Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Áskorun til þín...

Ég heyrði bút úr viðtali í útvarpinu um daginn sem situr svo fast í mér.
Þar var verið að segja frá því að 80% neyslunnar er í höndum 20% mannkyns (ég á samt alveg örugglega svona 10% af þessum 80 Blush).

Þetta hitti alveg í mark hjá mér því ég held ég verði neyslusjúkari með hverju árinu.
Núna byrjaði ég t.d. að kaupa jólagjafir í ágúst - af því ég ætlaði að vera svo hagsýn.
Ákvað að kanna lagerstöðuna núna áðan og komst að því að ég var búin að steingleyma jólagjöfunum sem ég keypti í ágúst (og september) og er því komin með heila hrúgu af gjöfum fyrir alltof marga - sérstaklega börnin.
Og þau hafa sko ekkert gott af öllum þessum gjöfum!

Það versta við þetta allt saman er að ég er ekki hætt. Núna eru t.d. á leiðinni pakkar frá Amazon, Eddu og JPV. Ég gleymdi nefnilega alveg að reikna með jólabókunum.
Það verða jú allir að fá jólabók - eða hvað?!

Annars kenni ég systrum mínum um þetta allt saman!
Það er ekki hollt að gefa bara síns eigins börnum gjafir - það vantar fleiri börn í familíuna! Eða bara ketti...!

Kannski að þetta sé bara gömlunni að kenna! Já, held það bara!
Veit ekki betur en að hún sé lítið skárri (ef ekki bara verri) en ég. Held hún byrji að kaupa gjafir í janúar og kaupi eina á mann í hverjum mánuði! Alla vega í hverri utanlandsferð!

 

Að öllu gríni slepptu þá er þetta eitthvað sem maður ætti virkilega að skoða hjá sjálfum sér.
Væri ekki nær að nota eitthvað af aurunum sem fara í alla þessa neyslu í eitthvað annað? Dreifa einhverju af þessum 80% sem við erum að neyta? Styrkja þá sem eiga um sárt að binda?
Nóg af málefnum til að styrkja - alveg sorglega mörg málefni nefnilega.

Ég ætla því að skora á alla sem mögulega geta að velja sér eitt málefni og styrkja það um andvirði einnar jólagjafar fyrir þessi jól.
Það má alveg hugsa með sér að maður eigi eitt systkini í viðbót, annað barn, vin, kött eða annað sem passar, því maður myndi aldrei skilja einhvern útundan! Þá hlýtur maður að geta sett nokkra aura til þeirra sem þurfa meira á því að halda en maður sjálfur.

Þar til næst...

B


Gott hjá henni!!!

Frábært hjá stelpunni að öskra!  

Veit svosem ekki á hverju maðurinn átti von...?

Mikið vona ég að þeir finni hann og saumi fastan rennilásinn hjá honum!

Þar til næst...

B


mbl.is Beraði á sér kynfærin fyrir framan 17 ára gamla skólastúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjör krútt

Varð bara að stela þessu af síðu Meðalmannsins.

Hef sjaldan séð neitt jafn sætt InLove og þessar pöndumæðgur.

Þar til næst...

B


Próflestrarleti

Á að vera að lesa fyrir próf en nenni varla að opna bók.

Það eru líka alveg 7 dagar í fyrsta prófið og ég mun líklega ekki komast í gírinn fyrr en svona 2-3 dögum fyrir próf.
Þá mun stressið hellast yfir mig af alvöru og ég mun bölva og ragna og gráta þennan tíma (sem er núna) sem ég notaði ekki til að læra.

Og ég veit þetta alveg því ég upplifði þetta fyrir ári síðan.
Og aftur í vor.
En virðist ekki geta breytt þessu.

Vinn greinilega langbest undir pressu.

Spurning hvort ég geti ekki einhvern veginn búið þessa pressu til? Gabbað sjálfa mig þannig að ég haldi að prófið sé á morgun eða hinn..?

Einhverjar hugmyndir?

Þar til næst...

B


Ótrúleg tregða..

Við hverju bjóst maðurinn? Að göngin hefðu hækkað allt í einu?

Mikið vona ég að þeir sendi honum (eða fyrirtækinu hans) reikninginn fyrir viðgerðum.

Þar til næst...

B


mbl.is Sami bíll hefur tvívegis lent á öryggisbita í Hvalfjarðargöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í ljós þrisvar í viku

Fer einhver í ljós lengur?
Held ég þekki engan sem stundar ljósabekki og langar virkilega að vita hvort þetta er dottið uppfyrir eða hvort einhverjir stundi ennþá ljósabekki.
Það eru ennþá til sólbaðsstofur svo einhver hlýtur að gera það en varla margir..?

Setti inn skoðanakönnun hérna til vinstri og þætti gaman að sjá úr henni niðurstöðurnar.

Svo kjóstu nú fyrir mig Smile.

Þar til næst...

B


mbl.is Algengi sortuæxla eykst hraðast allra krabbameina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannflúensa

Þetta er bara heilagur sannleikur.
Það verður enginn eins veikur og veikur karlmaður.

Það liggur við að þeir séu við grafarbakkann ef þeir fá smá hor í nös, hvað þá ef þeir ná sér í almennilega flensu.

Ég þekki mann (nefni engin nöfn) sem verður svo veikur þegar hann fær mannflúensuna að hann stynur og emjar - meira að segja í svefni.
Ekki bara stundum heldur alltaf!
Og telur einmitt besta ráðið að liggja í rúminu þar til hann er orðinn frískur.
Og vill fá þjónustu, tillitssemi, ástúð og umhyggju í samræmi við að hann er dauðvona.

Þessi maður (nefni aftur engin nöfn) á konu sem hefur mjööööög takmarkaða þolinmæði í svona ********skap.
Hún (ætla líka að halda hennar nafni leyndu) hefur kannski þolinmæði fyrsta daginn, ætla ekki einu veikursinni að segja fyrsta sólarhringinn því það er yfirleitt ekki svo lengi, en eftir það hefur henni lærst að það borgar sig fyrir heilsu hjónabandsins að forðast þennan fársjúka mann.
Hann þarf því að búa sér til hunangste sjálfur.
Hann þarf sjálfur að ná í nýja bók/hreina sokka/heitan bakstur/trefil/flíspeysu/teppi því ef hann biður konuna sína má hann alveg eiga von á því að fá þetta í hausinn.

Sko, það er ekki eins og konan hans sé vond! Alls ekki!
Henni verður bara alltaf hugsað til þess þegar hún sjálf er veik.
Þegar hún er veik vill maðurinn hennar bara loka hana inni í svefnherbergi og hún á að liggja í bælinu þangað til hún er frísk.
Ef hún gerir þetta ekki er hún ekki veik og getur alveg hugsað um börnin, eldað matinn, skúrað og þvegið, skutlað og sótt og hvað annað sem þarf að gera.

Hrmpfff

B


mbl.is Karlmenn kvarta meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úti er alltaf að snjóóóóóóa

Mikið er þetta yndislegt veður, einmitt svona veður eins og var alltaf í "gamla daga".

Allir krakkarnir í götunni úti að gera snjóhús og virki, fara í snjókast og búa til engla og hlátrasköllin og gleðin ómar um allt.

Ég búin að moka stíginn upp að húsinu svo pósturinn og blaðburðarfólkið komist nú að póstlúgunni.
Líka búin að skakka aðeins í leikinn þegar snjókastið fór aðeins úr böndunum.

Ætla svo að hita kakó og baka vöfflur handa krökkunum þegar þau koma inn með rauðar kinnar og kalda putta Smile.

Vona bara að þetta tolli eitthvað áfram, væri synd ef þetta breyttist í slabb og slubb um leið.

Þar til næst...

B


mbl.is Þykknar upp og dregur úr frosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú verður að vera allsber!

Þetta væri svona eins og maður flytti eitthvert út og þar væri til siðs að konur gengju í mjöööög stuttum pilsum og flegnum peysum - eða bara allsberar - og það væru sett lög um að maður yrði að gera eins ef maður ætlaði að búa þar.
Eins og ef íslenskir innflytjendur í Danmörku mættu ekki vera í lopapeysunni sinni á almannafæri.
Eins og ef íslenskir innflytjendur í USA yrðu að fara í lítaaðgerð og fitusog og líta út eins og Nicole Richie.

Ég er auðvitað hlynnt því að innflytjendur (hvert svo sem þeir hafa flutt) aðlagi sig menningu og siðum nýja landsins en mér finnst ekki hægt að ætlast til þess að þeir láti algjörlega af öllum venjum og siðum gamla landsins, sérstaklega ekki ef það brýtur gegn trú þeirra. Fyrir þær múslimakonur sem eru strangtrúaðar er örugglega álíka þægilegt að fara út á almannafæri án búrkunnar eins og fyrir íslenska konu að ganga nakta niður Laugaveginn.

Þar til næst...

B


mbl.is Hollenska ríkisstjórnin styður bann við búrkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyslugeðveiki

Mér varð hugsað til sögu sem ónefndur verslunarfrömuður sagði mér í einni jólavertíðinni.

Það var þegar Playstation 2 var að koma á markaðinn. Þær höfðu verið uppseldar og var von á sendingu þarna stuttu fyrir jól. Margir búnir að bíða lengi og orðnir frekar óþreyjufullir en kættust væntanlega þegar tilkynnt var að sendingin næði fyrir jól og yrði komin í búðir á ákveðinni dagsetningu.
Það myndaðist svo þvílík örtröð og öngþveiti í versluninni þegar vélarnar birtust að það var ekki einu sinni hægt að ná þeim af vörubrettunum.
Þessi verslunarfrömuður sagðist hafa séð til hjóna við eina stæðuna.
Karlinn þreif eina PS2 vél, leit svo í kringum sig og greip aðra.
Konan tók í öxlina á honum og sagði: "Heyrðu, við ætluðum bara að taka eina. Hvað eigum við eiginlega að gera við tvær?".
Maðurinn, orðinn tryllingslegur til augnanna, svaraði: "en kona, þær verða uppseldar aftur, það eru allir að kaupa þetta!".
Þau þráttuðu víst um þetta alla leiðina að kassanum en karlinn hafði betur og gekk út með tvær glænýjar Playstation 2 vélar.

Vona að þær hafi nýst honum vel.

Þar til næst...

B


mbl.is Ræningjar skutu mann sem beið eftir því að kaupa Playstation 3
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband