Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Ojbara Ojbara Ojbara Ullabjakk

Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum þá finnst mér ekki gaman að flytja!

Við fengum gáminn á planið á fimmtudagseftirmiðdag. Ég byrjaði strax að henda út því sem ég gat þar til Helena litlaofursystir (ætlaði að skrifa ofurlitlasystir en hún er nú ekki svo lítil LoL) kom og hjálpaði mér. Við vorum hrikalega duglegar þar til Undri kom með 2 hjálparhendur sem Undrasystir- og mágur lánuðu okkur og þá fór allt á fullt og 2 tímum, 3 pizzum og 4 bjórum síðar var allt komið úr gámi og inní hús.

Og þá leit húsið svona út:

pakk5

Þá langaði mig bara að skríða uppí rúm og undir sæng - en það var ekki hægt því rúmið var í 18 pörtum og sængin oní einhverjum kassa - einhverjum af rúmlega 100.

Og NB - þetta er stofan hér á myndinni og í henni var bara dót sem átti að vera þar, þetta er semsagt bara brotabrot af öllu saman Pinch.

Það var ekkert annað að gera en að bretta ermarnar enn hærra og vinda sér í fjörið. Við náðum að klára öll svefnherbergi að mestu þetta sama kvöld - það er ekki af honum Undramundi skafið þegar kemur að vinnu, ótrúlega duglegur maður sem ég á!pakk
Hérna er nefnilega ekkert hægt að panta sér Mario bræður til að koma og skrúfa og negla og raða - ónei! Hérna er það bara Do It Yourself takk fyrir takk.

Núna erum við loksins farin að sjá fyrir endann á þessu. Ekki eftir nema 3-4 kassar - svona kassar sem enginn veit hvar eiga að vera eða hvort er hreinlega pláss fyrir. Mig langar mest að setja þá út í skúr og ná ekki í þá fyrr en þegar ég sakna einhvers úr þeim. Er nefnilega nokkuð viss um að það gerist aldrei...
Held m.a.s. að það séu nokkrir kassar úti í bílskúr sem ég nennti ekki að taka með út og ákvað að geyma - hef ekki hugmynd um hvað er í þeim og er örugglega búin að kaupa mér nýtt ef það var eitthvað sem ég verð að eiga Whistling.

Alla vega, ég er alveg búin að sjá það að við hefðum betur keypt öll húsgögnin okkar í Ikea, New Jersey, þá hefðum við alla vega fengið þau í evrópskum stærðum. Þessi húsgögn sem við erum með eru alla vega ekki gerð fyrir íslensk hús, það er alveg ljóst. Það er rétt svo að húsið passi utan um húsgögnin, spurning um að fara að kíkja eftir stærra húsi Tounge.

Við Guðmundur furðuðum okkur á því að við fáum engan ruslpóst, ekki Fréttablaðið eða neitt af þessu sem dettur inn um lúguna sama hvað. Svo litum við út og sáum aðkomuna:

pakk2pakk3

 

 

 

 

 

Má bjóða ykkur í heimsókn?

Knús og kveðja,
Birgitta og co


Beðið eftir Gámi

Nú er ferðalaginu okkar alveg að ljúka.

Ég bíð eftir símtali frá bílstjóranum sem ætlar að keyra gáminn okkar heim í hlað. "Eftir hádegi" var okkur sagt og ég er búin að vera að bíða frá því klukkan 12:01 Wink.

Ligg nú samt ekkert í leti, er að týna saman dótið okkar hérna í H29, panta mér þvottavél og þurrkara, láta mig dreyma um nýjan, tvöfaldan ísskáp með klakavél og vatnshana, nýtt helluborð, ofn, háf og uppþvottavél og sitthvað fleira Joyful. Kostar ekkert að láta sig dreyma eða hvað?

Veit ekki hvernig verður með nettengingar í B12, hún á reyndar að vera komin skv. þjónustuaðilanum en spurning hvernig okkur gengur að koma upp nauðsynlegri aðstöðu og tengja nauðsynlega víra. Vonandi um helgina.
Það verða líklega engar fréttir af okkur fyrr en í næstu viku en þeir sem eru óþreyjufullir geta bara fengið sér bíltúr og kíkt á okkur Kissing.

Knús,
Birgitta og co


In luuuuuvvv

Já, ég held ég sé bara ástfangin! Kom á Vestfirði í fyrsta skipti á ævinni og er ennþá að jafna mig Smile (sko á besta mögulegan hátt).

10Við lögðum af stað á föstudagsmorgni og leiðin lá norður og vestur. Þar sem við vorum bæði að fara akandi vestur í fyrsta skipti vorum við nú ekki alveg örugg á öllum afleggjurum og útafbeygjum. Keyptum kort (og fullt af mat) í Borgarnesinu og þóttumst aldeilis til í slaginn.
Auðvitað tókst okkur svo að "villast" og keyra lengri leiðina en það kom ekki að sök Wink. Vorum að vísu aðeins lengur á leiðinni en við ætluðum okkur en enduðum á réttum stað sem er fyrir öllu. 9
Rétti staðurinn var Flókalundur í Vatnsfirði. Þar biðu Marta og Óli, Katla og Rökkvi okkar á besta stað á tjaldsvæðinu.

Þarna eyddum við ljúfum tíma í dund og dútlerí, sund og át og drykk og fleira slíkt sem tilheyrir útilegum. Úr Flókalundinum keyrðum við yfir heiðar og fjöll (sem ég kann ekki að nefna öll) og enduðum í Hvestu í Arnarfirði. 15Þar fóru pabbarnir í landamæraparís með börnunum, mömmurnar sátu bara í sólbaði og smelltu myndum á meðan. Hvesta er þvílík Paradís! Ég trúi bara ekki að þar eigi að byggja olíuhreinsunarstöð Pinch. 6Ég skora á alla sem vettlingi geta valdið (hljóta nú flestir að valda vettlingi...) að fara þangað áður en þetta verður eyðilagt. 2Vona að það sjáist á myndunum hvað þetta er fallegt, börnin auðvitað í forgrunni en bakgrunnurinn alveg ótrúlegur - ekki satt?

Við héldum svo áfram inn til Ísafjarðar þangað sem ég var að koma í fyrsta skipti. Eva og Katla í SímsongarðiVið fengum inni á Búinu Mörtu og Óla þar sem var farið með okkur eins og kóngafólk. Ég skammast mín nú fyrir að viðurkenna að ég er ekki alveg með sögu Búsins á hreinu, Marta mín er vonandi til í að uppfræða mig við fyrsta tækifæri...

Gummi þurfti að rjúka í bæinn á sunnudeginum, reyndar síðar en hann ætlaði þar sem ekki var flogið vegna þoku. Honum tókst svo hið frækna verk að fljúga til Reykjavíkur með lyklana að bílnum okkar í vasanum Sideways. Það gerði lítið til þar sem ég var ekkert að fara strax, fékk lyklana svo bara senda með flugi daginn eftir. Seljalandsvofur

Við gerðum alveg ótrúlega margt á þessum stutta tíma sem ég var í heimsókn; fórum á tónleika í Haukadal, í sund í Bolungavík, börnin fóru á árabát með pöbbunum, fórum í stelpuferð í bæinn og versluðum í Legg og skel (sem er besta búð í heimi skv. Evu Dröfn Joyful), í Olíubúðina þar sem keypti mér garn, fórum í Gamla bakarí, fengum dýrindisveislu í góðum félagsskap á Seljalandi og margt, margt fleira.

Ég er örugglega að gleyma einhverju hrikalega merkilegu, en það er þá bara vegna þess að ég er ennþá stútfull af fjallafegurð, ég vissi bara ekki að Ísland ætti þetta til - þó mér hafi nú alltaf þótt Ísland fallegast í heimi þá vissi ég greinilega ekki nema helminginn.

Heimferðin gekk eins og í sögu þó ég væri ein á ferð með börnin. Nýi bíllnn stóð sig eins og hetja og Árni Reynir var besti leiðsögumaður sem ég hef fengið, hann var kortastjóri og vísaði veginn og benti á markverða staði (öll bæjarstæði, ár, fjöll, hæðir, gil, fossar, hólar og heiðar á leiðinni Wink). Já, það má segja að heimferðin hafi gengið glimrandi þangað til við komum að Hvalfjarðargöngunum. Þar var einhver 'illi' búinn að velta tjaldvagninum sínum í miðjum göngum sem þýddi að öll umferð var stöðvuð í um 40 mínútur Pinch. Við misstum því af Galdrakarlinum í Oz í Elliðadalnum en verðum bara að ná því síðar.

Frábær ferð um frábær fjöll í frábærum félagsskap Grin.

... Ég er að hugsa um að halda þessari síðu opinni, fínt að setja hingað ferðafréttir fjölskyldunnar. Tók hana úr lás þar sem ekki er lengur um nein hernaðarleyndarmál að ræða - eins og staðsetningu hinna ýmsu fjölskyldumeðlima á óvinagrundu og þ.h. Tounge.
Myndir í Júlí.

Knús í kotin öll (og Búin),
Birgitta


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband