég þarf að gera þetta aftur, humm?).
Vona bara að ég fái jafn ágætan prófdómara og Undri og verði bara 3 mínútur að rumpa þessu af. Það væri frekar glatað að falla á bílprófinu komin hátt í fertugt Sideways.

Kemur í ljós í morgen.

Birgitta


Lokað vegna veðurs

Jæja þá er fyrsti Snow Day í skólunum barnanna í dag.

Í gær kom Eva Dröfn heim með miða úr skólanum. Á honum var farið yfir Emergency Pick-up Procedures ef til óveðurs myndi koma. Allir að vera tilbúnir að sækja börnin eða vera heima ef þau kæmu með skólabílnum. Bæði Árni og Kara töluðu líka um að allir byggjust við því að það yrði Snow Day og frí í skólanum.
Spáin var nefnilega frekar "slæm" og búist var við SNJÓKOMU Shocking.

Við spáðum nú ekki mikið í þetta, ég kíkti á spána og jújú, átti að snjóa eitthvað en ég gat ekki séð að það ætti að blása neitt. Verð að viðurkenna að ég lagði lítinn trúnað í þetta.

ÓveðriðVöknuðum svo við tölvupóst OG sms klukkan 5:30 í morgun þar sem okkur var tilkynnt að allir skólar í Ardsley yrðu lokaðir í dag vegna yfirvofandi veðurs. Þegar við litum útum gluggann blasti þetta við okkur (myndin hérna til vinstri). Blankalogn, léttskýjað og frekar hlýtt.

Við hlógum eiginlega bara. Mikið var óþægilegt að treysta þessum skilaboðum þegar veðrið var svona yndislegt og fallegt. Við ákváðum samt að njóta dagsins bara og Undramundur tók sér m.a.s. frí í vinnunni.  
Ætlum að skreyta jólatréð, baka, spila og hafa það hrikalega notó í dag.

Núna er klukkan 11:30 og þá lítur "óveðrið" svona út:

ÓveðurSegi nú bara eins gott að maður þurfti ekki að senda börnin út í þetta!!! Eða þannig sko Sideways.

Fyndið að í íslenskum fréttum les maður um að björgunarsveitir séu í viðbragðsstöðu vegna yfirvofandi veðurs en hvergi er minnst neitt á að skólarnir séu lokaðir.

Okkur þykir þetta mjög fyndið og höfum styrkst í þeirri trú okkar að Íslendingar séu hörkutól.

Bestu kveðjur úr (ó)veðrinu,

Birgitta og co

Smá update.
Nú er klukkan 15:20 og börnin ættu öll að vera komin heim úr skólunum. Óveðrið mikla

Hérna er mynd af "veðrinu" eins og það var verst. Verð að segja að við værum alveg til í ALVÖRU óveður. Ekki svona jólakortamyndaveður eins og er hérna. Það hefur ekkert blásið, það sko blankalogn og á Íslandi teldist þetta blíðskaparveður - og ég er  ekkert að ýkja neitt.

Finnst þetta næstum ekkert fyndið lengur, eiginlega bara halló. Meiri veimiltíturnar þessir Amríkanar!

B


Jólafrí og leti

Þá er mamman búin að skila af sér síðasta verkefninu og komin í jólafrí.
Og það ekkert smá jólafrí því skólinn byrjar ekki aftur fyrr en 14.janúar Grin.

Veit ekki alveg hvar ég ætla að byrja í letinni, er með bókahrúgu á náttborðinu sem mig langar að lesa, nokkra þætti á TiVoinu sem mig langar að horfa, fullt af pökkum sem þarf að pakka inn, áramótaferð til Íslands sem þarf að undirbúa og ég hangi bara hérna við tölvuskjáinn og geri ekki neitt.

Það er mest lítið svosem að frétta af okkur. Krakkarnir standa sig áfram með prýði í skólanum en eru pínu svekkt yfir að fá ekki "alvöru" jólafrí eins og á Íslandi. Fyrsti frídagurinn þeirra er nefnilega 24.desember! Sem betur fer lendir hann á mánudegi svo þau fá helgina á undan í frí en eiga svo að mæta aftur í skólann 2.janúar svo þetta er nú ekkert á við íslenska jólafríið.

