22.7.2008 | 10:59
Leyndósaga
Þegar við fluttum út fyrir ári síðan áttum við kisu.
Leigjendurnir okkar voru svo óskaplega yndisleg að leyfa henni að vera hjá þeim en því miður kom upp bráðaofnæmi svo það gekk ekki.
Ég fór því á fullt að reyna að redda einhverju góðu heimili handa kisu minni. Auglýsti hér og þar og alls staðar og var orðin frekar örvæntingarfull þegar fjölskylda í Hlíðunum bauðst loksins til að taka hana að sér.
Það var erfitt að segja börnunum að við hefðum þurft að gefa kisu. Þau voru búin að eiga hana lengi og söknuðu hennar sárt, enn verra var þegar þau áttu hana ekki lengur.
Litla sponsið mitt tók þessu gífurlega illa, henni þótti þetta svo óréttlátt og vildi helst að kisa væri bara í geymslu hjá Hlíðafólki og að við mættum ná í hana þegar við flyttum aftur heim. Það var erfitt að segja henni að það væri ekki hægt.
Pabbi hennar tók hana í smá kennslustund í jákvæðum hugsunum og fór að segja henni frá Secret og hvernig maður getur fengið allt sem maður vill með réttu hugarfari. Svo lét hann hana hafa 'Secretkassa' og sagði henni að skrifa niður eða teikna mynd af öllu því sem hana langar að eignast. Hugsa sér svo að hún ætti þetta nú þegar og haga sér þannig o.s.frv.
Við heimsóttum kisu svo í vetrarfríinu og það var ósköp gott að sjá hana. Þá lét ég Hlíðafólkið vita að við myndum flytja heim með sumrinu og að ef þau vantaði einhvern tíma pössun fyrir kisu þá væri hún alltaf velkomin í heimsókn til okkar.
Í maí fékk ég svo tölvupóst frá Hlílðafólkinu - þau voru að flytja og gátu ekki haft kisu lengur, hvort hún mætti nokkuð flytja aftur til okkar?
Ætla ekki að segja ykkur hversu hátt var argað og mikið dansað á heimilinu. Litla sponsið fór að háhágráta hún var svo glöð.
Þá um kvöldið dró hún fram 'Secretkassann' sinn og sýndi mér ofan í hann.
Kassinn var fullur af myndum af kisu, nafninu hennar á miðum - litlum og stórum, skreyttum og einföldum - útprentuðum ljósmyndum af henni, bænum til Guðs um að kisa fengi að koma aftur heim og fleiru í þeim dúr.
Sponsið er í Vindáshlíð núna, kemur heim á fimmtudag. Í gærkvöldi fórum við og sóttum kisu. Kisa mun semsagt bíða hennar þegar hún kemur heim.
Ég hlakka svoooo til .
Þar til næst...
B
Athugasemdir
Æ nú volaði ég... meira þetta grenj á konunni daginn út og inn.
Og já, klukkan er 6:36... ég gat ekki sofið af því ég átti eftir að þrífa ísskápinn. Klikkuð kerling.
Edda (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 05:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.