Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Það sem er hægt að gera standandi....

Bakið er enn að angra gömluna mig (nokkuð viss um að það er engin fjallkona í bumbunni). Þetta er orðið þannig að ég get eiginlega bara staðið eða legið, það er vont að sitja lengi.

Ég er því búin að nota daginn í að finna mér eitthvað til dundurs sem ég get staðið við. Það er ekkert gaman að lesa standandi, held engri einbeitingu við það.
Fyrst var auðvitað að ryksuga - veit að það er ekki sniðugt með bilað bak en það er svo leiðinlegt að skjögra um á skítugu gólfi.
Svo bakaði ég - engar setur yfir bakstri svo þetta hentaði mjög vel. Bakaði þetta fína tilbrigði við sjónvarpstertu. Ákvað að taka suma mér til fyrirmyndar og setti spelt í staðinn fyrir hveiti, hrásykur í stað sykurs, tröllahafra í staðinn fyrir kókosmjöl og af því ég átti ekki lífrænt ræktað íslenskt smjör setti ég kókosolíu í staðinn. Borið fram með lífrænt ræktuðum Kjörs - algjört sælgæti! Mun betra en venjuleg, bæði að mati mínu og dótturinnar.
Þvoði þvott (ókei, ég veit að maður bograr og baksar við þvottinn en hann þvær sig ekki sjálfur Pinch).
Slétti á mér lubbann (sem btw varð ekkert sléttur eftir brasilísku meðferðina).

Og nú vantar mig uppástungur. Hvað fleira er gaman að gera standandi?
(ekkert þannig, veit sko alveg hvað þú varst að hugsa Sideways)

Þar til næst...

B


Leyndósaga

Þegar við fluttum út fyrir ári síðan áttum við kisu.
Leigjendurnir okkar voru svo óskaplega yndisleg að leyfa henni að vera hjá þeim en því miður kom upp bráðaofnæmi svo það gekk ekki.
Ég fór því á fullt að reyna að redda einhverju góðu heimili handa kisu minni. Auglýsti hér og þar og alls staðar og var orðin frekar örvæntingarfull þegar fjölskylda í Hlíðunum bauðst loksins til að taka hana að sér.

Það var erfitt að segja börnunum að við hefðum þurft að gefa kisu. Þau voru búin að eiga hana lengi og söknuðu hennar sárt, enn verra var þegar þau áttu hana ekki lengur.
Litla sponsið mitt tók þessu gífurlega illa, henni þótti þetta svo óréttlátt og vildi helst að kisa væri bara í geymslu hjá Hlíðafólki og að við mættum ná í hana þegar við flyttum aftur heim. Það var erfitt að segja henni að það væri ekki hægt.

Pabbi hennar tók hana í smá kennslustund í jákvæðum hugsunum og fór að segja henni frá Secret og hvernig maður getur fengið allt sem maður vill með réttu hugarfari. Svo lét hann hana hafa 'Secretkassa' og sagði henni að skrifa niður eða teikna mynd af öllu því sem hana langar að eignast. Hugsa sér svo að hún ætti þetta nú þegar og haga sér þannig o.s.frv.

Við heimsóttum kisu svo í vetrarfríinu og það var ósköp gott að sjá hana. Þá lét ég Hlíðafólkið vita að við myndum flytja heim með sumrinu og að ef þau vantaði einhvern tíma pössun fyrir kisu þá væri hún alltaf velkomin í heimsókn til okkar.

Í maí fékk ég svo tölvupóst frá Hlílðafólkinu - þau voru að flytja og gátu ekki haft kisu lengur, hvort hún mætti nokkuð flytja aftur til okkar?
Ætla ekki að segja ykkur hversu hátt var argað og mikið dansað á heimilinu. Litla sponsið fór að háhágráta hún var svo glöð.

Þá um kvöldið dró hún fram 'Secretkassann' sinn og sýndi mér ofan í hann.

Kassinn var fullur af myndum af kisu, nafninu hennar á miðum - litlum og stórum, skreyttum og einföldum - útprentuðum ljósmyndum af henni, bænum til Guðs um að kisa fengi að koma aftur heim og fleiru í þeim dúr.

Sponsið er í Vindáshlíð núna, kemur heim á fimmtudag. Í gærkvöldi fórum við og sóttum kisu. Kisa mun semsagt bíða hennar þegar hún kemur heim.

Ég hlakka svoooo til Grin.

Þar til næst...

B


Bara sko

Meðan ég sit hérna og bíð eftir símtali frá gámamanninum góða sem ætlar að keyra búslóðina mína heim er ég að huxa smá um málfar og orðalag.

Komst að því að ég nota alltof mikið af einhverjum leiðinda smáorðum.
Bara, sko, þúst (þú veist) o.s.frv.

Ætla að gera heiðarlega tilraun til að þurrka þessi litlu óþarfa grey úr orðaforðanum í bili. Þessi færsla er til að mynda alveg laus við bara og sko, sem eru orðin sem ég nota alltof mikið.

Sko bara mig!

B


Styttist heim

Það styttist í að við komumst alla leiðina heim Smile. Gámurinn er kominn til landsins, ég er búin að fylla út fullt af skjölum og fara með til Tollsins og nú eiga þeir bara eftir að gramsa í hnífapörum og ísskápsseglum, naríum og náttfötum og fleiru skemmtilegu og fullvissa sig um að við séum ekki með neitt óhreint í gámahorninu (nema kannski óhreint tau) og þá getum við skellt ferlíkinu í innkeyrsluna og byrjað að moka út.

Það er ótrúlega gott að vera í ömmu- og afakoti en heima er best segir einhvers staðar og ég held að við litla fjölskyldan séum öll tilbúin að komast alla leiðina heim og ljúka þessu ferðalagi okkar.

Þar til næst...

B


Bakveikt gamalmenni

Líður eins og ég sé orðin 102 ára.
Eða eins og ég sé komin 8 3/4 mánuði á leið.

Er með einhvern óþverra í bakinu sem gerir það að verkum að ég skapplappast (*þetta er víst varla orð, finnst það samt svo fyndið að ég ætla að leyfa því að standa) um, annað hvort með hönd á mjöðm og magann út eða hokin eins og gamalmenni.

Líklegasta skýringin er svefn á mörgum misgóðum dýnum í misbreiðum fletum undanfarna daga. Sparkaði ektamanninum úr rúminu í gærkveldi og er ekki frá því að ég hafi skánað eilítið við að fá að breiða úr mér í friði.

Svo gæti skýringin reyndar líka verið að Mörtu hafi tekist að dreyma í mig stúlkubarn - hún er alla vega búin að reyna það mikið. Og maginn búinn að stækka eitthvað síðan við komum heim - ég sem hélt að maður ætti að fitna í USAnu, ekki á Íslandinu..?
Nehh, það þyrftu að vera rammgöldróttar draumfarir ef það hefur tekist hjá henni.

Þar til næst...

B


Rafastugl

Einhver leiðinda böggur í kollinum á mér þessa dagana. Spurning hvort það tengist eitthvað flutningi á milli heimsálfa...

Böggurinn lýsir sér þannig að ósjálfrátt og óviðrátt svissa ég stöfum í orðum, sérstaklega í samsettum orðum. Þetta getur verið mjög skondið en skal alveg viðurkennast að er frekar leiðigjarnt til lengdar. Sérstaklega af því þetta er ekki viljandi gert heldur gerist bara einhvern veginn án þess að ég fái nokkuð við ráðið. Ætli þetta sé merki um einhvers konar geðveilu??

Dæmi um það sem hefur skotið upp í kollinn á mér er:

Sílabala
Terðafaska
Holfganskar
Veitarlefur
Tultusau
Frottbör

Fyrir utan öll nöfnin sem brenglast í kollinum - uss puss.

Þar til næst...

I


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband