Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
24.12.2007 | 14:52
Gleðileg jól
Elsku vinir, kunningjar, ættingjar og aðrir.
Megi jólin veita ykkur gleði og frið og nýja árið færa ykkur hamingju og farsæld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2007 | 13:51
"uppsafnað frjósemishlutfall"
Hvað í ósköpunum er "uppsafnað frjósemishlutfall"??
Ef Íslendingar eignast að meðaltali rúmlega 2 börn og ég á 2 stykki, er ég þá með uppsafnað frjósemishlutfall? Eða hef ég ekki náð uppsöfnuðu frjósemishlutfalli?
Svo er spurning með muninn á náttúrulegri fjölgun og ónáttúrulegri .
Og hvað er eiginlega flutningsjöfnuður? Er ég flutningsjöfnuð? Eða þarf kannski að flutningsjafna mig af því ég er brottflutt?
Mér þykir þessi frétt ferlega skondin, hún kitlar alla vega einhverjar flissutaugar í mér.
Þar til næst...
B
Íslendingar orðnir 312 þúsund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2007 | 23:06
Út'á stoppistöð
Heimilið mitt er að verða eins og stoppistöð.
Stoppistöð póstútkeyrslumanna og -kvenna.
Á hverjum degi stoppa hérna bílar merktir UPS, FEDEX, USPS, DHL og örugglega fleirum sem ég man ekki nafnið (eða skammstöfunina á).
Þeir bera með sér pappakassa merkta hinum ýmsu fyrirtækjum - Amazon kannski helst en mörgum öðrum líka.
Það er ekkert smá GEÐVEIKT að sitja eins og prinsessa við tölvuna og smella smella smella og fá svo, nokkrum dögum seinna, heimfluttan pakka með alls konar spennandi dóti.
Reyndar er þetta eiginlega OF auðvelt, maður þarf ekki einu sinni að horfa framan í vísakortið, engin leið að koma að samviskubiti - eða bara viti .
Þar til næst...
B
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2007 | 23:20
Frá toppnum á botninn
Alveg er þetta magnað!
Ég skila af mér ritgerð og er 100% viss um að ég hafi skilað af mér þvílíkri snilld og að ég fái fína einkunn fyrir. Enda búin að leggja í hana blóð, svita og tár og læra eins og brjáluð manneskja alla önnina.
Ég geng útúr prófi og er svo ánægð með það að ég er alveg í skýjunum.
Svo líður dagur.
Og ég er ekki alveg jafn viss um árangurinn. Kannski var hann ekki alveg svona góður.
Svo líður næsti dagur.
Og mig fer að gruna að ritgerðin hafi nú kannski verið frekar grunn. Og innihaldsrýr. Og kannski bara frekar slöpp. Og eiginlega bara alveg glötuð!
Og að svörin á prófinu hafi ekki tengst spurningunum á nokkurn hátt. Og hafi því bara verið alveg gjörsamlega útúr kú. Og að kennararnir sitji núna og hlæi sig máttlausa yfir vitleysunni sem getur oltið uppúr einum nemanda.
Það er á þessum tímapunkti sem ég fer að fríska upp á (refresha) Ugluna á 5 mín. fresti.
Með kvíðahnút í maganum. Sem stækkar bara og stækkar.
Þetta upplifi ég tvisvar á ári - sjálfviljug.
Þar til næst...
B
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.12.2007 | 16:09
Vonbrigði
Ég varð fyrir hrikalegum vonbrigðum með myndina.
Við krakkarnir vorum búin að hlakka svo mikið til að sjá hana því bækurnar eru hrein snilld en myndin stóð engan veginn undir væntingum.
Og eiginlega bara langt því frá.
Ef þú hefur lesið bókina er hætt við að þú verðir fyrir vonbrigðum með myndina, hún fer illa með efnið, ruglar atburðum og persónum og hana vantar alveg töfra bókarinnar.
Ef þú hefur ekki lesið bókina færðu varla nokkurn botn í myndina.
Svo ég get ekki mælt með myndinni fyrir neinn.
Þar til næst...
B
Vonbrigði með aðsókn á Gyllta áttavitann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2007 | 16:10
Gáfurnar í gleraugunum
Ég er búin að komast að því að gáfurnar mínar eru EKKI í gleraugunum.
Ég er mun gáfaðari með linsurnar.
Ef ég set svo á mig andlit, með augum og vörum og öllu, þá alveg margfaldast gáfurnar og ég er fær í allt.
Þess vegna sig ég núna stífmáluð, með linsurnar, við tölvuskjáinn og læri.
Og þvílíka snilldin sem vellur frá mér!
Þar til næst...
B
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2007 | 20:20
Skrattinn úr sauðaleggnum
Er búin að vera að lesa bók fyrir börnin, sem er svosem ekki í frásögur færandi, nema hvað þetta orðatiltæki kemur nokkrum sinnum fyrir - eins og skrattinn úr sauðaleggnum.
Ég gat útskýrt merkinguna en þekki ekki þjóðsöguna sem þetta er úr. Og börnin vilja auðvitað vita hvaðan þetta kemur.
Er búin að googla og skoða vísindavefinn en finn ekkert sem getur hjálpað og leita því til ykkar kæru lesendur (hversu margir sem þið svo eruð):
Getur einhver sagt mér söguna um skrattann í sauðaleggnum? (geri ráð fyrir að hann hafi verið í honum fyrst hann kemur úr honum ).
Fyrirfram þakkir,
B
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2007 | 16:55
Þefnæmi
Þar sem ég bý í útlandinu er húsið mitt kynnt með gasi.
Í gær, uppúr kvöldmat, fann ég allt í einu megna gaslykt.
Enginn annar fjölskyldumeðlimur fann nokkuð athugavert við lyktina í húsinu en það er lítið að marka því það hefur margsannað sig að mamman er lygilega næm á alls kyns lykt, hvort sem það er angan eða fnykur.
Ég ákvað að lofta aðeins út, datt í hug að lyktin tengdist kvöldmatnum. Það virkaði fínt meðan hurðin var opin en svo fann ég lyktina strax aftur þegar við lokuðum.
Við ákváðum að það væri "better to be safe than sorry" og hringdum í The GasCompany. Hann lét okkur hnusa út í loftið á hinum ýmsu stöðum en ákvað svo að það væri "better to be safe than sorry" og kom.
Við fengum þau fyrirmæli að við mættum ekki kveikja eða slökkva nein ljós, ekki setja neitt í gang og bara ekki snerta neitt sem tengist rafmagni - það var alveg ótrúlega erfitt.
Meðan við biðum eftir honum loftuðum við vel út og lyktin minnkaði verulega. Þrátt fyrir að undirrituð hafi verið sú eina sem fann lyktina voru aðrir fjölskyldumeðlimir farnir að fá höfuðverk, sumir svima og einhverjir með doða í vörum.
Gasmaðurinn var með hin ýmsustu tæki og mældi gasmagnið í skotum og skúmaskotum en fann ekki neitt fyrir utan oggupoggupínkuponsulítinn leka í kjallaranum en alls ekki nægan til að lyktin af honum finndist upp á næstu hæð.
Það var því engin rökrétt skýring á lyktinni; höfuðverkinn, svimann og varadoðann vil ég skrifa á fjöldamóðursýki (mass hysteria). Við gátum alla vega farið að sofa óhult í vissunni um að við myndum ekki vakna upp dauð úr gaseitrun.
Þar til næst...
B (ég þykist finna fnyyyyyk)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)