14.4.2007 | 10:18
Hið ljúfa líf
Barcelona er æðisleg!
Held ég hafi sjaldan gengið jafn mikið (fyrir utan heimsóknir í mollin í Amríkunni) og sjaldan haft það eins hrikalega gott.
Átti hinn fullkomna afmælisdag í gær.
Var vakin með afmælissöngnum frá gormunum mínum og mömmu og pabba á Íslandinu, þau á leiðinni í vinnuna og skólann.
Við Hellsibúinn komum okkur á fætur í rólegheitunum og nutum þess að vera EKKI að fara í skólann eða vinnuna. Svo tókum við ca 5 tíma labbitúr. Löbbuðum upp í Parc Guell sem er hannaður af Gaudi og er rosalega flottur og öðru vísi. Ótrúlegt hvað það var friðsælt þarna uppi á hæðinni miðað við lætin í borginni - alveg eins og að komast í annan heim.
Annars erum við að hugsa um að láta hanna fyrir okkur hús í Gaudístílnum þegar við erum orðin ógeðslega rík - haldiði að það tæki sig ekki vel út í Árbænum? Eða kannski bara í Öskjuhlíðinni?
Við (aðallega ég) vorum orðin frekar fótalúin þegar við vorum búin að þramma upp á hæsta punkt í garðinum svo við tókum bara taxa aftur niður á Catalunya torgið. Þar duttum við alveg óvart inn í H&M, Adidas, Benetton og fleiri búðir og ég keypti mér alveg helling af afmælisgjöfum - ekki leiðinlegt! Frábært að hafa svona góða ástæðu (afsökun) fyrir verslunarsýkinni .
Hvíldum okkur svo inni á hóteli fram á kvöld en þá fórum við á Casino Barcelona. Verð nú að segja að það jafnaðist akkúrat ekkert á við Casínóin í Vegas, var eiginlega bara eins og bingó í Vinabæ í samanburði en það var hægt að rúlettast og fara í Black Jack og við létum það duga okkur. Ég hugsaði samt oft að enginn af dílerunum þarna hefðu fengið vinnu í Vegas, þvílíkur hægagangur og stundum klaufaskapur hjá þeim - ussumsvei.
Við náðum samt að vera á þvílíku blússi til miðnættis (afmælið mitt OG föstudagurinn 13ndi - þvílíkur happadagur!) en um leið og klukkan sló 12 var öskubuskuævintýrið úti og við töpuðum öllu saman á ótrúlegum hraða - öllu því sem við byrjuðum með + öllum gróðanum.
Við ákváðum að láta skynsemina ráða og að reyna ekki að vinna upp tapið enda var þetta orðið ágætt.
Dagurinn í dag á bara að fara í leti og leti og leti. Kannski taka einn stuttan göngutúr, kannski bara hanga inni á herbergi og gera ekki neitt, kannski bara rölta um og kíkja í búðir eða setjast á kaffihús og skoða fólk - kemur bara í ljós.
Ég á reyndar ennþá eftir að finna alla þessar brjálæðislega flottu skóbúðir sem allir tala um. Hef sko svipast um eftir þeim en bara séð þessar týpísku sandalabúðir eða íþróttaskóbúðir. Kannski bara ágætt svosem, hef ekkert voðalega mikið pláss eftir í fluffutöskunni minni - gæti samt líklega smeygt þar oní einu litlu pari af skóm eða bara skilið gömlu, lúnu gönguskóna mína eftir en bara fyrir rétta parið!
Þar til næst...
B
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.