24.4.2007 | 20:00
Brot úr "samræðum"
Sponsið: Hættu að skipta þér af!
Frumburðurinn: Hvað gerði ég?
Sponsið: Þú ert svo óþolandi skiptaafsamur!
Þar til næst...
B
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2007 | 18:57
Flís
Hvernig nær maður lítilli mjúkri og ljótri flís úr þykka hlutanum úr hægri lófa með flísatöng og vinstri hendi?
Vinstri hendin lætur ekki að stjórn í svona fínlega vinnu og þykkt skinn. Börnin treysta sér ekki í þetta, eru svo hrædd um að meiða mömmuna sína.
Og þetta er bara virkilega óþægilega sárt og vont - buhuhuhu (vantar alveg grátikall í tilfinningatáknin hérna).
Hvar er eiginlega Hellisbúinn manns þegar maður þarf svona mikið á honum að halda?
Mér finnst ég ekki alveg geta hlaupið heim til pabba þó ég fái flís, ekki þegar maður er að nálgast fertugt en ætli það endi ekki bara þannig.
Þar til næst...
B - á hrikalega bágt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2007 | 17:43
Berlín brennur
Mikið er þetta hrikalega sorglegt!
Agalegt að sjá þessi gömlu hús brenna, miðbærinn verður ekki svipur hjá sjón ef þau fara alveg.
Svo á maður auðvitað milljón og fimmtíu minningar úr Austurstræti 22. Þar var sko dansað og tjúttað fram á rauðar nætur þegar þetta hét Berlín (já, ég er eldgömul) og Astró.
Þetta er næstum eins og að sjá æskuheimili brenna - nei, kannski ekki alveg en samt...
Mikil mildi er að þetta gerist um hábjartan dag, býð ekki í það hvernig hefði farið um miðja nótt - hvað þá ef þetta hefði gerst að næturlagi um helgi.
Ég vona bara að slökkvistarfið muni halda áfram að ganga svona vel og að þeim takist að bjarga þessum húsum.
Þar til næst...
B
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2007 | 10:18
Hið ljúfa líf
Barcelona er æðisleg!
Held ég hafi sjaldan gengið jafn mikið (fyrir utan heimsóknir í mollin í Amríkunni) og sjaldan haft það eins hrikalega gott.
Átti hinn fullkomna afmælisdag í gær.
Var vakin með afmælissöngnum frá gormunum mínum og mömmu og pabba á Íslandinu, þau á leiðinni í vinnuna og skólann.
Við Hellsibúinn komum okkur á fætur í rólegheitunum og nutum þess að vera EKKI að fara í skólann eða vinnuna. Svo tókum við ca 5 tíma labbitúr. Löbbuðum upp í Parc Guell sem er hannaður af Gaudi og er rosalega flottur og öðru vísi. Ótrúlegt hvað það var friðsælt þarna uppi á hæðinni miðað við lætin í borginni - alveg eins og að komast í annan heim.
Annars erum við að hugsa um að láta hanna fyrir okkur hús í Gaudístílnum þegar við erum orðin ógeðslega rík - haldiði að það tæki sig ekki vel út í Árbænum? Eða kannski bara í Öskjuhlíðinni?
Við (aðallega ég) vorum orðin frekar fótalúin þegar við vorum búin að þramma upp á hæsta punkt í garðinum svo við tókum bara taxa aftur niður á Catalunya torgið. Þar duttum við alveg óvart inn í H&M, Adidas, Benetton og fleiri búðir og ég keypti mér alveg helling af afmælisgjöfum - ekki leiðinlegt! Frábært að hafa svona góða ástæðu (afsökun) fyrir verslunarsýkinni .
Hvíldum okkur svo inni á hóteli fram á kvöld en þá fórum við á Casino Barcelona. Verð nú að segja að það jafnaðist akkúrat ekkert á við Casínóin í Vegas, var eiginlega bara eins og bingó í Vinabæ í samanburði en það var hægt að rúlettast og fara í Black Jack og við létum það duga okkur. Ég hugsaði samt oft að enginn af dílerunum þarna hefðu fengið vinnu í Vegas, þvílíkur hægagangur og stundum klaufaskapur hjá þeim - ussumsvei.
Við náðum samt að vera á þvílíku blússi til miðnættis (afmælið mitt OG föstudagurinn 13ndi - þvílíkur happadagur!) en um leið og klukkan sló 12 var öskubuskuævintýrið úti og við töpuðum öllu saman á ótrúlegum hraða - öllu því sem við byrjuðum með + öllum gróðanum.
Við ákváðum að láta skynsemina ráða og að reyna ekki að vinna upp tapið enda var þetta orðið ágætt.
Dagurinn í dag á bara að fara í leti og leti og leti. Kannski taka einn stuttan göngutúr, kannski bara hanga inni á herbergi og gera ekki neitt, kannski bara rölta um og kíkja í búðir eða setjast á kaffihús og skoða fólk - kemur bara í ljós.
Ég á reyndar ennþá eftir að finna alla þessar brjálæðislega flottu skóbúðir sem allir tala um. Hef sko svipast um eftir þeim en bara séð þessar týpísku sandalabúðir eða íþróttaskóbúðir. Kannski bara ágætt svosem, hef ekkert voðalega mikið pláss eftir í fluffutöskunni minni - gæti samt líklega smeygt þar oní einu litlu pari af skóm eða bara skilið gömlu, lúnu gönguskóna mína eftir en bara fyrir rétta parið!
Þar til næst...
B
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2007 | 10:36
Akureyri og Barcelona
Nýkomin frá Akureyri og á leiðinni til Barcelona .
Við fjölskyldan fórum Norður um páskana og áttu geggjaða daga í Hlíðafjalli.
Fullorðna (og hálffullorðna) fólkið fékk einkakennslu og börnin fóru í skíðaskólann og loksins erum við farin að geta staðið á skíðunum niður heila brekku.
Börnin öll orðin ótrúlega fær, Hellisbúinn líka, það er eiginlega bara mamman sem þarf að herða sig.
Er nefnilega algjör gunga .
Þoli svo illa svona hraða, sérstaklega nið'rímóti.
En þetta hlýtur að koma einhvern tíma.
(Eða ekki)
Nenni líka ekkert að hugsa um snjó og skíði núna því ég er á fullu að undirbúa Barcelonaferð.
Búin að liggja á netinu og safna í risastórt skjal öllu því sem mig langar að skoða, smakka, sjá og njóta.
Vona bara að ég komist yfir þetta allt saman.
Vona líka að skólinn muni bíða þessa bætur, prófin byrja jú bara eftir 3 vikur!
Jæja, það kemur bara í ljós, í versta falli fell ég bara .
Þar til næst...
B
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2007 | 21:47
Nýtt lúkk
Á tímamótum þarf maður stundum að skoða sjálfan sig og endurskilgreina.
Ég komst að því að ég er ekki svarthvít lengur, heldur er ég marglituð kona með allt í gangi.
Þar til næst...
B
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2007 | 22:36
Svefnblogg
Var beðin um bloggfærslu en á voðalega erfitt með að finna eitthvað sem heldur áhuganum nógu lengi til að festa það á "blað".
Bestu bloggfærslurnar fæðast reyndar oftast þegar ég ligg í bælinu og er að reyna að sofna. Ótrúlegt hvað ég hef margt að blogga um þá.
Þá rúllar líka frá mér snilldin ein um hin merkustu málefni og það eina sem vantar er að henda því á bloggið þegar ég vakna.
Svo vakna ég og þá er eins og hausinn á mér hafi gjörsamlega tæmst yfir nóttina.
Hef ekki frumleika í að semja innkaupalista í Bónus, hvað þá að blogga hérna einhverja snilld.
Hallast að því að við séum öll í annarri vídd í svefni.
Í þeirri vídd er ég heimsfrægur bloggari sem færi fólki pælingar mínar á ótrúlega ljóðrænan og áhrifaríkan hátt.
Svo getur líka vel verið að þessar pælingar mínar fyrir svefninn séu álíka gáfulegar og innkaupalisti í Bónus en að ég sé komin með annan fótinn í draumaheiminn og því virki hann svona smellinn.
Hvur veit?
Þar til næst...
B
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.4.2007 | 11:55
Afmæli
Hún á afmæli í dag
Hún á afmæli í dag
Hún er eins árs hún bloggsíða
Hún er eins árs í dag
Það er semsagt eitt ár í dag síðan ég byrjaði að tjá mig hérna á síðunni.
Var nú eitthvað óviss í um það fyrstu færslunni hvort það yrði eitthvað úr þessu bloggi hjá mér en síðan þá hafa heimsótt mig 15812 manns eða 43,3 manns að meðaltali á dag .
Var með einhverjar hugmyndir um að koma með statistík um fjölda innleggja og athugasemda en það er ekki fræðilegur að ég nenni að telja.
Hef svo alltof mikið við tímann minn að gera núna að ég skil eiginlega ekki að ég skuli yfirhöfuð vera að blogga.
Og er því farin .
Þar til næst...
B
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)