Ótrúlega sætar systur

Við höfum fengið nokkrar beiðnir um addressuna okkar, greinilegt að einhverjir ætla að lauma til okkar jólakortum Tounge. Smelli henni hérna inn svona ef fleiri eru að vandræðast:

11 Cross Rd.
Ardsley, NY10502
USA

Ekki flókið Wink.
Svo náum við nú vonandi að hitta einhver ykkar þegar við komum, alla vega svona þessa nánustu, við hlökkum ferlega mikið til!

Knús og kram,

Birgitta


Jólahúsið

JólahúsiðLangaði að sýna ykkur hvað húsið okkar er orðið fínt.
Mamma og pabbi hjálpuðu okkur að versla skrautið en fengu ekki að sjá hvað þetta kemur allt flott út.
Reyndar var svolítill Íslandsfílingur á þessu hjá okkur því það rigndi daginn eftir snjóinn og jörðin varð alveg auð. Í dag er búið að snjóa smá svo ég laumaðist út í rökkrinu og smellti þessum myndum af dýrðinni. Jólajólahúsið

Undramundur er nú á flakki um Evrópu með pakkaviðkomu á Íslandi. Kannski ekki bara pakkaviðkomu en ég veit um ansi marga sem ætla að lauma á hann einhverju undir tréð okkar fína (sem er ekki komið upp).

Það eru allir orðnir mjög spenntir yfir jólaferðinni til Íslands. Við leggjum af stað á annan í jólum og lendum að morgni 27. Á laugardeginum verður svo haldið á Flúðir þar sem við ætlum að eyða áramótum með Döbbu, Árna, Rebekku, Gunna Spunna og Helenu Pelenu Pú.

Dagana fram að því eru börnin að plana að hitta vini sína og við Undri gamli kannski bara líka Wink.

Lýk þessu á myndum af litlu lærdómssnillunum:

Árni  Eva

Knús í kotin ykkar,

Birgitta


Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó

Þegar við vöknuðum í morgun var lífið orðið svolítið öðru vísi á litinn en það var þegar við fórum að sofa - það var hvítt!

Ný verandarsýnÞetta er nýja útsýnið af veröndinni minni, rosalega gaman að sjá hvernig þetta útsýni hefur breyst á þessum mánuðum sem við höfum verið hérna. Þarf að setja inn myndasyrpu þegar við höfum verið hérna lengur.

Krakkarnir virðast hafa fundið lyktina af snjónum því þau voru komin á fætur fyrir allar aldir og rokin út. Mikið fjör í þeim
Eva Dröfn fann nokkrar endur svamlandi á lækjarsprænunni í garðinum okkar og ákvað að þær hlytu að þurfa morgunmat eins og við. Hún byrjaði á að arka út með vonda  morgunkornið og bjóða þeim en þær vildu ekkert sjá það frekar en við. Hún náði þá í brauðið okkar og það þótti þeim almennilegt og hámuðu í sig eitt og hálft brauð. Þetta var ótrúlega gaman svona í morgunsárið og mikið stuð á öndunum.
Árni með bátinn sinnÁrni Reynir náði í heimasmíðaðan bát sem hann setti á flot. Var búinn að setja í hann lítinn fjársjóð og sá fyrir sér að einhver gutti á hinum endanum myndi finna hann síðar í sömu sögu. Reyndar fór ekki betur en svo að báturinn var næstum sokkinn en endaði reyndar með því að mara bara í hálfu kafi og flaut þannig eitthvað út í buskann.

Svo mokuðu þau allan snjó af stígnum og úr innkeyrslunni áður en þau fengu nóg af útiveru.

Nú verður spennandi að sjá hvort það bæti í snjóinn og skólarnir verði kannski bara lokaðir á morgun.

Nýjar myndir í desemberalbúminu.

Knús,
Birgitta


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband