Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Lög og reglur

Það er ýmislegt í skólunum hérna úti sem er öðru vísi en við erum vön. Sumu var erfitt að venjast, sumt kom auðveldlega og sumt lærðist af reynslunni Smile.

Hérna eru dæmi um það sem er bannað:

  1. Bannað að fara út þegar það snjóar eða rignir.
  2. Bannað að fara út þegar það er kalt.
  3. Bannað að fara úr skónum inni í skólanum (sem skýrir væntanlega reglu 1).
  4. Bannað að vera á göngunum án þess að hafa sérstakan passa (hall pass).
  5. Bannað að vera með skólatöskuna sína í matsalnum.
  6. Bannað að vera með skólatöskuna sína í tíma.
  7. Bannað að sækja heimavinnuna sína í skápinn (lockerinn) eftir að tíminn er byrjaður (sjá reglu 3 hér að neðan).
  8. Bannað að fara úr skónum í skólabílnum, jafnvel þó þar sé eitthvað sem stingur mann í tána.

Hérna eru svo dæmi um það sem á/má gera:

  1. Það á að vera í skónum inni.
  2. Það á að mæta í skólann í íþróttaskónum þá daga sem það eru íþróttir (bannað að taka þá með sér og mæta t.d. í kuldaskóm (Evuskóli).
  3. Það á að nota 3 mínúturnar sem eru á milli tíma til að skila bókum í skápinn og sækja bækurnar fyrir næsta tíma (sjá reglu 7 hér að ofan).
  4. Það má vera í úlpum í tíma.
  5. Það má borða nammi, snakk og gos í skólanum (meina, það er selt í matsalnum).
  6. Kennararnir mega gefa nemendunum nammi þegar þeim dettur í hug (oft notað sem verðlaun).
  7. Það má fara til hjúkku og leggja sig ef maður er mjög þreyttur. Hjá hjúkku eru 4 legubekkir og teppi til þessara nota (High School).
  8. Það er bannað að fara út af skólalóðinni, nema maður sé kominn í 12.bekk.

Þetta eru helst þær reglur sem okkur þykja skrítnar. Svo eru margar reglur sem mætti alveg taka upp í íslenskum skólum eins og:

  1. Bannað að nota iPod og gemsa innan skólans.
  2. Bannað að tala í tímum, nema með sérstöku leyfi.
  3. Ekki hægt að komast inn á myspace, msn, eða síður sem tengjast á engan hátt náminu.

Það er mun meiri agi hérna en í íslenskum skólum sem er mjög jákvætt og verður til þess að börnin eru að fá meiri kennslu af því það fer enginn tími í eitthvað vesen.

Í stað jóla- og vorprófa eru próf á 2-3ja vikna fresti sem telja öll til lokaeinkunnar, ásamt öllu heimanámi og virkni í tímum.

Og fullt og fullt. Ég gæti örugglega skrifað heila ritgerð um þetta en læt þetta duga Wink.

Farið vel með ykkur,
Birgitta


Meira af veðrinu

Af því hún Marta var svo yndisleg að senda mér vídeóupptöku af alvöru íslensku roki þá ætla ég að endurgjalda henni með upptöku af amerísku óroki.

Það sést kannski aðeins á trjánum að það er hífandi rok, er samt ekki viss. Við erum að tala um að það var HÍFANDI rok, ekki bara smá gola. Það sem vantar í rokið hérna eru hljóðin - skil ekki hvert þau fara.

Mér varð þó að ósk minni og veðrið er ekki lengur kalt og stillt. Nú er rigning og rok en það er bara ekkert í líkingu við alvöru rigningu og rok. Rigningin fellur bara á millli vindhviða svo hún dettur bara beint niður og vindurinn er svona hógvær eins og þið sjáið á myndbandinu.

Læt þetta verða lokafærslu mína í flokknum Veður og veðurleysi, alla vega í nokkrar vikur Wink.

Knús,
Birgitta


Veðurblogg

Ég verð eiginlega að taka eina létta veðurfærslu. Og þá bara til að kvarta undan veðurleysinu í Ardsley.
VeðurleysiÞað er alltaf sama veðrið hérna - kalt, stillt og bjart. Búið að vera nákvæmlega þannig síðan ég kom frá Íslandi sem var 18.janúar. Í 9 daga!
Á meðan les ég yndislegar veðurfréttir frá Íslandi, eitthvað nýtt og spennandi á hverjum einasta degi.

Ég er alveg viss um að þetta hefur áhrif á geðslag þjóða, fólkið hérna þarf t.d. aldrei að hafa áhyggjur af veðrinu. Þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að fara í vinnuna í blíðskaparveðri og vera svo óvænt veðurteppt í vinnunni. Hérna stenst veðurspáin! Ég get skoðað veðurspá næstu 3ja daga og vitað upp á hár hvernig er best að klæða börnin í skólann þá daga. Gæti jafnvel lagt fram fötin þeirra fyrir vikuna og það myndi aldrei koma fyrir að þau væru vanbúin í skólanum.

Enda er það stórmerkilegt að fólkið hérna talar barasta aldrei um veðrið. Mikið er gott að fá smá útrás fyrir veðurspjallsþörfina Wink.

Við fjölskyldan erum búin að liggja í Næturvaktinni síðan um jólin - reyndar með löngum hléum vegna flakksins á foreldrunum en vorum að byrja aftur í gærkvöldi. Þættir eru auðvitað bara snilld og gaman að því hvernig þeir höfða til allra fjölskyldumeðlima þó það sé kannski ekki alveg á sama hátt. Það er verst að við getum ekki notað alla frasana nema innan heimilisins, höfum reynt að þýða þá á ensku en það hljómar ekki nærri því eins vel. Ég stakk reyndar upp á því að börnin prófuðu að nota "Sæll!" á krakkana í skólanum en þau eru eitthvað rög við það.
GeorgGeorgina

Lýk þessu á tveimur Georgs Bjarnfreðarsonar-eftirhermum Tounge.

Farið vel með ykkur,
Birgitta


Ripstik

Langaði að sýna ömmu og afa í Hraunbænum hvað krakkarnir eru orðin klár á Ripstik-inu sem þau fengu í jólagjöf.
Þau héldu Sirkussýningu fyrir mig í gær, ótrúlega flott. Kemur sér vel að hafa allt þetta pláss í kjallaranum Wink.

ripstikGræjan lítur svona út og er ferlega sniðug. Ótrúlega erfitt að halda jafnvægi á þessu en það er alveg frábært hvað krakkarnir eru orðin góð, þjóta hérna útum allt. Það er annað myndband hérna til hliðar í "Nýjustu myndböndin".

Knús,

Birgitta 


Loksins

Jahérna hér, ég er aldeilis ekki að standa mig í stykkinu, ekki búin að setja inn færslu í alltof marga daga.
Ég er samt löglega afsökuð, er búin að vera viku á Íslandi í skólanum og því ekki alveg með púlsinn á því sem var að gerast hérna í Ammríkunni á meðan.

BókaflóðSkólatörnin mín var rosalega skemmtileg. Það eru þvílík forréttindi að fá að læra það sem maður hefur mestan áhuga á. Önnin fer að mestu í bókalestur og greiningar bókmennta og mikið ofboðslega þykir mér þetta spennandi. Hérna er mynd af mestum hluta lesefnisins í vetur, það vantar þarna nokkrar bækur sem eru í pöntun og skila sér vonandi fljótlega.
Önnin verður samt frekar strembin, eins og sést kannski á myndinni, rosalega margar bækur sem ég þarf að lesa og mörg verkefni sem ég þarf að skila.
En það er bara gaman Smile.

Krakkarnir voru að vonum kátir að fá mömmurnar sínar heim. Segi mömmurnar því Auðbjörg kom með mér út til að hitta hana Köru sína. Þær ákváðu svo að eyða nóttu saman í stórborginni og eru því núna á Manhattan.

LaufasmölunVið hin erum bara búin að vera í rólegheitunum. Fyrir utan að krakkarnir tóku rosalegan laufaskurk í gær. Garðálfarnir okkar hrúguðu nefnilega öllum laufunum bara við vegakantinn og við erum búin að bíða síðan í nóvember eftir því að þeir kæmu og tækju hrúguna. Svo fengum við vinsamlega ábendingu frá bæjaryfirvöldum um að þetta væri komið gott svo Gummi setti börnin í vinnu. Þau eru búin að standa sig eins og ofurhetjur. Við erum nefnilega ekki að tala um 1-2 ruslapoka af laufum, þetta endaði í 15 pokum! Þegar ég kom heim höfðu þau verið að myndast við þetta í þrjá daga og kláruðu svo með trukki og dýfu í gær.


Framundan er svo skólatörn hjá okkur öllum. Þriðja "quarter" er að byrja í næstu viku hjá börnunum sem þýðir að þau fá minni stuðning en þau hafa fengið undanfarna mánuði. Þau eiga öll að geta höndlað það en það verður kannski ívið meira álag.
Í febrúar er ætlunin að keyra til Flórída (19 tímar Sideways) og eyða miðsvetrarfríinu þar í sólinni og sandinum.
Gummi verður á einhverju flandri næstu vikurnar og ég kem svo aftur í skólann í febrúar.

Blogga nú örugglega eitthvað fram að þeim tíma Wink.

Knús í kotin ykkar,

Birgitta


Undramundur Armbeygjustjóri

Ég hélt ég myndi nú seint segja þetta en ég er komin með nóg af því að vera í fríi. Það segir kannski eitthvað um hvað mér þykir gaman í skólanum að ég er farin að bíða með óþreyju eftir að byrja aftur. Mér gekk mjög vel í báðum fögunum sem ég tók í haust, fékk 9 í báðum og er virkilega sátt við það.

Það vita það nú líklega flestir að aðstæðurnar hafa breyst heilmikið hjá okkur hérna á Krossgötunni síðustu vikur. Undramundur er að hætta sem framkvæmdastjóri Leikhúsmógúlsins og byrjar með vorinu að vinna hjá Latabæ. Hann verður yfir einni af erfiðustu deildunum þar - armbeygjudeildinni Tounge.
Þetta þýðir að hann verður að vinna að heiman fram á sumar, við hjónin verðum semsagt bæði heimavinnandi - hann uppi í armbeygjunum og ég hérna niðri að læra. Það verður örugglega frekar skrítið en mjög notalegt. Það verður alla vega mjög auðvelt að komast saman í Lunch Wink.

Það er því alveg öruggt að við flytjum öll heim næsta sumar, þetta verður bara stutt stopp á Krossgötunni í þetta skiptið. Það fer því hver að verða síðastur að koma í heimsókn, þeir sem hafa áhuga ættu að hafa samband svo við getum passað upp á að það verði ekki tví- og þríbókanir í gestarýmið Wink.

Ég er búin að setja eitthvað af myndum í Janúaralbúm, mest af því eru reyndar myndir sem ég tók á nýjasta leikfangið mitt. Við Undri fengum nefnilega dót í jólagjöf í fyrsta skipti í mörg ár og ég er búin að vera mikið dugleg að leika mér. Það er ólíkt skemmtilegra að taka myndir á alvöru myndavél, hlakka til vorsins, ætla að vera dugleg að smella af myndum héðan, hef heyrt að vorið hérna sé alveg yndislega fallegt og blómlegt. Það mætti reyndar halda að það væri komið vor núna, hitinn fór í 20 gráður í gær og er í um 17 gráðum núna, glampandi sól og fallegt. Ég á reyndar ekki von á að það endist, getur varla verið að veturinn sé svona stuttur.

Hérna til vinstri eru líka myndbönd af börnunum, undir Nýjustu myndböndin.

Knús í kotin ykkar,

Birgitta


Nýársblogg

Lífið er aðeins að skríða saman eftir Íslandsreisuna. Keyrðum upp að dyrum um 22 í gær (að staðartíma) eftir rúmlega 15 tíma ferðalag.

Íslandsdvölin var bara hreint út sagt meiriháttar! Kannski helst til stutt en það var nógu mikð span á okkur til þess að enginn náði að festa ræturnar aftur og allir þokkalega sáttir við að vera komnir aftur "heim".

SystkinVið byrjuðum Íslandsferðina á matarboði hjá Oddnýju frænku. Geggjaður matur, eins og alltaf, frábært fólk og bara meiriháttar gaman. Það er svo gott að hitta fjölskylduna, hún er það sem maður saknar mest hérna hinum megin (við hafið). Nú þurfa þau bara að standa við að koma í heimsókn til okkar Wink.

Við Undramundur lentum svo í þeirri skrítnu stöðu að vera barnlaus aðfararnótt laugardags. Börnunum var báðum boðið í næturgistingu hjá bestu vinunum og voru sko ekki leið yfir því. Við Undri vorum þó svo heppin að hafa fengið matarboð sjálf svo við nýttum barnleysið í að sleppa aðeins af okkur beislinu hjá Mörtu minni og Óla hennar. Meiriháttar í alla staði Wizard.

Á gamlárskvöldiÁ laugardeginum, þegar okkur hafði loksins tekist að slíta börnin frá vinum sínum, lögðum við svo af stað á Flúðir. Þar höfðum við það yndislegt fram á nýársdag. Árnarnir sprengjaVið spiluðum, spjölluðum, sprengdum og átum og sprengdum og átum og spiluðum og ... Tounge. Ótrúlega gott og gaman og notalegt.

Á nýársdag þurftum við svo reyndar að hendast af stað á hádegi til að ná flugvélinni heim aftur. Undramundur þarf að funda eitthvað á Íslandi þannig að hann skutlaði okkur bara á völlinn. Þar hittum við Köru sem hafði verið hjá mömmu sinni, mikið var skrítið að hafa hana ekki með okkur í öllu sem við gerðum! Það var frábært að sjá hana aftur, þreytta og káta Kissing.

Við börnin ferðuðumst svo í samtals 15 tíma (með ferðinni frá Flúðum) og ég verð að segja að við erum algjörar hetjur! Millilentum í Boston, þurftum að hlaupa á fullu spani til að ná vélinni þaðan yfir til New York og svo að keyra hingað á Krossgötuna og þetta gerðum við með bros á vör (svona næstum) allan tímann.

Gott að vera kominn í kotið sitt. Við erum reyndar alveg orðin ringluð yfir því hvað er heim og hvað er ekki heim. Við fórum nefnilega að heiman frá New York, heim til Íslands og fórum svo að heiman frá Íslandi og heim til New York Sideways.

Knús og kossar til ykkar allra,
Birgitta og co.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband