Ekki rétt... eða jú

Viðbót: Ég get ekki annað en étið þetta ofan í mig aftur. Þetta var víst allt saman hárrétt og við í þriðja sæti riðilsins. Vil kenna ÓL síðunni þar um sem og minni eigin fljótfærni Wink.

Í fyrsta lagi unnu þeir auðvitað Suður Kóreu ekki Egyptaland og í öðru lagi getum við ekki farið neðar en í annað sætið í riðlinum.

Staðan er svona núna, áður en DK og DE keppa:

Handbolti

Humm, veit ekki hvort þetta sést. Alla vega er Ísland efst í riðlinum með 6 stig og  5 mörk í plús. S-Kórea í öðru sæti með 6 stig og 7 mörk í mínus.
Ef Þýskaland vinnur förum við í 2. sætið, S-Kórea í 3. og Rússar í 4.
Ef Danmörk vinnur þurfa þeir að vinna með meira en 5 mörkum til að fara yfir okkur og ef liðin gera jafntefli þá yrðum við í efsta sætinu með jafnmörg stig og DE og S-Kórea en með fleiri mörk í plús.

Hægt að skoða þetta betur hjá IHF.

Þar til næst...

B


mbl.is Rússar unnu stórsigur á Suður Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf í boltanum...

Það kemst fátt annað að þessa dagana en handbolti. Sem betur fer er mér að takast að smita börnin af handboltaáhuganum svo ég er ekki lengur ein eða flúin til gömlu þegar mikilvægir leikir eru sýndir.
Sponsið horfir reyndar stundum meira á mömmuna sína en sjónvarpið, held henni lítist ekkert á það hvað mamman getur orðið hrikalega æst. Hún spurði áðan greyið hvort ég væri nokkuð að fá hjartaáfall Whistling.
Og orðbragðið á mömmunni og ömmunni - úff púff! Það er sko ekki til fyrirmyndar. Mætti alveg 'pííííípa' okkur út stundum. Tala nú ekki um leik þegar dómara%#$X haga sér eins og núna áðan...

Fyrir þá sem eru svona sokknir í boltann eins og ég þá eru hérna 2 frábærar síður:

Þessi er yfir stöðuna í riðlunum, uppfærist ca 3 mín eftir leikslok. Takið eftir hvað það er magnað að sjá hvað B-riðillinn er jafn miðað við A-riðilinn.

Handball Tournament Summary

Svo er hérna tímarnir á öllum leikjunum:

Match Schedule

Báðar síðurnar eru á vegum IHF - AlþjóðaHandknattleiksSambandið.

ÁFRAM ÍSLAND Wizard

B


Og ekki batnar það

Í annarri færslu tengdri þessari frétt er kvartað undan því að allar upplýsingar vanti í fréttina. Nú hefur fréttaritari greinilega tekið ábendingunni og lagfært fréttina en enn er mér ekki ljóst hverju á að mótmæla:

"Félagið vill með því mótmæla að barnalagafrumvarpi  Daggar Pálsdóttur alþingiskonu, sem var ekki afgreitt úr allsherjarnefnd alþingis fyrir þinglok í vor."

Getur einhver frætt mig um það? 

Þar til næst...

B

 


mbl.is Foreldrar boða táknræn mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lognið eftir storminn

Eiginlega þannig tilfinning hérna í B12 - svona lognið eftir storminn fílingur.

Allir bara í endalausum rólegheitum, mest að njóta þess að vera heima hjá sér og þurfa hvorki að pakka niður né upp. Svoooo gott að eiga herbergin sín aftur og geta kúrt í rúminu sínu með bók eða leikið við vinina eða kíkt í kaffi eða fengið einhvern í kaffi eða skotist í sund eða bara endalaust.

Alla vega það mikil leti á bænum að það er ekki séns að maður nenni að fara að taka til á blogginu eftir diskastæðuvesenið hjá þeim mbl-mönnum. Það verður bara að bíða vorhreingerningarinnar.

Vona að þið hafið það ljúft yfir helgina ógurlegu - ég mun alla vega gera það.

Þar til næst...

B


Það sem er hægt að gera standandi....

Bakið er enn að angra gömluna mig (nokkuð viss um að það er engin fjallkona í bumbunni). Þetta er orðið þannig að ég get eiginlega bara staðið eða legið, það er vont að sitja lengi.

Ég er því búin að nota daginn í að finna mér eitthvað til dundurs sem ég get staðið við. Það er ekkert gaman að lesa standandi, held engri einbeitingu við það.
Fyrst var auðvitað að ryksuga - veit að það er ekki sniðugt með bilað bak en það er svo leiðinlegt að skjögra um á skítugu gólfi.
Svo bakaði ég - engar setur yfir bakstri svo þetta hentaði mjög vel. Bakaði þetta fína tilbrigði við sjónvarpstertu. Ákvað að taka suma mér til fyrirmyndar og setti spelt í staðinn fyrir hveiti, hrásykur í stað sykurs, tröllahafra í staðinn fyrir kókosmjöl og af því ég átti ekki lífrænt ræktað íslenskt smjör setti ég kókosolíu í staðinn. Borið fram með lífrænt ræktuðum Kjörs - algjört sælgæti! Mun betra en venjuleg, bæði að mati mínu og dótturinnar.
Þvoði þvott (ókei, ég veit að maður bograr og baksar við þvottinn en hann þvær sig ekki sjálfur Pinch).
Slétti á mér lubbann (sem btw varð ekkert sléttur eftir brasilísku meðferðina).

Og nú vantar mig uppástungur. Hvað fleira er gaman að gera standandi?
(ekkert þannig, veit sko alveg hvað þú varst að hugsa Sideways)

Þar til næst...

B


Leyndósaga

Þegar við fluttum út fyrir ári síðan áttum við kisu.
Leigjendurnir okkar voru svo óskaplega yndisleg að leyfa henni að vera hjá þeim en því miður kom upp bráðaofnæmi svo það gekk ekki.
Ég fór því á fullt að reyna að redda einhverju góðu heimili handa kisu minni. Auglýsti hér og þar og alls staðar og var orðin frekar örvæntingarfull þegar fjölskylda í Hlíðunum bauðst loksins til að taka hana að sér.

Það var erfitt að segja börnunum að við hefðum þurft að gefa kisu. Þau voru búin að eiga hana lengi og söknuðu hennar sárt, enn verra var þegar þau áttu hana ekki lengur.
Litla sponsið mitt tók þessu gífurlega illa, henni þótti þetta svo óréttlátt og vildi helst að kisa væri bara í geymslu hjá Hlíðafólki og að við mættum ná í hana þegar við flyttum aftur heim. Það var erfitt að segja henni að það væri ekki hægt.

Pabbi hennar tók hana í smá kennslustund í jákvæðum hugsunum og fór að segja henni frá Secret og hvernig maður getur fengið allt sem maður vill með réttu hugarfari. Svo lét hann hana hafa 'Secretkassa' og sagði henni að skrifa niður eða teikna mynd af öllu því sem hana langar að eignast. Hugsa sér svo að hún ætti þetta nú þegar og haga sér þannig o.s.frv.

Við heimsóttum kisu svo í vetrarfríinu og það var ósköp gott að sjá hana. Þá lét ég Hlíðafólkið vita að við myndum flytja heim með sumrinu og að ef þau vantaði einhvern tíma pössun fyrir kisu þá væri hún alltaf velkomin í heimsókn til okkar.

Í maí fékk ég svo tölvupóst frá Hlílðafólkinu - þau voru að flytja og gátu ekki haft kisu lengur, hvort hún mætti nokkuð flytja aftur til okkar?
Ætla ekki að segja ykkur hversu hátt var argað og mikið dansað á heimilinu. Litla sponsið fór að háhágráta hún var svo glöð.

Þá um kvöldið dró hún fram 'Secretkassann' sinn og sýndi mér ofan í hann.

Kassinn var fullur af myndum af kisu, nafninu hennar á miðum - litlum og stórum, skreyttum og einföldum - útprentuðum ljósmyndum af henni, bænum til Guðs um að kisa fengi að koma aftur heim og fleiru í þeim dúr.

Sponsið er í Vindáshlíð núna, kemur heim á fimmtudag. Í gærkvöldi fórum við og sóttum kisu. Kisa mun semsagt bíða hennar þegar hún kemur heim.

Ég hlakka svoooo til Grin.

Þar til næst...

B


Bara sko

Meðan ég sit hérna og bíð eftir símtali frá gámamanninum góða sem ætlar að keyra búslóðina mína heim er ég að huxa smá um málfar og orðalag.

Komst að því að ég nota alltof mikið af einhverjum leiðinda smáorðum.
Bara, sko, þúst (þú veist) o.s.frv.

Ætla að gera heiðarlega tilraun til að þurrka þessi litlu óþarfa grey úr orðaforðanum í bili. Þessi færsla er til að mynda alveg laus við bara og sko, sem eru orðin sem ég nota alltof mikið.

Sko bara mig!

B


Styttist heim

Það styttist í að við komumst alla leiðina heim Smile. Gámurinn er kominn til landsins, ég er búin að fylla út fullt af skjölum og fara með til Tollsins og nú eiga þeir bara eftir að gramsa í hnífapörum og ísskápsseglum, naríum og náttfötum og fleiru skemmtilegu og fullvissa sig um að við séum ekki með neitt óhreint í gámahorninu (nema kannski óhreint tau) og þá getum við skellt ferlíkinu í innkeyrsluna og byrjað að moka út.

Það er ótrúlega gott að vera í ömmu- og afakoti en heima er best segir einhvers staðar og ég held að við litla fjölskyldan séum öll tilbúin að komast alla leiðina heim og ljúka þessu ferðalagi okkar.

Þar til næst...

B


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband